Fögnum ákvörðun umhverfisráðherra
Það mun draga mjög úr atvinnuleysi á Suðurnesjum þegar framkvæmdir hefjast af fullum krafti í Helguvík en rúmlega 4000 ársverk eru við byggingaframkvæmdirnar sem taka fjögur til sex ár. Loksins, loksins er von um að málið sé komið á hreyfingu og innlendar hindranir á undanhaldi. Umhverfisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. október 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlínu, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, og öðrum framkvæmdum sem henni eru háðar. Ráðuneytinu bárust kærur frá Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Græna netinu vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar.
Starfsgreinasambandið fagnar innilega ákvörðun umhverfisráðherra núna, en ráðherra var gagnrýndur harðlega hér á síðunni í nóvember fyrir að tefja málið að ósekju. Ákvörðun ráðherra nú ryður úr vegi stórri hindrun fyrir því að hægt sé að fara á fulla ferð með framkvæmdir í Helguvík. Fjármögnun Norðuráls liggur fyrir en ennþá eru ófrágengin mál varðandi stækkun Reykjanesvirkjunar (fjármögnun og leyfi) sem og atriði varðandi orkusamninga og fjármögnun hafnarframkvæmda í Helguvík vegna álversins. Með hóflegri bjartsýni og góðum vilja stjórnvalda ætti að vera hægt að hefja byggingaframkvæmdir að fullu í vor bæði í Helguvík og við tengdar framkvæmdir. Ekki seinna vænna miðað við hið mikla atvinnuleysi sem ríkir á Suðurnesjum.