Uppmælingarþjónusta

Starfsgreinasamband Íslands býður fyrirtækjum og stofnunum upp á þjónustu varðandi uppmælingar í ræstingum en uppmælingar byggja á vinnurannsóknum sem hafa það að markmiði að finna einföldustu og hagkvæmustu vinnuaðferðina við framkvæmd tiltekins verks og ennfremur að ljúka verkinu á sem stystum tíma.

Allar upplýsingar um þjónustuna veitir Árni Steinar Stefánsson, sérfræðingur SGS, í síma 562 6410 eða í tölvupósti (arni@sgs.is). Hér að neðan má nálgast ýmsar gagnlegar upplýsingar um þjónustuna, sbr. ferilinn og nauðsynleg gögn.

Um þjónustuna

Uppmælingar byggja á vinnurannsóknum sem hafa það að markmiði að finna einföldustu og hagkvæmustu vinnuaðferðina við framkvæmd tiltekins verks og ennfremur að ljúka verkinu á sem stystum tíma. Niðurstöður uppmælinga í ræstingum gefa til kynna hversu langan tíma það tekur að ræsta tiltekið svæði og leggja þar með grunninn að þeim tímaeiningum sem notaðar eru við launaákvarðanir samkvæmt tímamældri ákvæðisvinnu við ræstingar.

  • Möguleiki á hagræðingu í ræstingum.
  • Getur leyst ágreiningsmál sem kunna að koma upp milli atvinnurekanda og starfsfólks eða stéttarfélags.
  • Ráðgjöf og aðstoð við gerð tíðni- og verklýsinga.
  • Mælingar og útreikningar á húsnæðinu sem um ræðir.
  • Ítarleg ræstingartíðniteikning, sem afmarkar skýrt svæðin sem á að þrífa og sýnir hversu oft þrif skulu fara fram og með hvaða áherslum.
  • Skýrsla með helstu útreikningum.
  1. Verkbeiðni berst frá verkbeiðanda til Starfsgreinasambandsins (SGS) í tölvupósti eða símleiðis.
  2. SGS óskar eftir teikningum af húsnæðinu ásamt upplýsingum um ræstingartíðni, gólftegundir o.fl. (sjá sýnidæmi). Mikilvægt er að teikningarnar séu tölumerktar, skýrar og innihaldi mælikvarða. Gögnum skal skilað í tölvupósti á netfangið arni@sgs.is.
  3. SGS gerir uppmælingu á húsnæðinu út frá teikningum og tíðni- og verklýsingu og notar til þess tölvuforrit sem reiknar á nákvæman hátt út áætlaðan verktíma.
  4. SGS sendir verkbeiðanda niðurstöður uppmælingarinnar í tölvupósti, þ.e. skýrslu með útreikningum, endanlegar ræstingartíðniteikningar og tilheyrandi stuðningsgögn.

Sveitarfélög, stofnanir, lítil og stór fyrirtæki, stéttarfélög o.fl.

Hægt er að óska eftir uppmælingu á hvers kyns húsnæði, t.a.m. skólum, leikskólum, heilsugæslustöðvum, skrifstofuhúsnæði o.s.frv.

Tölvuforritið sem notað er við uppmælingarnar hefur verið þróað í yfir 30 ár, náð útbreiðslu víða um heim og er þ.a.l. talið afar nákvæmt og skila mjög áreiðanlegum niðurstöðum.

Útseldur tími er á 8.000 kr. + vsk. Heildatímafjöldi verkefnisins fer eftir stærð húsnæðisins sem mælt er upp.  Frekari upplýsingar um kostnað veitir skrifstofa SGS.

Komi upp ágreiningur um tímamælingu í ákvæðisvinnu í ræstingu, samkvæmt 22. kafla kjarasamnings SGS og SA/kafla 1.9. í kjarasamningi SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga, skal eftirfarandi málsmeðferð fylgt:

1. Atvinnurekandi og starfsmaður fari í sameiningu yfir ræstingarsvæðið og kanni eftirfarandi þætti þar sem tekið er mið af vinnutakti 130:

a) er skrifleg verklýsing til staðar og uppfyllir hún ákvæði kjarasamnings? Er verklýsing í samræmi við þau verkefni sem starfsmanni eru falin?
b) er áætlaður vinnutími í verklýsingu í samræmi við umsaminn vinnutíma starfsmanns?
c) fylgir starfsmaður verklýsingu?
d) sinnir starfsmaður öðrum verkefnum sem ekki eru tilgreind í verklýsingu?
e) eru gæði vinnunnar í samræmi við verklýsingu?
f) hefur starfsmaður öll þau áhöld og efni sem hentugust eru til ræstinga á viðkomandi svæði?
g) hefur starfsmaður fengið leiðbeiningar um notkun áhalda og efna?
h) hefur starfsmaður náð tökum á vinnuaðferð sem hentugust er á viðkomandi ræstingasvæði?
i) eru aðstæður á vinnustað óvenjulegar, t.d. vegna framkvæmda eða annarra tímabundinna aðstæðna sem áhrif geta haft á vinnutíma?
j) eru forsendur tímamælingar í samræmi við gerð húsnæðis og aðgengi að því?
k) annað sem máli kann að skipta, s.s. hvort aðfinnslur hafi komið frá verkkaupa, hvort um árstíðabundinn mun á óhreinindum sé að ræða, fjarvistir samstarfsfélaga sem leiðir til aukins álags á starfsmann o.fl. Atvinnurekandi gerir minnisblað þar sem fram kemur afstaða hans og starfsmanns til ofangreindra þátta og afhendir starfsmanni afrit. Komist atvinnurekandi og starfsmaður að sameiginlegri niðurstöðu um óbreytta tímamælingu eða breytingu á tímamælingu er sú niðurstaða skráð á minnisblaðið.

Verði atvinnurekandi ekki við beiðni starfsmanns um viðræður eða afhendir ekki minnisblað innan tveggja vikna frá því beiðni um viðræður kom fram getur starfsmaður vísað ágreiningi til stéttarfélags síns.

2. Leiði málsmeðferð samkvæmt 1. lið ekki til lausnar ágreinings getur starfsmaður óskað þess að stéttarfélag hans komi að lausn ágreinings. Málsmeðferð samkvæmt 1. lið er þá endurtekin með þátttöku fulltrúa stéttarfélags. Kjósi stéttarfélag að framkvæma tímamælingu leggur atvinnurekandi til teikningu af ræstingarsvæði þar sem flatarmál rýma kemur fram, verklýsingu og annað það sem máli skiptir við tímamælingu. Stéttarfélag skal bera tímamælingu sína undir atvinnurekanda með þeim forsendum sem hún byggir á.

3. Náist ekki samkomulag fyrir milligöngu stéttarfélags getur það vísað ágreiningi til samstarfsnefndar SA og SGS/Flóa. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa SA, einum frá viðkomandi atvinnurekanda og tveimur fulltrúum SGS/Flóa. Hlutverk nefndarinnar er að skera úr ágreiningi aðila og getur í því skyni kallað eftir gögnum frá viðkomandi atvinnurekanda og stéttarfélagi.

Sameiginleg niðurstaða samstarfsnefndar er bindandi fyrir aðila. Komist nefndin ekki að einróma niðurstöðu leitar hún til óhlutdrægs fagaðila sem hefur þekkingu og reynslu af tímamælingum í ræstingum, til að framkvæma tímamælingu. Málsmeðferð, sem felur í sér endanlega úrlausn máls, er þá sem hér segir:

a) báðir aðilar skulu samþykkja viðkomandi fagaðila,
b) viðkomandi fagaðili skal hafa viðurkennda tímastaðla sem eru uppfærðir reglulega og geta einnig framkvæmt tímamælingar á verkstað sé þess óskað,
c) viðkomandi fagaðili tímamælir verkið með því að skrá það í tímastaðal samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og gefur áætlaðan tíma eftir því,
d) kostnaður af tímamælingu fagaðila fellur að jöfnu á viðkomandi atvinnurekanda og það stéttarfélag sem vísaði máli til nefndarinnar,
e) ef niðurstaða skv. c) lið telst ekki ásættanleg af öðrum aðila málsins (vikmörk 5% ), getur sá hinn sami krafist þess að framkvæmd sé tímamæling á verkinu á verkstað af sama fagaðila,
f) kostnaður af tímamælingu fagaðila skv. e) lið fellur að öllu leiti á þann aðila sem óskaði eftir slíkri mælingu.

Gögn

Sýnidæmi - gögn til SGS Ræstingartíðni, gólftegundir o.fl. Útskýringar á tíðnikóðum og framkvæmd ræstinga Svona lestu út úr ræstingartíðniteikningunni Kynningarbæklingur
Var efnið hjálplegt?