Hvað ber nú að gera

Um Icesave málið var fyrst fjallað hér á síðunni 13. nóv. 2008. Þáverandi seðlabankastjóri varpaði einna fyrstur fram þeirri kenningu að Íslendingum bæri engin skylda til að gangast í ábyrgð vegna innlánsreikninga íslensku bankanna í útlöndum. Það kallaði á reiði Breta. Íslensku neyðarlögin staðfestu svo að innistæður á Íslandi væru bara tryggðar og Bretar ærðust. Þá voru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort að taka á sig skuldbindingar gagnavart sparifjáreigendum í útlöndum, axla ábyrgðina af auðmýkt eða berjast áfram með lögfræðina að vopni, hrokann og drambið og borga ekki neitt. Ríkisstjórn Geirs H Haarde reyndi að ná samningum um Icesave fyrir jól 2008. Það var að hennar mati eina leiðin til að fá lánafyrirgreiðslu frá AGS og öðrum ríkjum og eitt brýnasta verkefnið við endurreisn efnahagslífsins. Við urðum m.ö.o. að axla ábyrgð á innistæðunum í útlöndum hvort sem okkur líkaði betur eða ver. Þar sem upphæðirnar voru stjarnfræðilega háar þurftum við að leita aðstoðar og semja okkur út úr vandanum, viðurkenna pólitísk mistök undanfarinna ára og mæta örlögum okkar. Með fullri virðingu fyrir samninganefnd Íslands má vel vera að verkefnið hafi hreinlega verið okkur ofviða.Við hefðum þurft utanaðkomandi aðstoð strax í upphafi. Nú fjórtán mánuðum síðar, liggur á borðinu samningur um Icesave við Breta og Hollendinga. Um það er deilt hvort semja megi betur eftir að fyrirvörum Alþingis frá í sumar var hafnað. Lögum um heimild til handa fjármálaráðherra að skrifa upp á ríkisábyrgð á láni sem Bretar og Hollendingar ætla að veita Íslendingum til þess að geta staðið við skuldbindingar gagnvart sparifjáreigendum Icesave að hluta, hefur verið vísað til þjóðarinnar. Aftur eru tveir kostir í stöðunni; að taka á sig skuldbindingar, nú takmarkaðar, gagnvart sparifjáreigendum Icesave, axla ábyrgðina af auðmýkt eða berjast áfram og freista þess að ná fram ,,betri samningi” eins og það er orðað. Vel má vera að sú leið sé enn fær. Þegar íslenska bankahrunið var staðreynd skrifaði Seðlabankastjóri Evrópu, Jean ClaudeTrichet, Frökkum sem þá skipuðu forsæti ESB, minnisblað í nóv 2008, um ágalla evrópska regluverksins um innistæðutryggingar. Tilurð minnisblaðsins hefði átt að bjóða upp á mögulega aðkomu ESB að lausn á deilu okkar við Breta og Hollendiga um Icesave. Einhverra hluta vegna var sá möguleiki ekki nýttur þótt á hann hafi verið bent, að ,,leitað yrði aðstoðar til að semja okkur út úr vandanum.” Nú virðist loksins áhugi fyrir því að fá utanaðkomandi aðstoð að málinu og hafa einkum Þjóðverjar, Frakkar og Lúxemborgarar verið nefndir í því sambandi og er það vel. Ef þessi kostur er enn mögulegur þarf að láta reyna á hann strax þrátt fyrir að heimild til handa fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á láni vegna Icesave liggi nú hjá þjóðinni til samþykktar eða synjunar. Það sem er mikilvægast núna er að sú efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin stendur að, með aðkomu AGS og lánum frá Norðurlöndunum verði ekki sett í uppnám. Of mikið er í húfi. Þess vegna verður að klára Icesave, þetta nöturlega mál, sem fyrst. Samþykki þjóðin Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni verður staðan þekkt eins og hún getur orðið í versta falli. Felli þjóðin nefnd lög og meðan ekkert annað er í sjónmáli, ríkir sama óvissan áfram og var. Eitt er þó víst að Icesave-málið hverfur okkur ekki hver svo sem niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
  1. 7/8/2024 11:05:45 AM Kjarasamningur við ríkið 2024-2028 samþykktur
  2. 7/5/2024 11:51:04 AM Kosið um nýjan kjarasamning við sveitarfélögin
  3. 7/4/2024 12:49:29 PM Kjarasamningur við sveitarfélögin í höfn
  4. 7/4/2024 11:32:38 AM Kjarasamningur við Landsvirkjun samþykktur