Óheppileg ákvörðun

Í morgun ákvað forseti lýðveldisins að vísa Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mál er eins og kunnugt er ein lykilforsenda þess að unnt sé að reisa þjóðina úr þeim efnahagshörmungum sem útrásarvíkingarnir komu þjóðinni í. Enginn efast um vald forseta til að neita að undirrita lög. En slíkt vald verður að fara með af yfirvegun og ábyrgð.   Hér skal ekki lagt mat á það hver niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni en hitt er ljóst að lausn þessa máls er afar mikilvægt skref til að endurvinna traust alþjóðasamfélagsins sem er í molum eftir efnahagshrunið. Það er stefna Starfsgreinasambandsins, eins og ítrekað hefur komið fram hér á síðunni. Allt of miklar tafir hafa orðið á að ljúka málinu vegna pólitísks málþófs og nú leggur forsetinn sjálfur  stein í götu þess. Því verðum við taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú er það okkar, sem viljum afgreiða Icesave, að sannfæra þjóðina um að endurreisn atvinnulífsins sé mál málanna og að Icesave-samningurinn sé lykill að þeirri endurreisn, annað kalli á gjaldeyrshöft, atvinnuleysi og almenna fátækt til lengri tíma.   Icesave-samkomulagið sem gert var við Breta og Hollendinga hafði orðið til þess að bæta samskipti Íslands við önnur ríki, alþjóðastofnanir og fjárfesta. Aðstæður voru fram að ákvörðun forseta metnar þannig að senn væri tímabært fyrir stjórnvöld að leggja af stað í átak þar sem jákvæð þróun efnahagsmála yrði kynnt fyrir öðrum þjóðum. Þetta er nú í uppnámi. Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar.
  1. 7/15/2024 10:47:20 AM Kjarasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga 2024-2028…
  2. 7/8/2024 11:05:45 AM Kjarasamningur við ríkið 2024-2028 samþykktur
  3. 7/5/2024 11:51:04 AM Kosið um nýjan kjarasamning við sveitarfélögin
  4. 7/4/2024 12:49:29 PM Kjarasamningur við sveitarfélögin í höfn