Var logið 2008? Er það málið?
Ábyrgir embættismenn í Hollandi ásaka nú Fjármálaeftirlitið íslenska um að hafa logið að sér varðandi stöðu íslensku bankanna í ágúst 2008. Fyrrverandi forstjóri fjármálaeftirlitsins ber af sér sakir og vísar í milliuppgjör bankanna og löggilta endurskoðendur um að hér hafi allt verið í stakasta lagi. Þessu trúðu stjórnvöld eða a.m.k. vildu ekki trúa öðru. Allri gagnrýni á hina miklu útrásarvíkinga var vísað á bug með fyrirlitningu. Menntamálaráherrann þáverandi vildi að virtur erlendur sérfræðingur sem varaði við hruninu vorið 2008 „færi í endurmenntun“ og þáverandi bankamálaráherra svaraði gagnrýni aftur til ársins 2006 sem alvarlegum ásökunum „þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum.“ Þetta var þann 5. agúst 2008 aðeins tveim mánuðum fyrir hrun og hann bætti við; „ítarleg greining þessara lykilstofnana gefa ekkert annað til kynna en að íslenska bankakerfið sé mjög stöndugt.“ Auðvita trúa vandaðir embættismenn í Hollandi ekki öðru en að íslensk stjórnvöld hafi vitað eða a.m.k. mátt vita hvert stefndi, en þagað yfir því ella eða logið til að hylma yfir með sukkinu. Þeim er eins farið Hollendingum og almenningi á Íslandi sem skilur ekki enn hvernig það gat verið að íslenska bankakerfið var ekki eins „stöndugt“ og haldið var fram. Við bíðum spennt eftir rannsóknarskýrslunni. Hún leiðir sannleikann kannski í ljós.
En hvað sem sannleikanum líður standa afleiðingar af Icesave málum enn óhaggaðar. Að gera ekki upp skuldbindingar okkar við Breta og Hollendinga mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og stefnir nú endurreisn efnahagslífsins í voða. Þorvaldur Gylfason, sem einna glöggsýnastur var á hvert stefndi fyrir hrun ritaði pistil í Fréttablaðið í lok janúar þar sem hann segir m.a; „Fyrir hálfu öðru ári virtist sem kreppan yrði skammvinn, en nú er hætta á þungum afturkipp og upplausn. Ríkisstjórnin, Alþingi og forseti Íslands bera þunga ábyrgð á þeirri stöðu, sem nú er komin upp. Þetta þurfti ekki að fara svona. Þjóðin getur gripið í taumana, nema hún kjósi heldur að steypa sér fram af hengilfuginu.“ Aðrir glöggsýnir hagfræðingar, Þórólfur Matthíasson og Guðmundur Ólafsson tala í svipuðum dúr ef Icesave-málið kemst í uppnám.