Lög SGS

Lög Starfsgreinasambands Íslands sem samþykkt voru á þingi sambandsins í mars 2022.

1.01 Sambandið heitir Starfsgreinasamband Íslands, skammstafað SGS, og er samband þeirra stéttarfélaga, sem skipuð eru verkafólki (almennu og sérhæfðu) í þeim starfs- og atvinnugreinum, samanber gr. 2.01.

1.02 Sambandið er aðili að Alþýðusambandi Íslands, tekur virkan þátt í starfsemi þess og starfar í samræmi við lög þess og markmið.

1.03 Starfssvæði þess er landið allt. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

1.04
Hlutverk þess er:
Að vinna að því að allt verkafólk sé skipulagt og félagsbundið í virkum stéttarfélögum og að sameina öll stéttarfélög innan sinna vébanda til sóknar og varnar fyrir sameiginlegum hagsmunum félagsmanna þeirra og verkalýðshreyfingarinnar.

Að standa að gerð og eftirfylgni kjarasamninga eftir því sem aðildarfélögin fela því hverju sinni og koma fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna í þeim málum sem þau verða ásátt um að fela því.

Að styðja og styrkja aðildarfélögin í starfi þeirra að hagsmunum félagsmanna sinna, svo sem í vinnudeilum og í samningum við atvinnurekendur.

Að beita sér fyrir því, að aðildarfélög séu sem öflugastar félagsheildir og að félög séu ekki smærri en svo, að þau geti veitt félagsmönnum sínum þá þjónustu sem lög þessi, sem og lög og reglugerðir ASÍ mæla fyrir um.

Að veita aðildarfélögunum og fulltrúum þeirra hverskonar upplýsingar, sem þeim megi verða til gagns eða leiðbeiningar í starfi og hvetja til fræðslu hjá starfsfólki aðildarfélaganna.

Að beita sér fyrir aukinni starfsmenntun, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun m.a. með virku samstarfi við önnur stéttarfélög og sambönd þeirra og þátttöku í opinberri stefnumótun.

Sambandið er formlegur og virkur aðili að samstarfi systursamtaka þess á hinum Norðurlöndunum, innan Evrópu og víðar ef við á eftir því sem formannafundur sambandsins, að fenginni tillögu framkvæmdastjórnar, samþykkir hverju sinni.

2.01 Rétt til inngöngu í sambandið hafa þau stéttarfélög sem hafa innan sinna vébanda verkafólk (almennt og sérhæft) sem vinnur við flutninga, bygginga- og mannvirkjagerð, matvælaframleiðslu, landbúnað, iðnað, alla almenna þjónustu þ.m.t. ferðaþjónustugreinar og ræstingar, heilbrigðis-, velferðar-, og aðra almannaþjónustu, verkafólk sem starfar hjá ríki og sveitarfélögum sem og önnur almenn og sérhæfð störf verkafólks.

2.02 Nú sækir um aðild að sambandinu stéttarfélag, sem uppfyllir skilyrði laga þessara og skal þá umsókninni fylgja lög viðkomandi félags, reglugerðir sjóða þess, skrá yfir þá sem skipa stjórn þess og aðrar upplýsingar, sem máli kunna að skipta. Umsóknir eru afgreiddar til bráðabirgða af framkvæmdastjórn en endanleg afgreiðsla er hjá þingi sambandsins eða formannafundi sé hann haldinn fyrr.

2.03 Hverju aðildarfélagi er skylt að senda skrifstofu sambandsins árlega ársreikninga félagsins áritaða af löggiltum endurskoðanda og skýrslu um starfsemi félagsins á þeim tíma sem lög ASÍ mæla fyrir um og á eyðublöðum, sem sambandið lætur í té. Eyðublöðin skulu hönnuð í samvinnu við Alþýðusamband Íslands og veita m.a. eftirfarandi upplýsingar:

1. Stjórnarmenn félagsins.
2. Dagsetningu síðasta aðalfundar.
3. Aðsetur félagsins og síma.
4. Fjölda félagsmanna og skiptingu milli karla og kvenna.
5. Skiptingu félagsmanna eftir atvinnugreinum.
6. Fjölda félags- og trúnaðarmannaráðs- (trúnaðarráðs-) og stjórnarfunda.
7. Fræðslunámskeið.
8. Félagsgjald.

Hafi skýrsla og ársreikningar ekki borist innan 12 mánaða frá lokum síðasta reikningsárs, skal skrifstofa sambandsins þegar ganga eftir skilum með þeim hætti er hentugast þykir. Beri það ekki árangur og ef framkvæmdastjórn fær um það vitneskju að eitthvert aðildarfélag hafi ekki haldið aðalfund á heilu almanaksári eða ekki gert ársreikninga, skal formaður, erindreki eða aðrir þeir sem framkvæmdastjórn tilnefnir, óska eftir fundi með stjórn félagsins og vinna eftir bestu getu að því, að aðalfundur verði haldinn. Sé aðalfundur ekki haldinn í tvö ár, skal framkvæmdastjórn boða fund í félaginu og sjá til þess að afgreiddir verði reikningar og ný stjórn kosin, sbr. grein 2.04.

2.04 Telji framkvæmdastjórn að aðildarfélag uppfylli ekki skyldur sínar skv. lögum þessum eða skv. lögum sínum að einhverju leyti, er henni að fengnu samþykki

formannafundar rétt og skylt að grípa til aðgerða til að koma stafsemi í lögmætt horf skv. nánari starfsreglum formannafundar þar um.

Í slíkum aðgerðum getur falist:

a. Að boða til aðalfundar í félaginu. Fram til þess tíma sem aðalfundur er haldinn er framkvæmdastjórn heimilt að skipa félaginu tilsjónarmann en aðalfund skal við þessar aðstæður halda í síðasta lagi innan þriggja mánaða. Framkvæmdastjórn setur starfsreglur fyrir tilsjónarmann í hverju tilviki.

b. Að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um tillögu um að félagið verði sameinað öðru félagi.

c. Að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu eða könnunar um tillögu um hvað annað sem framkvæmdastjórn telur nauðsynlegt að verði borið upp í félaginu.

3.01 Reglulegt þing hefur æðsta vald í málefnum sambandsins. Þingið skal haldið á síðasta ársfjórðungi annað hvert ár. Þing skal boða bréflega með tveggja mánaða fyrirvara. Í þingboði skal tilkynna hvort þinghald verði með rafrænum hætti eða ekki.

3.02 Aukaþing sambandsins skal halda:

a) Ef framkvæmdastjórn ákveður.
b) Ef minnst 5 aðildarfélög, að félagafjölda samanlagt minnst 20% af félagatölu sambandsins, samþykkja kröfu þar um, enda sé tilgreind brýn ástæða kröfunnar og efni fundarins. Skal þá boða aukaþing eigi síðar en einum mánuði eftir að slík krafa berst framkvæmdastjórn.

Aukaþing skal boða með 4 vikna fyrirvara. Framkvæmdastjórn skal ákvarða dagskrá aukaþings. Sé til aukaþings boðað til umfjöllunar um þá dagskrárliði sem nefndir eru í 3.03, að undanskyldum g lið, skal þingið boðað með tveggja mánaða fyrirvara.

3.03 Fastir dagskrárliðir reglulegra þinga skulu vera:

a) Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemi sambandsins á liðnu ári og vinnu að markmiðum settum á síðasta þingi.
b) Reikningar sambandsins fyrir síðustu 2 ár.
c) Yfirlit yfir þróun og horfur í kjaramálum.
d) Ákvörðun um skatt aðildarfélaganna.
e) Starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta kjörtímabil.
f) Kosning framkvæmdastjórnar fyrir næsta kjörtímabil skv. gr.5.01
g) Kosning endurskoðenda og félagslegra skoðunarmanna reikninga
h) Kosning fastanefnda samkvæmt þingsköpum
i) Lagabreytingar, ef tillögur um þær liggja fyrir.

Að öðru leyti ákveður framkvæmdastjórn dagskrá þingsins og skal hún send aðildarfélögunum a.m.k. 4 vikum áður en þing hefst. Auk þeirra dagskrárliða, sem framkvæmdastjórn þannig ákveður, skal taka á dagskrá tillögur, sem óskað hefur verið ákvörðunar um af einstökum aðildarfélögum, enda hafi slíkar óskir borist framkvæmdastjórn a.m.k. 2 vikum fyrir þingið.

3.04 Skoðunarmenn reikninga eru tveir og einn til vara. Kjörnir skoðunarmenn skulu fylgjast með fjárreiðum sambandsins í samráði við löggiltan endurskoðanda þess, enda skulu reikningar sambandsins ávallt endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

3.05 Í öllum málum þingsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum, ef ekki er öðruvísi ákveðið i lögum þessum.

3.06 Þingum skal stjórnað eftir þingsköpum sambandsins, sem þingfundur hefur samþykkt.

3.07 Hverju aðildarfélagi er skylt að kjósa fulltrúa til þings úr hópi félaga sinna og fara hinir kjörnu fulltrúar með atkvæði félagsins á þinginu. Við val á þingfulltrúum skulu aðildarfélög leitast við að hafa sem jafnast kynjahlutfall og aldursskiptingu.

Heimilt er aðildarfélagi sem á 1 eða 2 fulltrúa á sambandsþingi að senda á eigin kostnað og að fengnu samþykki framkvæmdastjórnar 1 aukafulltrúa og skulu þeir njóta málfrelsis og tillöguréttar.

Kosningu þingfulltrúa sem og aukafulltrúa skal ákveða með svo löngum fyrirvara að þeim verði allstaðar lokið a.m.k. 2 vikum fyrir þing, nema framkvæmdastjórn veiti þar sérstaka undanþágu.

3.08 Útreikningur á fjölda þingfulltrúa:
Seturétt á sambandsþingi með kosningarétt og kjörgengi eiga samtals 135 þingfulltrúar sbr. þó 2.mgr. og skal þeim skipt milli aðildarfélaga í sama hlutfalli og þau greiddu skatt til sambandsins næst liðið ár. Hlutfall undir 0,5 færist niður að næstu heilu tölu og hlutfall 0,5 eða hærra færist að næstu heilu tölu.

Fái eitthvert aðildarfélag engan þingfulltrúa skal þingfulltrúum fjölgað og skal úthluta því félagi 1 fulltrúa með fullum réttindum á sambandsþinginu.

3.09 Umboð fulltrúa gildir milli reglulegra þinga, enda séu þeir fulltrúar allan tímann löglegir félagar. Að öðrum kosti taka varamenn við umboði í þeirra stað. Að varamönnum frágengnum skal fara fram aukakosning fulltrúa.

3.10 Fulltrúar félags, sem skuldar skatt til sambandsins eða önnur álögð gjöld geta ekki setið þing með fullum réttindum. Að fengnu samþykki framkvæmdastjórnar er þeim heimilt að vera áheyrnarfulltrúar án málfrelsis eða tillöguréttar.

3.11 Kjörgengir í trúnaðarstöður SGS eru allir fullgildir félagsmenn í aðildarfélögum sambandsins.

4.01 Formannafundir aðildarfélaga eru æðsta vald sambandsins milli reglulegra þinga og eru vettvangur stefnumótunar og samráðs aðildarfélaga.

Formannafundur skal kallaður saman að lágmarki 4 sinnum það ár sem þing eru ekki haldin og 3 sinnum það ár sem þing eru haldin. Framkvæmdastjórn ákveður fundarstað og fundartíma og eru fundir lögmætir ef löglega er til þeirra boðað.

Á haustfundi það ár sem reglulegt þing er ekki haldið skal ársreikningur næstliðins árs lagður fram og kynntur.

Formannafundi skal boða bréflega eða með öðrum sannanlegum hætti með minnst þriggja vikna fyrirvara, en heimilt er að stytta þann tíma við sérstakar aðstæður.

Framkvæmdastjórn getur kvatt saman aukaformannafundi þegar mjög mikilvæg eða óvænt mál ber að höndum.

Framkvæmdastjórn er skylt að kalla saman auka formannafund, ef a.m.k. 5 aðildarfélög eða aðildarfélög með samtals a.m.k. 20% af heildarfélagsmannatölu krefjast þess skriflega og greina það eða þau málefni er leggja á fyrir aukafundinn. Skal aukafundurinn kallaður saman með eins skömmum fyrirvara og aðstæður frekast leyfa.

4.02 Á formannafundum eiga sæti formenn allra aðildarfélaga sambandsins auk þeirra framkvæmdastjórnarmanna sem ekki eru jafnframt formenn aðildarfélaga. Í forföllum formanns flyst umboðið til varaformanns eða annars stjórnarmanns skv. ákvörðun stjórnar viðkomandi aðildarfélags. Framkvæmdastjórn er heimilt að boða til útvíkkaðs formannafundar þar sem formenn geta tekið með sér annan fulltrúa félagsins. Formönnum er heimilt að taka þátt í formannafundum í gegnum síma eða annan fjarfundarbúnað þegar það á við. Um þátttöku í atkvæðagreiðslum fer skv. 5.mgr. 4.05.

Félög, sem hafa ekki starfað á tímabilinu milli sambandsþings og formannafundar, hafa ekki sent skýrslu, reikninga eða hafa vanrækt skattgreiðslur eiga ekki rétt á fulltrúum. Að fengnu samþykki framkvæmdastjórnar er þeim heimilt að vera áheyrnarfulltrúar án málfrelsis eða tillöguréttar.

Kostnaður við formannafundi er borinn af aðildarfélögunum, annar en almennur funda- og starfsmannakostnaður.

4.03 Álit og ályktanir í stórmálum sem framkvæmdastjórn ætlar að leggja fyrir formannafund, skal senda aðildarsamtökunum eigi síðar en hálfum mánuði fyrir fundinn, nema sérstakar ástæður hamli.

Mál þau og tillögur sem einstök aðildarfélög óska að tekin verði fyrir á formannafundi, skal senda framkvæmdastjórn tveimur vikum fyrir formannafund og skal framkvæmdastjórn leggja mál þau og tillögur fyrir fundinn, ásamt umsögn sinni.

4.04 Formannafundum skal stjórnað eftir því sem við á skv. þingsköpum sambandsins eins og þau eru á hverjum tíma en framkvæmdastjórn skal ákveða fundarfyrirkomulag formannafunda fyrirfram hverju sinni.

Fundarstjórn er í höndum formanns sambandsins eða þess sem hann tilnefnir.

4.05 Almennt skulu mál afgreidd með einfaldri atkvæðagreiðslu fundarmanna og ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða þeirra sem á fundi eru.

Framkvæmdastjórn, eða minnst 3 formenn, geta krafist veginnar leynilegrar atkvæðagreiðslu um mál. Heimilt er að viðhafa rafræna kosningu með lokaðri kosningagátt.

Formenn aðildarfélaga fara þá með atkvæðisrétt á formannafundum í samræmi við úthlutaðan fjölda fulltrúa hvers um sig á næstliðnu sambandsþingi. Í fjarveru þeirra fara varaformenn aðildarfélaga með atkvæðisrétt á formannafundum. Framkvæmdastjórnarmenn sem ekki eru jafnframt formenn aðildarfélaga hafa seturétt með tillögurétti og málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

Til þess að tillaga teljist samþykkt á formannafundi í veginni leynilegri atkvæðagreiðslu þarf hún að hljóta einfaldan meirihluta atkvæða skv. 3. mgr. og atkvæði meirihluta þeirra formanna sem fundinn sækja.

Við leynilega atkvæðagreiðslu geta eingöngu þeir sem eru viðstaddir greitt atkvæði, nema viðkomandi hafi gefið öðrum formanni umboð til að fara með atkvæði sitt. Slíkt umboð skal vera takmarkað við ákveðið mál og afgreiðslu þess.

5.01 Í framkvæmdastjórn eiga sæti 9 einstaklingar sem kjörnir eru á þingi sambandsins. Kjósa skal formann og varaformann sérstaklega og síðan 7 aðalmenn og 5 varamenn þeirra. Leitast skal við að stjórnin endurspegli á hverjum tíma sem jafnast hlutfall kynja í forystu aðildarfélaga.

5.02 Formaður hefur yfirumsjón með allri starfsemi sambandsins og boðar til funda framkvæmdastjórnar. Formaður kemur fram fyrir hönd sambandsins út á við, nema framkvæmdastjórn ákveði annan talsmann í ákveðnum málum. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.

Forfallist formaður og/eða varaformaður varanlega skal formannafundur velja sambandinu nýjan formann og/eða varaformann fram til næsta þings. Forfallist aðalmenn taka varamenn sæti þeirra í þeirri röð sem þeir hafa verið kjörnir.

5.03 Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra sambandsins og ákveður kjör hans. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn og gerir við þá ráðningarsamninga í samráði við formann og varaformann sambandsins.

5.04 Framkvæmdastjórn fer með æðsta vald sambandsins milli formannafunda og þinga og stjórnar starfsemi sambandsins í samræmi við samþykktir þess. Hún getur skuldbundið sambandið, nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Framkvæmdastjórn er ábyrg fyrir fjármunum sambandsins og allri meðferð þeirra.

5.05 Framkvæmdastjórn heldur fundi að jafnaði annan hvern mánuð eftir ákvörðun formanns. Fundir framkvæmdastjórnar eru lögmætir ef 4 framkvæmdastjórnarmenn eru mættir til fundarins. Heimilt er að nota síma eða annan fjarfundarbúnað þegar það á við.

Fundargerðir framkvæmdastjórnar verði sendar formönnum og varaformönnum aðildarfélaga.

5.06 Aðalskrifstofa sambandsins undir stjórn framkvæmdastjóra annast daglegan rekstur, afgreiðslu, bréfaskriftir og upplýsingaþjónustu.

5.07 Framkvæmdastjórn og skrifstofu sambandsins er skylt að fylgjast nákvæmlega með kjaraþróun launastéttanna og verkafólks sérstaklega. Einnig þeim þáttum efnahagsmála, sem mótandi geta verið fyrir launamálastefnu aðildarfélaganna. Skýrsla um þessi atriði skal gefin á þingi sambandsins og á sérstökum formannafundi það ár sem þing er ekki haldið og oftar ef þurfa þykir.

6.01 Framkvæmdastjórn og formannafundir geta skipað sérstakar málefnanefndir til að sinna málefnum tengdum kjarasamningum eða öðrum málum sem aðildarfélög telja mikilvæg. Málefnanefndir starfa á ábyrgð framkvæmdastjórnar og skulu leggja mál fyrir hana til ákvörðunar.

Leitast skal við að þessar nefndir séu skipaðar einstaklingum með þekkingu á málefninu, hvort heldur um er að ræða félagsmenn eða starfsmenn aðildarfélaga. Nefndin velur sér talsmann úr sínum röðum. Málefnanefndir SGS skulu eiga kost á aðstöðu á skrifstofu sambandsins og þar skulu gögn þeirra varanlega geymd.


6.02 Málefnanefndir geta í samráði við formann og framkvæmdastjóra boðað til samráðsfunda með aðildarfélögunum um ákveðin málefni. Kostnaður af samráðsfundum málefnanefnda skal borinn af aðildarfélögum sambandsins, annar en almennur fundarkostnaður. Heimilt er að nota síma eða fjarfundabúnað þegar það á við.

7.01 Hverju félagi sambandsins er skylt að greiða til þess árlegan skatt. Skatturinn skal vera ákveðinn hundraðshluti af greiddum félagsgjöldum og ákveður reglulegt sambandsþing hver hundraðshlutinn er.

7.02 Gjalddagar á skatti til sambandsins eru fjórir á ári, þ.e. 1.febrúar, 1.apríl, 1. júlí og 1. október og skal greiða fjórðung álagðs skatts hverju sinni.

7.03 Skatturinn er áætlaður miðað við síðustu ársreikninga félaga og leiðréttist þegar nýir ársreikningar berast.

7.04 Formannafundur að fenginni tillögu frá framkvæmdarstjórn getur veit afslátt af skatti yfirstandandi árs.

Hafi skattur ekki verið greiddur 15. dag greiðslumánaðar, er félögunum skylt að greiða dráttarvexti af skuldinni þar til full skil hafa verið gerð. Miða skal við dráttarvexti útgefna af Seðlabanka Íslands.

7.05 Nú greiðir aðildarfélag ekki skatt til sambandsins þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og skal þá framkvæmdastjórn áminna viðkomandi félag ef tvær greiðslur falla niður. Aðildarfélög sem skulda skatt eiga ekki rétt á fulltrúum á formannafundum eða þingum sambandsins. Um frekari réttindamissi skal fjallað á vettvangi formannafundar sbr. Gr. 2.04

7.06 Sambandssjóður greiðir allan kostnað við fundi framkvæmdastjórnar og ferðakostnað af talsmönnum og fulltrúum sem sambandið skipar í stjórnir, nefndir og ráð skv. nánari reglum sambandsins enda sé kostnaður ekki borinn af þriðja aðila. Um greiðslur vegna kjaraviðræðna fer eftir samþykktum sambandsins hverju sinni.

Kaup á þjónustu eða sérfræðiþekkingu vegna sameiginlegra verkefna, sem leiða til verulegra kostnaðarútgjalda og greidd eru alveg eða að hluta af sambandinu, eru eingöngu heimil að fengnu samþykki framkvæmdastjórnar. Áður en afstaða er tekin til kaupa skv. framansögðu skal liggja fyrir verklýsing, kostnaðaráætlun og tillaga um skiptingu kostnaðar milli sambandsins og þeirra aðildarfélaga sem í hlut eiga.

7.07 Kostnaði við þing skal jafnað á aðildarfélögin í sama hlutfalli og þau greiða skatt til sambandsins. Til kostnaðar við þingfundi skal telja allan almennan kostnað við fundarhaldið, eðlilegan ferðakostnað fulltrúa svo og gistingarkostnað. Framkvæmdastjórn skal setja reglugerð um framkvæmd þessa lagaákvæðis og er heimilt að ákveða þar fastagjald á hvert aðildarfélag upp í kostnaðarhlutdeild. Hvert þing kýs 3ja manna nefnd, sem endurskoði útreikninga skrifstofu sambandsins á þessum kostnaði. Nú standa félög ekki skil á þessum kostnaði og skulu þá gilda sömu viðurlög og við vanskil á skatti sambandsins.

8.01 Lögum sambandsins má aðeins breyta á reglulegu þingi. Skulu jafnan vera tvær umræður um lagabreytingar og telst breyting ekki samþykkt nema 2/3 hlutar atkvæða á þingfundi samþykki hana. Lög og lagabreytingar öðlast fyrst endanlegt gildi við staðfestingu ASÍ.

8.02 Úrsögn úr sambandinu er því aðeins gild, að hún hafi verið samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu í viðkomandi félagi. Atkvæðagreiðslunni skal haga eftir reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur.

Lögin þannig samþykkt á þingi SGS 25. mars 2022

Lög SGS í heild sinni
Var efnið hjálplegt?