Afleiðingar vanrækslunnar - 24 þúsund heimili ná ekki endum saman

Sama dag og hrunaskýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var kynnt alþjóð var haldin málstofa í Seðlabanka Íslands um skuldastöðu heimilanna, sem minna fór fyrir. Karen Á. Vignisdóttir og Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingar í Seðlabanka Íslands kynntu þar niðurstöður á greiningu Seðlabankans á stöðu heimilanna í kjölfar bankahrunsins og lögðu mat á hvernig geta heimila til að standa undir greiðslubyrði lána og nauðsynlegri framfærslu hefur þróast undanfarin tvö ár. Það er rík ástæða til að vekja athygli á þessari vönduðu úttekt vegna þess að hún fjallar um skelfilegar afleiðingar hrunsins fyrir venjulegt fólk og þar af leiðandi líka afleiðingar af þeim embættisafglöpum sem kallast vanræksla í hrunaskýrslunni. Það er óþarfi að fjölyrða á þessum vettvangi um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Hún fjallar um aðdraganda og aðferðafræði þess hvernig almannahagsmunum var fórnað í þágu sérhagsmuna í rammspilltu pólitísku umhverfi. Lykilráðamenn; Davíð Oddsson, Geir H Haarde, Árni Matthiesen, Björgvin G Sigurðsson og fleiri eru sakaðir í skýrslunni um vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins, þ.e. að hafa ekki gætt almannahagsmuna eins og þeim bar m.a. með þeim afleiðingum fyrir heimilin sem þau Karen og Þorvarður hafa dregið saman. Hjá þeim kemur fram, að til við bótar við það sem nú þegar hefur verið gert í björgunaraðgerðum heimilanna,  þá eru enn tæp 24 þúsund heimili sem þurfa á frekari aðgerðum að halda, heimili sem ekki ná endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu. Hlutfall heimila í vanda er hæst á Reykjanesi, þar sem atvinnuleysið er mest og Suðurlandi auk þess sem það er hærra á ytra svæði höfuðborgarsvæðisins þar sem fjöldi nýbygginga er meiri. Hlutfallið er lægst á Austurlandi. Fram kemur í úttekt Karenar og Þorvarðar að liðlega 30% af heimilum í vanda eru í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði sem gerir þau enn viðkvæmari en ella.Vísbending er um að skuldsetning heimila í vanda vegna bílakaupa gegni mikilvægu hlutverki í að skapa þann vanda sem þau eiga við að etja. Um 3.800 af þessum heimilum eru með fleiri en eitt bílalán. Heimili með gengistryggð íbúða-eða bílalán urðu fyrir mesta áfallinu og glíma við mestu erfiðleikana í kjölfar hrunsins. Vísbendingar eru um að hlutfall heimila í vanda sé hæst í tekjulægstu hópunum og að meginþorri þeirra sem eru í vanda séu með ráðstöfunartekjur undir 250 þ.kr. á mánuði. Þetta er ein af skelfingarmyndum hrunsins og græðgisvæðingarinnar í skjóli pólitískrar spillingar og vanrækslu. Nú verða menn að axla ábyrgð, það er löngu kominn tími til að hefja endurreisn efnahagskerfisins á nýjum siðferðisgrunni þar sem almannahagsmunir njóta forgangs.
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA