Breytingar hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga frá 1. nóvember

Um síðustu mánaðarmót tóku gildi nokkur ný kjarasamningsbundin ákvæði hjá fólki sem starfar eftir kjarasamningum SGS við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Eftirtalin atriði eru meðal þeirra breytinga sem tóku gildi þann 1. nóvember síðastliðinn:

  • Vinnuvika starfsfólks í fullu starfi verður 36 virkar vinnustundir í stað 40.

  • Tímafjöldi á mánuði verður 156 tímar fyrir fullt starf í stað 173,33.

  • Starfsfólki í dagvinnu og vaktavinnu er heimilt að neyta matar og drykkja við vinnu sína þegar því verður viðkomið starfsins vegna en hefur ekki forræði yfir þeim hléum nema um annað sé samið.

  • Heimilt er með samkomulagi stjórnenda stofnunar og einfalds meirihluta þeirra starfsmanna sem málið varðar að ákvarða dagleg hlé sem eru á forræði starfsmanna. Ákvörðuð lengd þeirra lengir daglega viðveru starfsmanna samsvarandi enda eru slík hlé ekki hluti virks vinnutíma.

  • Deilitala tímavinnukaups breytist úr 0,615% af mánaðarlaunum í 0,632%.

  • Yfirvinna 2 er greidd fyrir vinnu umfram 38,92 stundir á viku hjá dagvinnufólki og er þar með eins og hjá vaktavinnufólki.

  • Bakvaktarálag hjá dagvinnufólki er eins og hjá vaktavinnufólki.

  • Útreikningur á vaktahvata breytist þannig að þegar starfsfólk hefur störf reiknast vaktahvati fyrir eitt uppgjörstímabil á fyrsta og öðrum mánuði í starfi þannig að lágmarksfjöldi stunda utan dagvinnumarka eru 42 og lágmarksfjöldi vinnuskyldustunda í hverri tegund vakta eru 15. Eftir þrjá mánuði í starfi reiknast vaktahvati sem hlutfall greiddra mánaðarlauna vegna fjölbreytileika og fjölda vakta á þremur síðustu uppgjörstímabilum samkvæmt skipulögðum vöktum innan vinnutímaskyldu.

Að þessu viðbættu má nefna að þann 1. nóvember tóku gildi nýir kauptaxtar fyrir sömu hópa sem nálgast má hér. Kauptaxtarnir gilda frá 1. nóvember 2024 til 31. mars 2025. Þá hafa reiknivélar sambandsins einnig verið uppfærðar í takt við nýja kauptaxta, en allar reiknivélar SGS má nálgast hér.

  1. 11/22/2024 2:16:19 PM Desemberuppbót 2024 - nýjar reiknivélar
  2. 11/21/2024 2:32:56 PM Kjaramálafulltrúar komu saman á fræðsludegi
  3. 11/6/2024 2:29:58 PM Breytingar hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga frá 1. nóv…
  4. 10/18/2024 3:34:22 PM Finnbjörn Hermannsson endurkjörinn forseti ASÍ