Grímulaus leið misskiptingar og ójöfnuðar

Félagsfundur Bárunnar stéttarfélags samþykkti þann 6. október  ályktun um þá grímulausu leið misskiptingar og ójöfnuðar sem einkennir orðið íslenskt samfélag, eins og segir í ályktuninni. Báran, stéttarfélag harmar þann trúnaðarbrest sem orðið hefur á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá undirritun kjarasamninga þann 21. desember 2013. Enn og aftur þurfa þeir sem lægstu launin hafa að bera hitann og þungann á stöðugleikanum. Samtök atvinnulífsins eru óþreytt að hamra á „góðum árangri“ sem náðst hefur og að allir verði að axla ábyrgð. Seðlabankastjóranum er tíðrætt um „hóflegar launahækkanir“ og stjórnvöld ganga harðast fram með grímulausri atlögu að velferðarkerfinu eins og fjárlagafrumvarpið endurspeglar með t.d hækkun virðisaukaskatts á matvæli, styttingu á réttindum til atvinnuleysisbóta, og niðurfellingu framlags til Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Vægast sagt er lítill sem enginn vilji almennt til jöfnuðar í íslensku samfélagi. Báran, stéttarfélag spyr: Er það sanngjarnt og réttlátt samfélag að meðan 4 af hverjum 10 launþegum á íslandi eru með laun 220.000 og undir á mánuði, þá eru um 20.000 íslendingar með um 20.000.000 í árslaun? Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags krefst þess að hlutur þeirra sem lægstu launin hafa, verði leiðréttur og að horfið verði frá braut misskiptingar og ójöfnuðar.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag