Kynferðisleg áreitni víðtækt vandamál í þjónustustörfum

Mánudaginn 8. júní stendur Starfsgreinasambandið ásamt systursamtökum á Norðurlöndum fyrir ráðstefnu gegn staðalmyndum og kynferðislegri áreitni innan hótel-, veitinga- og ferðaþjónustunnar. Hotel Natura hýsir ráðstefnuna og hefst hún kl. 10:30 og lýkur kl. 17:30. Daginn eftir mun smærri hópur fulltrúa stéttarfélaga ræða framhaldið og taka saman upplýsingar sem koma fram á ráðstefnunni. Ráðstefnuna sækja um eitt hundrað manns frá öllum Norðurlöndunum og kynntar verða nýjustu rannsóknir á þessu sviði auk þess sem rætt verður sérstaklega hvað aðilar vinnumarkaðarins geta gert til að vinna gegn áreitni. Í tilefni ráðstefnunnar lét Starfsgreinasambandið í samstarfi við Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands vinna rannsókn á tíðni og eðli kynferðislegs áreitnis gagnvart starfsfólki í þjónustustörfum. Rannsóknin var unnin af Félagsvísindastofnun og Steinunni Rögnvaldsdóttur félags- og kynjafræðingi. Rannsóknin verður kynnt nánar á ráðstefnunni en niðurstöðurnar benda til þess að 41% þeirra sem starfað hafa í þjónustustörfum einhvern tíma á síðustu 10 árum hafi orðið fyrir áreitni, 26,4% karmanna og 50,4% kvenna.  Þjónustustörf eru hér skilgreind sem störf á veitingahúsi (þar með talið kaffihúsi eða skyndibitastað) á hótelum eða í annarri ferðaþjónustu.  67,8% þeirra sem orðið hafa fyrir áreitni voru yngri en 24ra ára þegar alvarlegasta atvikið átti sér stað (ef þau voru fleiri en eitt). Kynferðisleg áreitni hefur meiri áhrif á öryggistilfinningu kvenna heldur en karla og það hefur meiri áhrif á öryggistilfinninguna að vera áreitt(ur) af vinnufélaga eða yfirmanni heldur en af viðskiptavini. Í yfir 60% tilvika kynferðislegrar áreitni í rannsókninni var gerandi viðskiptavinur, karlar verða frekar fyrir áreitni af hálfu viðskiptavina heldur en samstarfsmanna en algengara er að konur verði fyrri áreitni af hálfu samstarfsmanna eða yfirmanna.
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA