Ræða formanns SGS 1. maí

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, flutti ræðu á 1. maí-hátíðarhöldum Einingar-Iðju í gær. Ræðuna í heild sinni má lesa hér að neðan.

................................. Ágætu félagar – innilega til hamingju með daginn Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað og ljóst að mikið hefur gerst á þessum 100 árum, en alltaf finnst manni það vera sömu málin sem eru á dagskrá ár eftir ár, að reyna að semja um mannsæmandi laun til að bæta kjörin og verja þau réttindi sem stéttarfélögin hafa náð. Það er raunar ótrúlegt að geta ekki, eftir þessi hundrað ár, sagt að við höfum náð takmarkinu! En ef við lítum til upphafsins, höfum við samt náð afar miklum árangri, en það verður aldrei einhver lokasigur, þetta er langhlaup, sem aldrei lýkur. Ég tel að menn séu ekki í raun að meta allt sem hefur áunnist. Það eru margir, sérstaklega yngra fólkið, sem hugsa ekki út í að þessi réttindi hafi ekki bara alltaf verið, gera sér ekki grein fyrir baráttunni sem réttindin hafa kostað í gegnum tíðina. Þeir sem hafa stöðu til þess að semja sjálfir um laun sín við atvinnurekandann eru margir hverjir neikvæðir út í stéttarfélögin og telja að ekkert sé með þau að gera, því þeir vilja túlka það svo að félögin séu ekkert að gera fyrir viðkomandi þó að kauphækkunin sé jafnvel sú sama og félagið hefur samið um. En af hverju eru menn með orlof, veikindarétt, sjúkrasjóði, lífeyrissjóði, samning um 40 stunda vinnuviku svo ég tali nú ekki um atvinnuleysisbætur ef menn missa vinnuna. Þetta er bara hluti af því sem hefur náðst í sameiginlegri baráttu á þessum 100 árum. Í febrúar síðast liðnum voru 110 ár frá því að samfellt starf stéttarfélaga á Akureyri hófst með stofnun Verkamannafélags Akureyrar, sem nú er Eining-Iðja, en þau félög sem hafa sameinast eru alls 24 á öllu félagssvæðinu. Þessi 24 félög ásamt öllum öðrum félögum launafólks á Eyjafjarðarsvæðinu haf lyft grettistaki og á fáum stöðum á landinu eru félögin jafn samhent og öflug og hér. Það hefur líka gætt framsýni því það var á árunum 1967 til 1075 sem almennu stéttarfélögin hér út með Eyjafirði óskuðu eftir að sameinast Akureyrarfélaginu í eitt almenn stéttarfélag: Verkalýðsfélagið Einingu. Á öðrum stöðum t.d. á Vestfjörðum og á Austurlandi var það ekki fyrr en um síðustu aldamót sem þau voru að sameina sín félög. Þetta sýnir að við Eyfirðingar hugsum þannig að stærri einingar geta betur sinnt sínu hlutverki en þær minni. Það er minn draumur að okkur beri gæfa til þess að sameina fleiri félög bæði almenns verkafólks, verslunarmanna og Iðnaðarmanna í eitt deildarskipt félag sem gæti veitt enn betri þjónustu en í dag, ekki bara á Akureyri heldur á stöðum út með firði. Það er mikill munur að fá þjónustu hjá sínu stéttarfélagi í heimabyggð frekar en að þurfa að sækja hana langar leiðir þrátt fyrir alla tæknina sem er til nú til dags. Það er nærþjónustan sem menn vilja. Einnig findist mér að opinber félög ættu að eiga aðild að þessum þjónustuskrifstofum sem ég nefndi áðan. Það hefur líka komið í ljós í könnunum sem við hjá Einingu-Iðju höfum gert að sú mýta að við séum á algjöru láglaunasvæði er ekki rétt þar sem komið hefur í ljós við sambærileg könnun hjá Flóanum að heildarlaun hér eru hærri en í Reykjavík. Þetta er búið að vera þannig síðustu  þrjú árin. Hættum að skemma fyrir okkur með neikvæðri umræðu en okkar verk er áfram að sækja fram til að gera okkar líf enn betra en það er í dag. Fyrir akkurat ári síðan vorum  við í  miðjum átökum – þeim stærstu og hörðustu á almenna vinnumarkaðnum í áratugi. Í aðdraganda verkfallanna hafði duni á okkur áróður um óstöðugleika, verðbólgu, kaupmáttarrýrnun, gengisfellingu og bara allar heimsins pestir sem myndu ríða yfir þjóðina ef verkafólk sýndi ekki ábyrgð. En það var einmitt það sem verkafólk og samtök verkafólks gerði; Sýndi ábyrgð. Ábyrgð á því að bæta lífskjör í landinu, ábyrgð á því að auka lífsgæði okkar og barnanna okkar, ábyrgð á því að þoka lágmarkslaunum nær því sem þarf til að lifa á. ÞAÐ er hin ábyrga afstaða sem við verðum alltaf að taka og finna bestu leiðirnar til þess. Stundum þarf að láta sverfa til stáls og það kom í ljós þegar á þurfti að verkafólk á Íslandi er tilbúið, samstillt og baráttuglatt. Árangurinn sem við náðum á síðasta ári verður ekki einungis talinn í krónum og aurum í launaumslaginu heldur er árangurinn ekki síst sá að nú vita allir að það er hægt að virkja samstöðuna þegar á þarf að halda og það er sko ekkert ónýtt veganesti inn í næstu kjarasamninga. Valdahlutföllin breyttust og vinnumarkaðurinn samanstóð ekki lengur af vinnuVEITENDUM og launÞEGUM, þ.e. þeim sem veita og þeim sem þiggja, heldur af verkafólki sem setti hærri verðmiða á vinnuna sína og mótaðilum sem stóðu frammi fyrir kröfunum. Við þessar aðstæður kom líka í ljós sem aldrei fyrr mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi og sterkasta hagsmunahreyfingin. Hún rúmar nær alla þá sem eru á vinnumarkaði sem þýðir að innan hennar er þverskurður þjóðarinnar. Þar eru karlar og konur, íslendingar og útlendingar, ungir og eldri, fólk sem vaknar með hnefann á lofti á morgnana og fólk sem vill fara mýkri leiðir í baráttunni. Við höfum þörf fyrir allt þetta fólk og hreyfingin þarf að rúma alla. Hún er það sem við gerum hana að og þátttaka fleiri þýðir breiðari samstaða og ákvarðanir teknar út frá fleiri skoðunum – það er mikilvægt og þess vegna brýnt að sem flestir taki þátt í starfinu. Við sýndum mátt okkar á síðasta ári en það sem fer ekki alltaf hátt eru öll hin handtökin sem unnin eru innan hreyfingarinnar og hafa verið síðustu 100 árin. Það er ekki bara verk að vinna að sækja fram heldur er baráttan fyrir velferð stöðug varnarbarátta. Við sjáum heilbrigðiskerfið verða verra og verra  og kostnað sjúklinga sífellt aukast. Menntun er farin að takmarkast við þá sem eiga bakhjarla því aukin skólagjöld haldast í hendur við þverrandi stuðning við skólafólk. Allt er þetta barátta fyrir bættum kjörum og það má ekki gerast að fólk geti ekki verið heilbrigt og valið sér starf eftir áhuga því það fari eftir efnum foreldra. Þá erum við ekki bara að tapa sem einstaklingar heldur samfélagið allt. Og til þess að við getum rekið samfélagið okkar þannig að allir hafi jafna möguleika til lífsgæða þurfa líka allir að leggja sitt af mörkum. Liðið sem sveik undan skatti með því að fela peninga í aflandsfélögum voru ekki bara að bregðast trúnaði heldur voru þeir að stela af okkur jöfnuði, velferð, menntun og jafnrétti. Það var verið að ræna okkur þeim gildum sem við viljum hafa, að fólk sem veikist af krabbameini þurfi ekki að veðsetja íbúðina eða leita á náðir ættingja til að eiga fyrir meðferð. Að ungt fólk sem vill mennta sig geti gert það óháð fjárhag foreldra og að við getum notið þess fallega og góða sem alls konar menning býður okkur án þess að fjárhagur skipti þar sköpum. Það hlýtur því að vera skýr krafa verkalýðshreyfingarinnar að skattsvikarar verði rannsakaðir og peningunum skilað ef fiskur leynist undir steini. Baráttan gegn skattaskjólum er alþjóðleg barátta launafólks fyrir sanngjörnum kjörum og velferð. Þó að Íslendingar séu heimsmeistarar í skattaskjólum (miðað við hina frægu höfðatölu) þá bitna þau á bræðrum okkar og systrum í mörgum löndum. Þannig er stríðið í Sýrlandi fjármagnað með peningum glæpasamtaka úr skattaskjólum og óendanlegar hörmungar bíða venjulegs fólks sem vill bara vinna fyrir sér og fá að vera í friði þess utan. Flóttamannavandinn er eitt stærsta verkefni ríkisstjórna og stéttarfélaga í allri Evrópu og aðbúnaður fólks er hræðilegur. Það þarf að vera ömurlegt heima fyrir ef fólk leggur líf og limi í hættu til að ferðast til landa þar sem það er ekki velkomið. Við verðum að axla okkar hluta ábyrgðarinnar og taka á móti fólki hingað og gera það vel. Við hér á Akureyri höfum sýnt frumkvæði að fá til okkar flóttafólk og er það okkur til mikils sóma og býð ég þetta fólk hjartanlega velkomið í okkar samfélag. Næstu ár mun flæði fólks á milli landa aukast gríðarlega og þá ríður á frekar en nokkurn tímann að vernda kjör á vinnumarkaði. Ef við leyfum því að gerast að útlendingar viti ekki réttindi sín eða eru undirborgaðir þá er það ógnun við okkur öll því það lækkar launin á öllum vinnumarkaðnum. Við verðum því að standa fast í lappirnar og gera það heyrinkunnugt að á íslenska vinnumarkaðnum er farið eftir reglum og kjarasamningum og það mun ekki líðast að samningar séu brotnir. Það er ekki Norræna vinnumarkaðsmódelið sem mörgum er tíðrætt um heldur skulum við kalla það Íslenska vinnumarkaðsmódelið. Það er mikilvægt að fylgjast vel með því sem gerist í löndunum í kringum okkur og það vekur áhyggjur. Félagar okkar í Svíþjóð standa nú frammi fyrir kröfum um að lækka byrjunarlaun, ríkisstjórnin í Finnlandi tók kjarasamninga úr sambandið og skerti kjör fólks uppá sitt einsdæmi og fjölmargar litlar breytingar hafa verið gerðar á Norsku vinnulöggjöfinni síðustu ár til skaða fyrir launafólk. Verkalýðsbaráttan er því varnarbarátta í mörgum löndum í kringum okkur og því er það einstaklega ánægjulegt að geta sagt félögum okkar annars staðar frá árangrinum í kjaraviðræðum síðasta árs. Við vitum það hins vegar að það sem gerist úti í heimi hefur tilhneigingu til að koma til okkar og því verðum við að vera vakandi og á verðinum um leið og við sendum baráttukveðjur til launafólks um allan heim. En þótt stéttarfélögin eigi langa sögu og verkefnin í dag séu í mörgu lík því sem var í upphafi þá steðjar að ný ógn. Nú er til siðs að auglýsa eftir erlendum sjálfboðaliðum til vinnu og að þeir eigi að kynnast landinu og fá fæði og húsnæði fyrir vinnuna. Við höfum frétt af um 30 aðilum hér á Eyjafjarðarsvæðinu sem reyna að nýta sér þetta. Nú hefur komist á samstarf milli stéttarfélaga hér í Eyjafirði, Skagafirði og Húnavatnssýslum að ráða sérstakan verkefnisstjóra til að sinna eftirliti með þessum aðilum og fleirum, einnig að skoða vinnustaðaskilríki og koma upp um svarta vinnu, ásamt því að hafa augu og eyru opin fyrir mögulegu mansali. Þessi starfsmaður verður með starfsaðstöðu á skrifstofu Einingu-Iðju, hann mun líka vinna í samstarfi við opinbera aðila, svo sem skattinn, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið. Þessi óværa að vera að pretta fólk um laun og réttindi er óþolandi og allir sem vita um svona mál eiga að láta okkur hjá stéttarfélögunum vita svo hægt sé að fara í málið. Það geta verið einhverjir  í næsta húsi sem er í sömu sporum og konurnar í  Vík í Mýrdal. Því hvet ég alla að horfa í kringum sig Í okkar samfélagi þrífst óþverri sem má ekki viðgangast. „Einn réttur ekkert svindl“ er kjörorðið okkar. Það er ekki hægt að láta menn komast upp með það að svindla á fólki.  Nú loksins koma opinberir aðilar að þessu verkefni af fullum þunga. Í síðustu samningum lagði Alþýðusamband Íslands mikla áherslu á að gert yrði átak í húsnæðismálum sérstaklega ungs fólks og þeirra sem hefðu lágar tekjur. Það yrði sett á laggirnar alvöru leigumarkaður sem yrði styrktur af stjórvöldum bæði ríki og sveitarfélögum. Á afmælisdegi ASÍ var sett fram framlag til að stofna leigufélag til að byggja ódýrar íbúðir um allt land. Til að hægt sé að fara í þessi mál þarf að klára þau frumvörp sem liggja nú fyrir alþingi um húsnæðismál. Það var gleðilegt að bæjarráð Akureyrar skyldi fyrst sveitarfélaga á landsbyggðinni óska eftir fundi með ASÍ til að kanna möguleika á að leigufélagið kæmi og reisti íbúðir á Akureyri í samstarfi við sveitarfélagið. Búið er að halda einn fund og menn í viðbragðsstöðu vegna málsins. Stéttarfélög í Eyjafirði munu fylgja þessu máli eftir að fullum þunga. Á þessum hátíðardegi verkafólks er okkur öllum efst í huga réttlæti, mannréttindi, og ekki síst jafnrétti kynjanna. Það er óviðunandi að við skulum ekki öll búa við þessi sjálfsögðu réttindi. Það er og verður okkar verkefni að þjappa okkur saman, fylkja liði og láta ekki öfl okkur óvinveitt sundra okkur. Þegar við stöndum saman, verjum við okkar réttindi og þá dýrmætu samninga sem við höfum barist fyrir í áratugi, en ef við gerum það ekki þá mun það sem við teljum sjálfsagt jafnvel hverfa út í buskann. Félagar höldum vöku okkar, berjumst áfram fyrir réttlæti, sanngirni og mannsæmandi launum, baráttan er eilíf! Til hamingju með daginn.
  1. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  2. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  3. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  4. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta