Ræða framkvæmdastjóra SGS 1. maí

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, flutti ræðu á 1. maí-hátíðarhöldum Verkalýðsfélags Akraness í gær. Ræðuna í heild sinni má lesa hér að neðan. ............................ Kæru félagar – innilega til hamingju með daginn – það er heiður að fá að ávarpa ykkur! Á þessu ári fögnum við aldarafmæli heildarsamtaka launafólks á Íslandi og er fullt tilefni til að halda uppá það. Við vitum öll hvaða merkilegu vörður hafa verið reistar á einni öld með afli launafólks en við vitum það líka að launafólk hefur ekki alltaf verið samstíga innan heildarsamtakanna. Á áttunda áratugnum voru til dæmis ekki allir búnir að fatta þetta með að jafnrétti kynjanna væri góð hugmynd og eins og oft áður og síðar kom það í hlut fiskverkakvenna af Akranesi að flétta saman verkalýðsbaráttu og jafnréttisbaráttu. Bjarnfríður Leósdóttir sem lést á síðasta ári segir í ævisögu sinni frá kvennaverkfallinu sem háð var hér á Skaganum árið 1976 þegar karlarnir í Reykjavík höfðu samið uppsagnarákvæði af fiskverkakonum. Konurnar á Akranesi sættu sig ekki lengur við að vera varavinnuafl og með styrk úr kvennabaráttunni, miklum hlátri, stemningu, bakkelsi og baráttuanda náðu þær að rétta kjör sín. Karlarnir voru óskaplega þreyttir á þeim, hvort sem litið var til blaðamanna, stjórnmálamanna eða þeirra sem höfðu í raun átt að vera samherjar. Bjarnfríður orðar það svo: „Það hefur verið rok á Skaga undanfarna daga með leiftrum og ljósagangi. Konurnar hafa staðið með storminn í fangið, algallaðar á verkfallsvakt.“ Við eigum konum og öðru baráttufólki á Skaganum mikið að þakka og þessi saga Bjarnfríðar skýrir það af hverju ég hef alltaf borið óttablandna virðingu fyrir fiskverkakonum frá Akranesi. Fyrir ári síðan ávarpaði ég félaga okkar á Selfossi. Þá vorum við í  miðjum átökum – þeim stærstu og hörðustu á almenna vinnumarkaðnum í áratugi. Í aðdraganda verkfallanna hafði dunið á okkur áróður um óstöðugleika, verðbólgu, kaupmáttarrýrnun, gengisfellingu og bara allar heimsins pestir sem myndu ríða yfir þjóðina ef verkafólk sýndi ekki ábyrgð. En það var einmitt það sem verkafólk og samtök verkafólks gerði; Það sýndi ábyrgð. Ábyrgð á því að bæta lífskjör í landinu, ábyrgð á því að auka lífsgæði okkar og barnanna okkar, ábyrgð á því að þoka lágmarkslaunum nær því sem þarf til að lifa á þeim. ÞAÐ er hin ábyrga afstaða sem við verðum alltaf að taka og finna bestu leiðirnar til þess. Stundum þarf að láta sverfa til stáls og það kom í ljós þegar á þurfti að halda að verkafólk á Íslandi er tilbúið, samstillt og baráttuglatt. Árangurinn sem við náðum á síðasta ári verður ekki einungis talinn í krónum og aurum í launaumslaginu heldur er árangurinn ekki síst sá að nú vita allir að það er hægt að virkja samstöðuna þegar á þarf að halda og það er gott veganesti inn í næstu kjarasamninga. Valdahlutföllin breyttust og vinnumarkaðurinn samanstóð ekki lengur af vinnuVEITENDUM og launÞEGUM, þ.e. þeim sem veita og þeim sem þiggja, heldur af verkafólki sem setti hærri verðmiða á vinnuna sína og mótaðilum sem stóðu frammi fyrir kröfunum. Við þessar aðstæður kom líka í ljós sem aldrei fyrr mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi og sterkasta hagsmunahreyfingin. Hún rúmar nær alla þá sem eru á vinnumarkaði sem þýðir að innan hennar er þverskurður þjóðarinnar. Þar eru karlar og konur, íslendingar og útlendingar, ungir og eldri, fólk sem vaknar með hnefann á lofti á morgnana og fólk sem vill fara mýkri leiðir í baráttunni. Við höfum þörf fyrir allt þetta fólk og hreyfingin þarf að rúma alla. Hún er það sem við gerum hana að og þátttaka fleira fólks þýðir breiðari samstöðu og að ákvarðanir séu teknar út frá fleiri skoðunum – það er mikilvægt og þess vegna brýnt að sem flestir taki þátt í starfinu. Við sýndum mátt okkar á síðasta ári en það sem fer ekki alltaf hátt eru öll hin handtökin sem unnin eru innan hreyfingarinnar og hafa verið síðustu 100 árin. Það er ekki bara verk að vinna að sækja fram heldur er baráttan fyrir velferð stöðug varnarbarátta. Við sjáum heilbrigðiskerfið verða verra og verra  og kostnað sjúklinga sífellt aukast. Menntun er farin að takmarkast við þá sem eiga bakhjarla því kostnaður við nám hefur aukist á á sama tíma er þverrandi stuðning við skólafólk. Allt er þetta barátta fyrir bættum kjörum og það má ekki gerast að fólk geti ekki verið heilbrigt og valið sér starf eftir áhuga því það velti á fjárhag foreldra. Þá erum við ekki bara að tapa sem einstaklingar heldur sem samfélag. Og til þess að við getum rekið samfélagið okkar þannig að allir hafi jafna möguleika til lífsgæða þurfa líka allir að leggja sitt af mörkum. Liðið sem sveik undan skatti með því að fela peninga í aflandsfélögum var ekki bara að bregðast trúnaði heldur var það að stela af okkur jöfnuði, velferð, menntun og jafnrétti. Það var verið að ræna okkur þeim gildum sem við viljum hafa. Fólk sem veikist af krabbameini á ekki að þurfa að veðsetja íbúðina eða leita á náðir ættingja til að eiga fyrir meðferð. Ungt fólk sem vill mennta sig á að geta gert það óháð fjárhag foreldra. Og við eigum að geta notið þess fallega og góða sem alls konar menning býður okkur án þess að fjárhagur skipti þar sköpum. Það hlýtur því að vera skýr krafa verkalýðshreyfingarinnar að skattsvikarar verði rannsakaðir og peningunum skilað ef fiskur leynist undir steini. Baráttan gegn skattaskjólum er alþjóðleg barátta launafólks fyrir sanngjörnum kjörum og velferð. Þó að Íslendingar séu heimsmeistarar í skattaskjólum (miðað við hina frægu höfðatölu) þá bitna þau á bræðrum okkar og systrum í mörgum löndum. Þannig er stríðið í Sýrlandi fjármagnað með peningum glæpasamtaka úr skattaskjólum og óendanlegar hörmungar bíða venjulegs fólks sem vill bara vinna fyrir sér og fá að vera í friði þess utan. Flóttamannavandinn er eitt stærsta verkefni ríkisstjórna og stéttarfélaga í allri Evrópu og aðbúnaður fólks er hræðilegur. Það segir sitt um þær hörmungar sem fólkið er að flýja að það leggur líf og limi í hættu til að ferðast til landa þar sem það er ekki velkomið. Við verðum að axla okkar hluta ábyrgðarinnar og taka á móti fólki hingað og gera það vel. Þar getum við lært mikið af Skagamönnum sem hafa sýnt gestrisni gagnvart flóttafólki svo eftir er tekið. Næstu ár mun flæði fólks á milli landa aukast gríðarlega og þá ríður á frekar en nokkurn tímann að vernda kjör á vinnumarkaði. Ef við leyfum því að gerast að útlendingar viti ekki réttindi sín eða séu undirborgaðir þá er það ógnun við okkur öll því það lækkar launin á öllum vinnumarkaðnum. Við verðum því að standa fast í lappirnar og gera það heyrinkunnugt að á íslenska vinnumarkaðnum er farið eftir reglum og kjarasamningum og það mun ekki líðast að samningar séu brotnir. Það er ekki Norræna vinnumarkaðsmódelið sem mörgum er tíðrætt um heldur skulum við kalla það Íslenska vinnumarkaðsmódelið. Það er mikilvægt að fylgjast vel með því sem gerist í löndunum í kringum okkur og það vekur áhyggjur. Félagar okkar í Svíþjóð standa nú frammi fyrir kröfum um að lækka byrjunarlaun, ríkisstjórnin í Finnlandi tók kjarasamninga úr sambandi og skerti kjör fólks uppá sitt einsdæmi og fjölmargar litlar breytingar hafa verið gerðar á norsku vinnulöggjöfinni síðustu ár til skaða fyrir launafólk. Verkalýðsbaráttan er því varnarbarátta í mörgum löndum í kringum okkur og því er það einstaklega ánægjulegt að geta sagt félögum okkar annars staðar frá árangrinum í kjaraviðræðum síðasta árs. Við vitum það hins vegar að það sem gerist úti í heimi hefur tilhneigingu til að koma til okkar og því verðum við að vera vakandi og á verðinum um leið og við sendum baráttukveðjur til launafólks um allan heim í dag og alla aðra daga. En þótt stéttarfélögin eigi langa sögu og verkefnin í dag séu í mörgu lík því sem var í upphafi þá steðjar að ný ógn. Nú er til siðs að auglýsa eftir erlendum sjálfboðaliðum til vinnu gegn því að kynnast landi og þjóð. Þannig auglýsti ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eftir sjálfboðaliðum sem áttu að fá fæði og húsnæði fyrir 10-12 tíma vaktir á dag, sex daga vikunnar. Viðkomandi þurfti að vera tilbúinn til að ganga í öll störf, afgreiða á bar og þrífa upp ælu um borð í hvalaskoðunarbát. Aðrir eru fengnir sem AU-pair en lenda í hörku vinnu við rekstur gistiheimila eða í annarri ferðaþjónustu. Dæmin úr byggingarbransanum þekkjum við líka. Það er reynt að toga og teygja mörk hins löglega í allar áttir og það er okkar verkefni að sjá til þess að fólk haldi sig innan rammans. Það er því fagnaðarefni að bæði innan hreyfingarinnar og í stofnunum er verið að herða eftirlit með vinnumarkaðnum því við erum reynslunni ríkari frá síðasta uppgangstímabili og ætlum ekki að líða þau svívirðilegu brot sem framin voru þá á fólki sem gat litla björg sér veitt, einangrað, mállaust og óvitandi af réttindum sínum. Þarna þurfum við öll að leggjast á eitt og upplýsa ef okkur grunar að eitthvað misjafnt eigi sér stað. Því miður höfum við af gefnu tilefni þurft að gefa út leiðbeiningar um birtingamyndir og viðbrögð við mansali en fyrir nokkrum árum hefði enginn trúað því að verkalýðshreyfingin þyrfti að standa í því að uppræta beina þrælkunarvinnu. Vinnan framundan er því ekki bara að sækja á um betri kjör og hækka kjarasamningsbundin laun heldur erum við í eilífri varnarbaráttu fyrir þeim kjörum sem við höfum samið um. Menntamál, heilbrigðismál og húsnæðismál eru ofarlega á baugi og þar er margt óunnið. Í þeim málum á verkalýðshreyfingin að beita sér af afli enda eru þetta grunnstoðir lífsgæða. Það eru því næg verkefni framundan og á dögum sem þessum er okkur hollt að ímynda okkur samfélagið sem við viljum búa í . Setja okkur það markmið að fólk geti lifað af laununum sínum, geti menntað sig og sótt þá fræðslu sem hugurinn stendur til, geti lifað mannsæmandi lífi þó heilsan gefi sig, geti notið lífsins eftir að aldurinn færist yfir og hafi möguleika til að njóta þess góða og fallega í lífinu. Við skulum sannmælast um að stefna þangað og ég er sannfærð um að ef við stöndum saman um þessi gildi og beitum aflinu sem felst í fjöldanum með þeirri baráttugleði sem er svo þekkt á þessum slóðum þá eru okkur allir vegir færir. Innilega til hamingju með daginn okkar!
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA