Kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna ólögmæts samráðs á veitingamarkaði

Starfsgreinasamband Íslands, Efling stéttarfélag og Alþýðusamband Íslands hafa sent Samkeppniseftirlitinu formlega kvörtun vegna ólögmæts verðsamráðs fyrirtækja á veitingamarkaði og ólögmæts verðsamráðs innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Kvörtunin beinist annars vegar að SVEIT en hins vegar að aðildarfélögum þess, fyrirtækjum á veitingamarkaði sem stóðu að stofnun gervistéttarfélagsins Virðingar og gerðu samning við SVEIT um kaup og kjör.

Áður hefur verið fjallað um svonefndan kjarasamning SVEIT og Virðingar sem er ekki í nokkru samræmi við þá samninga sem eru í gildi í veitingageiranum og felur í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks.

Kvörtunin snýr að samráði fyrirtækja á veitingamarkaði um launakjör og byggir á þremur meginstoðum:

  1. Að samningur SVEIT og Virðingar sé ekki raunverulegur kjarasamningur, enda ekki gerður milli stéttarfélags og atvinnurekanda, heldur gerður einhliða af atvinnurekendum.
  2. Að gerð og birtings samningsins feli í sér ólögmætt samráð fyrirtækja um launakjör á veitingamarkaði, sem hafi það að markmiði að takmarka samkeppni og brýtur gegn 10. gr. samkeppnislaga.
  3. Að hið ólögmæta verðsamráð hafi m.a. farið fram á vegum SVEIT, sem brýtur gegn 12. gr. samkeppnislaga, sbr. 10. gr. þeirra, um bann við samráði innan samtaka fyrirtækja.

Starfsgreinasambandið, Efling og ASÍ hafa fordæmt þessa atlögu að kjörum launafólks, þar sem samkeppnislög eru þverbrotin. Þessi samkeppnisbrot beinast að félagsmönnum stéttarfélaganna og annars launafólks og fela í sér verðsamráð um launakjör á veitingamarkaði t.a.m. með skerðingu lágmarkslauna. Því er óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið grípi til aðgerða.

Erindið til Samkeppniseftirlitsins má lesa hér.

 

  1. 4/8/2025 2:42:20 PM Kjarasamningsbundnar launahækkanir í apríl
  2. 3/21/2025 10:37:05 AM Lágmarkskauptaxtar hækka um 0,58% frá 1. apríl 2025
  3. 3/17/2025 3:05:00 PM Kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna ólögmæts samráðs á…
  4. 3/7/2025 2:31:55 PM Umsvif hins opinbera í útboðum í ræstingum kortlögð