Atvinnuþátttaka rúmlega 85% á öðrum ársfjórðungi

Samkvæmt nýrri útgáfu Hagstofunnar um vinnumarkaðinn voru 199.300 manns á vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi 2016, sem jafngildir 85% atvinnuþátttöku. Frá öðrum ársfjórðungi 2015 hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 3.000 og atvinnuþátttakan aukist um 0,7 prósentustig. Atvinnuþátttaka kvenna á öðrum ársfjórðungi 2016 var 80,9% en karla 88,8%. Til samanburðar þá var hlutfall kvenna á vinnumarkaði 81% en hlutfall karla 87,5% á öðrum ársfjórðungi 2015. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuþátttaka 85,7% á öðrum ársfjórðungi 2016 og 83,8% utan þess. Á vinnumarkaði eða til vinnuaflsins teljast bæði þeir sem eru starfandi og þeir sem eru atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra, það er hlutfall vinnuafls, af mannfjölda. Á öðrum ársfjórðungi 2016 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 40,9 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni. Meðalfjöldi vinnustunda á viku hjá þeim sem voru í fullu starfi var 45,2 klst. og 25,2 klst. hjá þeim sem voru í hlutastarfi. Af þeim 199.300 sem voru á vinnumarkaði á umræddu tímabili voru 192.100 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit sem þýðir 3,6% atvinnuleysi. Frá öðrum ársfjórðungi 2015 hefur atvinnulausum fækkað um 2.600 manns og hlutfallið lækkað um 1,4 prósentustig. Atvinnulausar konur voru 3.800 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 4,1%. Atvinnulausir karlar voru 3.400 eða 3,2%. Atvinnuleysi var 4,3% á höfuðborgarsvæðinu en 2,4% utan þess. Hægt er að lesa nánar um útgáfu Hagstofunnar hér.
  1. 10/13/2025 12:28:50 PM Stefnan skýr til næstu tveggja ára
  2. 10/10/2025 11:14:08 AM 10. þingi Starfsgreinasambandsins lokið
  3. 10/9/2025 11:02:52 AM Skrifstofan lokuð vegna þings SGS
  4. 10/8/2025 4:49:25 PM 10. þing SGS sett - ræða formanns