Konur leggja niður störf

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli undir kjörorðunum „Kjarajafnrétti strax“.  Baráttufundurinn verður sendur út í gegnum Facebook-síðuna www.facebook.com/kvennafri. Meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9-17. Með því að ganga út úr vinnu kl. 14:38 mótmæla konur með táknrænum hætti þessu kynbundna launamisrétti. Tökum þátt og berjumst fyrir jöfnum kjörum! Saga Kvennafrídagsins – Baráttudagur íslenskra kvenna Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn  árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Launamisrétti, vanmat á störfum kvenna, skortur á virðingu og valdaleysi var konum efst í huga. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag. Konur héldu upp á kvennafrídaginn árið 1985 með því að opna Kvennasmiðju dagana 24. – 31. október til að vekja athygli á vinnuframlagi og launakjörum kvenna. Árið 2005 sýndu íslenskar konur samstöðu í verki og lögðu tugþúsundir kvenna niður störf kl. 14:08 og fylltu miðborgina svo eftir var tekið. Árið 2010 gengur konur út kl. 14:25 mánudaginn 25. október og tóku virkan þátt í viðburðum dagsins víða um land undir kjörorðunum „Já, ég þori, get og vil“. Það er talið að allt að 40 þúsund konur hafi mætt á Arnarhól þennan mánudag og konur um land sýndu samstöðu og tóku þátt í sinni heimabyggð. Íslenskar konur hafa sannarlega sýnt svo eftir er tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið.
  1. 10/13/2025 12:28:50 PM Stefnan skýr til næstu tveggja ára
  2. 10/10/2025 11:14:08 AM 10. þingi Starfsgreinasambandsins lokið
  3. 10/9/2025 11:02:52 AM Skrifstofan lokuð vegna þings SGS
  4. 10/8/2025 4:49:25 PM 10. þing SGS sett - ræða formanns