Hafa samband

Jólakveðja

Í gær voru vetrarsólstöður og dimmastur dagur, þó bjart af fullu tungli sem varð rauðbleikt um sinn í myrkvun af jörðu uns birti á ný. Þetta sjónarspil minnti um margt á efnahagsþrengingarnar og þá myrkvun sem af þeim stafa en nú horfir til betri tíma og ljósari með hækkandi sól. Efnahagsáætlun ríkissins í samvinnu við Alþjóða glaldeyrissjóðinn virðist mjaka okkur áfram í átt að endurreisninni, nýr Icesave samningur vekur von um að erlendar frjárfestingar og atvinnulífið glæðist og að kjarasamningar skili til baka þeim kaupmætti sem glatast hefur, eins fljótt og verða má.

 

Starfsgreinasambandið sendir landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól, með von um að hækkandi sól kveiki nýjan draum um djarft og voldugt ævintýr. Það er að minnsta kosti ástæða til vonar og bjartsýni eins og Jóhannes úr Kötlum minnir á í ljóði sínu Er hnígur sól sem birtist í ljóðabók hans Hart er í heimi og kom út árið 1939;

 

,,Er hnígur sól að hafsins djúpi

og hulin sorg á brjóstum knýr,

vér minnumst þeirra, er dóu í draumi

um djarft og voldugt ævintýr.

 

Þá koma þeir úr öllum áttum,

með óskir þær, er flugu hæst

og gráta í vorum hljóðu hjörtum

hinn helga draum, sem gat ei ræzt.

 

Og þá er eins og andvörp taki

hin undurfagra sólskinsvon,

og allir kveldsins ómar verði

eitt angurljóð um týndan son.

 

Og hinzti geislinn deyr í djúpið,

–         en daginn eftir röðull nýr

oss kveikir sama dýra drauminn

um djarft og voldugt ævintýr.”


Bakkavör ræðst á verkafólk í Bretlandi

Nú hafa þeir Bakkabræður, Ágúst og Lýður Guðmundssynir  ráðist til atlögu gegn verkafólki við ávaxta- og grænmetisiðju Bakkavarar í Bourne í Lincolnshire í Englandi. Störf eru britjuð niður, laun lækkuð og vinnuskilyrði skert. Þau voru þó fyrir ein þau lökustu í  Bretlandi. Efnt verður til mótmælaaðgerða, kröfugöngu og útifundar föstudaginn 17. desember í Spalding þar sem höfðuðstöðvar Bakkavarar eru til húsa. Það er breska verkalýðssambandið Unite the Union, systursamtök Starfsgreinasambands Íslands, sem stendur fyrir mótmælunum. Markmið mótmælanna er að senda skýr skilaboð til stjórnenda Bakkavarar að Unite muni aldrei láta það gerast að félagsmenn þess verði þvingaðir til þessa niðurskurðar baráttulaust.

Unite heldur því fram að þeir Bakkabræður hafi hundsað allar tillögur um samráð við verkalýðshreyfinguna, hvað þá tekið tillit til sjónarmiða hennar um endurskipulagningu í Bourne. Bakkavör heldur því fram að fyrirtækið þurfi að spara fimm milljónir punda til að stöðva taprekstur en Unite telur að tapreksturinn, sé um taprekstur að ræða, stafi fyrst og fremst af óhæfum stjórnendum fyrirtækisins og stjórnunarstíl þeirra. Bakkabræður hafa ekki getað sýnt fram á að niðurskurðurinn sé nauðsynlegur vegna rekstrarins. Unite telur einnig að Bakkavör sé að keyra í gegn niðurskurðinn í Bourne fyrir áramót til þess að komast hjá nýrri löggjöf, the Agency Worker Regulations, um að fyrirtæki skuli meðhöndla alla starfsmenn jafnt og gengur í gildi á næsta ári. Unite mótmælir því að verkafólk í Bourne og fjölskyldur þess sé látið borga fyrir stjórnunarmistök Bakkabræðra

Starfsgreinasamband Íslands, ásamt Evrópusamtökum verkafólks í matvælavinnslu, EFFAT, reyndi árið 2008 að fá Bakkavör til þess að undirrita viljayfirlýsingu um samstarf til þess að tryggja grundvallarréttindi verkafólks innan Bakkavarar og að félagið fari að skuldbindingum Evrópureglna um samráð en rúmlega ellefu þúsund starfsmenn starfa á vettvangi Bakkavarar viða um heim m.a. innan Evrópu þar sem lagaskylda er um samráð við starfsmenn fyrirtækja. Bakkavör neitaði hugmyndum Starfsgreinasambandsins og EFFAT og hefur síðan þá verið á svörtum lista á alþjóðavettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Það kemur því ekki á óvart að þeir bræður, Ágúst og Lýður skuli nú komnir í hár saman við við bresku verkalýðshreyfinguna þ.e. Unite the Union. Starfsgreinasambandið tekur að sjálfsögðu undir kröfur Unite gegn Bakkavör og hvetur íslesku verkalýðshreyfinguna til að gera slíkt hið sama en senda má stuðningsyfirlýsingu og baráttukveðjur á netfangið:dontchopbakkavor@unitetheunion.com.

 

Exista hf er nú skráð með 32% eignarhlut í Bakkavör. Nauðasamningar sem kröfuhafar Bakkavarar samþykktu í sumar sem leið gerðu ráð fyrir að þeir Bakkabræður fengju 25% hlut í félaginu árið 2014 gegn því að staðið verði í skilum við kröfuhafa fyrir þann tíma. Ágúst er áfram forstjóri en kröfuhafar fengu tvo menn í stjórn fyrirtækisins, þá Halldór Lúðvígsson frá Aríon banka og Bjarna Þórð Bjarnason sjálfstætt starfandi ráðgjafa. Stærstu kröfuhafarnir eru skilanefnd Kaupþings og útlenskir bankar í meirihluta, Aríon banki, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóðirnir voru í minnihluta við gerð nauðasamningsins og að kröfu hinna erlendu banka varð það skilyrði sett að Ágúst væri áfram forstjóri. Við hljótum að krefjast þess gagnvart fulltrúum kröfuhafa í stjórn Bakkavarar að þeir  beiti sér fyrir því að fyrirtækið fari að kjarasamningum og lögum í samskiptum sínum við launafólk.  Þannig tökum við undir kröfu Unite í Bretlandi.

 


Megináherslur Starfsgreinasambandsins afhentar samninganefndum ríkis og sveitarfélaga

Kröfugerðir samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands f.h. aðildarfélaga sinna voru kynntar samninganefndum ríkis og sveitarfélaga í dag og í gær.

Formaður og jafnfram talsmaður samninganefnda vegna kjarasamninga við ríki og sveitarfélög er Signý Jóhannesdóttir, formaður sviðs starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.

Samninganefnd SGS gagnvart ríkinu skipa:

 

Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands, formaður

Sigurrós Kristinsdóttir, varasviðsstjóri sviðs opinberra starfsmanna, Efling stéttarf.

Björn Snæbjörnsson Einingu-Iðju

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, Afli

Kristján Gunnarsson, Vlsf. Keflavíkur

Kolbeinn Gunnarsson, Vlf. Hlíf

Sigurður Bessason, Efling-stéttarfélag

Finnbogi Sveinsbjörnsson, Verkalýðsfélag Vestfirðinga

Halldóra Sveinsdóttir,  Báran stéttarfélag

Már Guðnason, Vlf. Suðurlands

Aðalsteinn Baldursson, Framsýn stéttarfélag

Arnar Hjaltalín, Drífandi stéttarfélag

Ásgerður Pálsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða

Benoný Benediktsson. Vlf. Grindavíkur

Lárus Benediktsson Vlsf. Bolungarvíkur

Magnús S. Magnússon, Vlsf. Sandgerðis

Sigurður A. Guðmundsson,Vlf. Snæfellinga

Svala Sævarsdóttir Vlf. Þórshafnar

Vilhjálmur Birgisson Vlf. Akraness

Þórarinn G. Sverrisson, Aldan-stéttarfélag

 

Samninganefnd SGS gagnvart sveitarfélögum skipa formenn þeirra félaga sem veitt hafa SGS umboð til samningsgerðar:

 

Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands, formaður

Björn Snæbjörnsson Eining-Iðja

Finnbogi Sveinsbjörnsson, VerkalýðsfélagVestfirðinga

Halldóra Sveinsdóttir,  Báran stéttarfélag

Már Guðnason, Vlf. Suðurlands

Arnar Hjaltalín, Drífandi stéttarfélag

Ásgerður Pálsdóttir, Stéttarfélagið Samstaða

Benoný Benediktsson. Vlf. Grindavíkur

Lárus Benediktsson Vlsf. Bolungarvíkur

Magnús S. Magnússon, Vlsf. Sandgerðis

Sigurður A. Guðmundsson,Vlf. Snæfellinga

Þórarinn G. Sverrisson, Aldan-stéttarfélag

Samninganefnd Starfsgreinasambandins vill stuðla að stöðugleika svo að takast megi að auka kaupmátt, skapa ný störf og létta á böli atvinnuleysisins og þeim fjárhagsvanda sem fjölskyldur í landinu glíma við. Almennar launahækkanir verða að koma til framkvæmda strax og gerð er krafa um 200.000 króna lágmarkslaun.

 

Meginmarkmið SGS má lesa í viðhengjum.

 

Meginmarkmið SGS/ríki

Meginmarkmið SGS/sveitarfélög


Megináherslur Starfsgreinasambandsins í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins

Kröfugerð samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands f.h. aðildarfélaga sinna annarra en Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur var kynnt Samtök atvinnulífsins í dag á fyrsta formlega samningafundi aðila, en kjarasamningurinn rann út þann 30. nóvember s.l.

Samninganefnd Starfsgreinasambandins vill stuðla að stöðugleika svo að takast megi að auka kaupmátt, skapa ný störf og  létta á böli atvinnuleysisins og þeim fjárhagsvanda sem fjölskyldur í landinu glíma við. Almennar launahækkanir verða að koma til framkvæmda strax og gerð er krafa um 200.000 króna lágmarkslaun.

,,Það er meginmarkmið samninganefndar Starfsgreinasambandsins að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Til þess að ná þessu markmiði þarf stöðugleika á vinnumarkaði og vinnufrið, sem er meðal annars forsenda fyrir því að efnahagslegur stöðugleiki náist.” ,,Sú ábyrgð hvílir á stjórnvöldum og Alþingi. Pólitísk staðfesta er lykill að trausti og um leið að samkomulag á vinnumarkaði eins og Stöðugleikasáttmálinn frá því í júní 2009 haldi í raun. Stefna  verður að stöðugum gjaldmiðli og skapa skilyrði fyrir erlendar fjárfestingar til að örva atvinnulífið. Séu þessar forsendur ekki til staðar verður að skapa þær með þverpólitískri samstöðu á næstu vikum og misserum. Takist það ekki horfir til verulegrar óvissu á vinnumakaði og harðvítugarri kjarabaráttu en ella þyrfti að verða” segir einnig í markmiðslýsingu kröfugerðar samninganefndar Starfsgreinasambandsins sem hér fer á eftir:

 

 

Megináherslur samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands f.h. aðildarfélaga sinna annarra en Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis  í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins í desember 2010*

 

  1. Meginmarkmið

Það er megin markmið samninganefndar SGS að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Til þess að ná þessu markmiði þarf stöðugleika á vinnumarkaði og vinnufrið, sem er meðal annars forsenda fyrir því að efnahagslegur stöðugleiki náist. Starfsgreinasamband Íslands hefur lagt sitt af mörkum til þess að þjóðin geti unnið sig út úr þeim efnahagsvanda sem við er að glíma og er tilbúið til að gera það áfram. Samninganefnd Starfsgreinasambandins vill í komandi kjaraviðræðum stuðla að stöðugleika svo að takast megi að auka kaupmátt, skapa ný störf og létta á böli atvinnuleysisins og þeim fjárhagsvanda sem fjölskyldur í landinu glíma við.

 

  1. Launakröfur og kaupmáttaraukning

Samningnefnd Starfsgreinasambandsins leggur áherslu á annars vegar beinar launahækkanir og hins vegar að stjórnvöld sýni staðfestu sem geti leitt til aukins kaupmáttar m.a. með hækkun persónuafsláttar og tekjuskattsbreytingum í þágu hinna lægst launuðu  auk annarra efnahagsúrræða. Almennar launahækkanir verða að koma til framkvæmda frá 1. desember 2010 og að lágmarkslaun verði kr. 200.000 frá sama tíma. Auk almennra launahækkana leggur samninganefndin meðal annars áherslu á tilfærslu starfsheita í launatöxtum og breytingu á reiknitölum kaupaukakerfa.

 

  1. Þverpólitísk samstaða

Samninganefndin ítrekar þá megin áherslu sína að endurheimta verði glataðan kaupmátt með öllum tiltækum samfélagslegum úrræðum, en til þess verða að vera efnahagslegar og pólitískar forsendur. Sú ábyrgð hvílir á stjórnvöldum og Alþingi. Pólitísk staðfesta er lykill að trausti og um leið að samkomulag á vinnumarkaði eins og Stöðugleikasáttmálinn frá því í júní 2009 haldi í raun. Stefna  verður að stöðugum gjaldmiðli og skapa skilyrði fyrir erlendar fjárfestingar til að örva atvinnulífið. Séu þessar forsendur ekki til staðar verður að skapa þær með þverpólitískri samstöðu á næstu vikum og misserum. Takist það ekki horfir til verulegrar óvissu á vinnumakaði og harðvítugarri kjarabaráttu en ella þyrfti að verða.

 

Reykjavík, 6. desember 2010.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna eftirtalinna aðildarfélaga:

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og formaður samninganefndar

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður Afls starfsgreinafélags og varaformaður    samninganefndar

Finnbogi Sveinsbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Halldóra Sveinsdóttir,  formaður Bárunnar stéttarfélags.

Már Guðnason, formaður Vlf. Suðurlands.

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélag.

Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags.

Ágerður Pálsdóttir, formaður Stéttarfélagsins Samstöðu.

Benoný Benediktsson, formaður Verkalýðsfélags  Grindavíkur.

Lárus Benediktsson, formaður Verkalýðs og sjómannafélags Bolungarvíkur.

Magnús S. Magnússon, formaður Verkalýðs og sjómannafélags Sandgerðis.

Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands.

Sigurður A. Guðmundsson,Verkalýðsfélags Snæfellinga.

Svala Sævarsdóttir Verkalýðsfélags Þórshafnar.

Vilhjálmur Birgisso, formaður  Verkalýðsfélags Akraness.

Þórarinn G. Sverrisson formaður Öldunnar  stéttarfélags.


Sjálfstæðisbarátta þjóðar og kotríkið.

Í tilefni fullveldisdagsins.

Öllum er ljóst að efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika. Afskiptaleysi í stjórnmálum er vissulega stjórnmálastefna en hér á landi viðgekkst þannig afskiptaleysisstefna að hvítflibbaglæpamenn rændu fyrirtæki og fjármálastofnanir blygðunarlaust með því að mergsjúga út úr þeim eigið fé og annarra manna  með afleiðingum sem allir þekkja. Skortur á fjármagni til fjárfestinga í atvinnulífinu, gjaldeyrishöft og óuppgerðar sakir vegna Icesave eru meginástæða þess að hér er nú eitt mesta atvinnuleysi sem um getur í Íslandssögunni.

Það skýtur skökku við að forseti lýðveldisins skuli í viðtali við fjármálaritið The Banker (visir.is. 4.12.) halda því fram að Íslendingar þurfi ekki á erlendri fjárfestingu að halda því;  ,,of mikið innstreymi erlends fjármagns hafi einkennt efnahagslífið á Íslandi fyrir bankahrun og orðið til þess að hagkerfið ofhitnaði og hrundi.” Er forsetinn búinn að gleyma orsökinni, þeirri að hið frjálshyggju einkavædda bankakerfi hrundi yfir okkur hin með skelfilegum afleiðingum,  vegna þess m.a.  að hagkerfið ofhitnaði vegna útlánsþenslu sem reyndist vera froða.

Til voru menn í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga sem lögðu ríka áherslu á mikilvægi erlendrar fjárfestingar í  efnahagslegri og pólitískri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þar skal fyrst nefna Skúla Magnússon landfógeta.  Iðnreksturinn í Viðey, Innréttingarnar, eru einmitt dæmi um mikilvægi erlends fjármagns við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi og fyrir þær hefur Skúli  verið kallaður faðir Reykjavíkur. Við minnumst 300 ára afmælis hans á næsta ári, 2011, en við munum þá einnig minnast sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar, en þá verða 200 ár liðin frá fæðingu hans. Sjálfstæðishetjan sú, ,,sómi Íslands, sverð þess og skjöldur” var einnig umhugað um verslunarfrelsi og erlendar fjárfestingar til þess að lyfta okkur upp úr þeirri örbirgð kotsamfélagsins sem þjóðin var í. Og ekki má gleyma þeim sem komu í kjölfarið, þá var ekkert dekur við nýlendukúgara og einangrun, heldur krafa um sjálfstæði, verslunar- og atvinnufrelsi, að verkafólk fengi laun sín í peningum og mikilvægi erlendra fjárfestinga í efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði þjóðarinnar á okkar skilmálum. Forseti lýðveldisins nú virðist á öndverðum meiði við sjálfstæðishetjurnar, hann virðist mæla fyrir einangrun, að við þurfum ekki á erlendum fjárfestingum að halda, hann virðist tala gegn lausn á Icesavemálinu en dekrar í staðinn við aukin efnahagsleg tengsl við nútímanýlenduherra í Kína og í Rússlandi Pútíns.

Vissulega eru til menn sem vilja festa Ísland í sessi eylandsins, en átta sig ekki á að í leiðinni er verið að festa í sessi einangrun láglaunasamfélagsins og kotungsskap. Það var verkefni okkar á síðustu öld að breyta íslenska kotríkinu í nútíma velferðarríki og lyfta þannig merki sjálfstæðishetjanna. Það er enn hlutverk verkalýðshreyfingarinar að standa vörð um velferðarríkið og kjörin og að berjast gegn viðhorfum kotbóndans um sjálfstæði hans, hvað sem tautar og raular. Það viðhorf skilar  þjóðinni engu til framtíðar.


Kjaraviðræður mjakast af stað í óvissu andrúmslofti

Samninganefnd Starfsgreinasambandsfélaganna á landsbyggðinni kemur saman til fundar mánudaginn 29. þ.m. þar sem gengið verður frá meginmarkmiðum og áherslum félaganna í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Einnig verður gengið frá körfugerð sambandsins í heild gagnvart ríkinu. Fyrsti viðræðufundur Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins hefur verið boðaður mánudaginn 6. desember n.k. þar sem gagnkvæmar áherslur verða kynntar og ræddar.

Í gær var haldinn samráðsfundur aðila á vinnumarkaði um möguleika á einhverskonar samráði eða sáttmála þeirra á milli að frumkvæði Samtaka atvinnulífsins, sem leggja áherslu á kjarasamning til þriggja ára með ,,hóflegum kjarabótum”. Skiptst var á skoðunum um hlutverk kjarasamnings í þeirri vegferð sem framundan er við endurreisn efnahagslífsins. Í því sambandi er stefnumörkun Alþýðusambandsins skýr: Á ársfundinum í haust var þess krafist ,,að íslenskum heimilum og fyrirtækjum verði tryggður sami efnahagslegi stöðugleiki og er í þeim löndum sem best standa og við viljum bera okkur saman við. Forsendur þess eru stöðugur gjaldmiðill, ábyrg hagstjórn og traust.“ Skortur á trausti er ein mesta meinsemdin sem þjakar samfélagið í dag.

Öllum er ljóst að efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika. Þeirri þróun verður að snúa við. Efla verður atvinnustigið og auka og tryggja kaupmátt launafólks. Það verður ekki gert nema efnt verði til viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði. Alþingi og ríkisstjórn landsins verða að axla ábyrgð á víðtæku samstarfi með viljann að vopni,  – en þá þarf viðhorfsbreyting að verða við Austurvöll.

 


Hvað líður kjaraviðræðunum?

Ráðherrar og þingmenn hafa lýst þeirri skoðun sinni að lægstu laun í landinu séu of lág, þau þurfi að hækka. Lægst launaða fólkið innan Starfsgreinasambandsfélaganna er m.a. á launum hjá ríkinu. Fjárlagafrumvarpið gerir hins vegar ekki ráð fyrir neinum launahækkunum í gjaldalið þess á næsta ári. Í tekjulið frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir 5% hækkun. Frumvarpið er með öðrum orðum í mótsögn við sjálft sig. Fjárlagafrumvarpið er vissulega ekki heilagt plagg. Það þarf að meðhöndla í þinginu og verður spennandi að sjá hvernig  þingmenn og ráðherrar munu bregðast við í umfjöllun sinni um fjárlögin þegar kemur að launaliðnum þannig að unnt verði í orði að hækka lægstu launin.

Við hefðbundnar kjaraviðræður liðinna ára hafa aðilar vinnumarkaðarins komist að einhverri tiltekinni niðurstöðu. Sú niðurstaða hefur verið kynnt ríkisvaldinu með það að markmiði að ríkisvaldið tryggði ýmsar félagslegar úrbætur í tengslum við kjarasamninga. Stöðugleiki á vinnumarkaði og vinnufriður er forsenda fyrir því að efnahagslegur stöðugleiki náist. Það er ástæðan fyrir því að ríkisvaldið hefur haft aðkomu að kjarasamningum á liðnum árum. Þessu er öfugt farið núna. Hið mótsagnakennda fjárlagafrumvarp í launamálum og sú pólitíska og efnahagslega óvissa sem ríkir í landinu gerir kjarasamningsumhverfið ákaflega vandmeðfarið.

Stöðugleiki á vinnumarkaði byggir á stöðugleika efnahagslífsins og þar með talið krónunnar sem nú er varin með höftum og fjárhagslegri aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Forsætisráðherra hefur staðfest að ríkisstjórnin hafi samþykkt gildandi samstarfsáætlun við sjóðinn meðan Liljurnar í Vinstri grænum vilja rjúfa samstarfið við AGS.

Þessi pólitíska óvissa um hvert ríkisstjórnin stefnir í efnahagsmálum er ekki til þess fallin að skapa trúverðugan jarðveg fyrir stöðugleika á vinnumarkaði. Til þess þarf þrennt að koma til: Pólitísk staðfesta um að fylgja efnahagsáætlun AGS alla leið. Stefnt sé að stöðugum gjaldmiðli, evru í stað ónýtrar krónu og í þriðja lagi erlendar fjárfestingar til að örva atvinnulífið sem er eina færa leiðin til að lyfta okkur upp úr þeirri fátækt íslenska kotsamfélagsins sem við höfum hafnað í.

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ. Það vigtar því þungt í þeirri umræðu sem framundan er um efnahags- og kjaramál í tengslum við komandi kjarasamninga. Í þeim samningum viljum við flýta okkur hægt. Að sjálfsögðu þarf  að hækka lægstu launin eins og ráðherrar og þingmenn eru meðvitaðir um. Okkar megin áhersla er á að endurheimta kaupmáttinn með öllum tiltækum samfélagslegum úrræðum, en til þess verða að vera efnahagslegar og pólitískar forsendur. Séu þær forsendur ekki til staðar verður að skapa þær með þverpólitískri samstöðu. Meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu og pólitísk þróun næstu vikna ræður úrslitum um hvað verður.


Stöðugur gjaldmiðill. Ábyrg hagstjórn. Traust og trúverðugleiki.

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ. Það vigtar því þungt í þeirri umræðu sem framundan er um efnahags- og kjaramál í tengslum við komandi kjarasamninga. Á skrifstofu sambandins er nú unnið að sameiginlegri kröfugerð vegna kjaraviðræðna sambandsins við Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands, Landssamband smábátaeigenda, Launanefnd sveitarfélaga og ríkið. Það liggur enn ekki fyrir hvort, né hvaða málefni verða á sameiginlegu borði ASÍ gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum. Hagur rúmlega fimmtíu þúsund félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins, í ýmsum atvinnugreinum liggur í hins vegar í því að samstaða náist um fyrirsjáanlegar kjarabætur og atvinnuuppbyggingu, bæði til skamms tíma en ekki síður til lengri tíma litið, – að hér takist að ná sátt um víðtæka endurreins atvinnulífsins, efnahags- og kjaramál á borði en ekki bara í orði. Samstaða er okkar styrkur og um þann styrk eru menn vel meðvitaðir innan Starfsgreinasambandsins.

Stöðugur gjaldmiðill,  ábyrg hagstjórn, traust og trúverðugleiki eru lykilorð í ályktun ársfundar Alþýðusambandsins frá í síðustu viku um efnahags- og kjaramál. Þar er fjallað um þá vegferð sem framundan er við endurreins efnahagslífsins. Alþingi og ríkisstjórn landsins verða að taka þessi orð til sín í fyllstu alvöru.

„Efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika“ segir í ályktun fundarins. Síðan segir;

„Fundurinn krefst þess að íslenskum heimilum og fyrirtækjum verði tryggður sami efnahagslegi stöðugleiki og er í þeim löndum sem best standa og við viljum bera okkur saman við. Forsendur þess eru stöðugur gjaldmiðill, ábyrg hagstjórn og traust“ en skortur á trausti er einmitt ein mesta meinsemdin sem þjakar samfélagið í dag.

Alþýðusambandið telur mikilvægt „að efnt verði til viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði við það verkefni að efla atvinnustigið og auka og tryggja kaupmátt launafólks.“ Enn og aftur er forsendan fyrir víðtækri sátt og samvinnu sú að traust ríki milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og að samstaða náist um samræmda launastefnu sem feli í sér almennar launahækkanir, jöfnun kjara og að lífeyrisréttindi allra landsmanna verði jöfnuð.

Með þessari stefnumörkun ársfundar ASÍ hefur Alýðusambandið lagt spilin á borðið, komið fram af ábyrgð og sagt; já, við viljum samstarf og samvinnu til að endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga, en þá verða aðrir einnig að mæta til leiks í trúverðugleika og af einurð.

Það er forgangsverkefni að vinna bug á atvinnuleysinu og að almennt launafólk endurheimti fyrri lífskjör. „Það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun. Því þarf að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem til staðar eru, m.a. í vistvænni orkunýtingu, mannauði og velferðar- og menntakerfi sem hjálpar okkur að takast á við erfiðleikana. Ýta verður undir nýsköpun, styðja við sprotafyrirtæki, auðvelda erlenda fjárfestingu, auka fullvinnslu innanlands og bæta markaðssetningu erlendis á afurðum, þjónustu, og hugviti,“ svo notuð séu orð ársfundar ASÍ.


Jákvæð gagnrýni og umræða leiðir til samstöðu og árangurs

Jákvæð gagnrýni er ávallt til góðs og til þess fallin að skapa ígrundaða umræðu ef rétt er við henni brugðist. Enska skáldið William Blake  gekk meira að segja svo langt að halda því fram að andstaða væri jafngildi sannrar vináttu þegar hann segir; „oposition is true friendship.“ Því er þetta rifjað upp hér að mikið virðist skorta á sanna vináttu í umræðunni hér á landi þar sem vantraustið ríður ekki við einteyming. Oftar en ekki er illa brugðist við málefnalegri gagnrýni og ómálefnalegar yfirlýsingar ná yfirhöndinni í umræðunni. Verkalýðshreyfingin hefur m.a. orðið fyrir barðinu á slíkri orðræðu, ef orðræðu skyldi kalla.

Á fomannafundi Starfgreinasambandsins, sem haldinn var á Egilstöðum í síðustu viku, var skiptst á skoðunum og góðar umræður áttu sér stað m.a. um þann vanda sem að steðjar í samfélaginu. Komandi kjarasamningar voru einnig til umræðu, undirbúningur þeirra heima í héraði og væntanleg kröfugerð aðildarfélaganna. Mikil eining og samhugur var á fundinum. Fyrir liggur að Flóafélögin semji sér, en sambandið mun kalla eftir samningsumboði vegna hinna félaganna sextán. Samstaðan er okkar styrkur.

Á formannafundinum var enginn fulltrúi mættur fyrir Verkalýðsfélagi Akraness. Formaður félagsins, hafði boðað forföll af persónulegum ástæðum en hvorki varaformaður né annar fulltrúi félagsins var til staðar. Er það miður að Veraklýðsfélag Akraness taki ekki þátt í umræðu um málefni félaganna á sameiginlegum vettvangi þegar mikið liggur við. Þetta er þeim mun lakara þegar formaður félagsins segist velta því fyrir sér á heimasíðu sinni, „hvort Verkalýðsfélag Akraness eigi í raun samleið með ASÍ og Starfsgreinasambandinu og segir koma til að álita að afturkalla aðildina að þessum samtökum.“

Vissulega má gagnrýna verkalýðshreyfinguna fyrir skoðanir sínar, en þeim er a.m.k. ætlað að endurspegla skoðanir félagsfunda aðildarfélaganna, trúnaðarmannafunda þeirra og vinnustaðafunda. Aðferð við val á forystu hreyfingarinnar og fulltrúa félagsmanna á ársfundi ASÍ  (230 manns) og þing Starfsgreinasambandsins (120 manns), þar sem sameiginleg stefna er mörkuð og forysta kosin, er tekin á félagslegan og lýðræðislegan hátt, hvað sem öðru líður. Þótt samstaða verkafólks sé í raun eina virka tækið til árangurs í kjarabaráttunni, má vel vera að Verkalýðsfélag Akraness finni sig ekki í þeirri stórfjölskyldu sem Starfsgreinasambandið er og ASÍ. Það væri miður.

 


Ályktanir formannafundar Starfsgreinasambandsins

„Hugmyndir um almenna lækkun skulda sem á að greiða með eftirlaunum verkafólks er aðför að lífeyrissparnaði og á það er ekki hægt að fallast,“  segir í ályktun formannafundar Starfsgreinasambandsins sem lauk í dag á Egilstöðum.

Mikil samstaða og samhugur var á fundinum meðal formanna aðildarfélaga sambandsins, þar sem staða efnahagsmála og undirbúningur kjaraviðræðna var til umfjöllunar.  Megin markmið komandi kjarasamninga verður að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Menn höfðu hins vegar miklar áhyggjur af þeim skorti á trausti sem ríkir í samfélaginu og tefur fyrir því brýna endurreisnarstarfi sem vinna þarf.

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm. Tryggja verður öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð. „Hvers konar fljótræði eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins er ekki til þess fallið að skila árangri,“ segir í ályktun um heilbrigðiskerfið sem samþykkt var einróma á fundinum ásamt ályktun um kjaramál. Þær fylgja hér með.

Ályktun um efnahags- og kjaramál

Formannafundur aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands haldinn 14. október 2010, telur það vera megin markmið komandi kjarasamninga að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Til þess að svo megi verða þarf að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum og treysta stöðugleika í stjórnmálum þannig að traust verði endurheimt milli þings og þjóðar. Sá skortur á trausti sem ríkir í samfélaginu tefur fyrir þeirri brýnu endurreisn sem við blasir og mun ekki leysa vanda heimilanna.

Hugmyndir um almenna lækkun skulda sem á að greiða með eftirlaunum verkafólks er aðför að lífeyrissparnaði og á það er ekki hægt að fallast. Fundurinn telur hins vegar að lagfæra þurfi gjaldþrotaskiptalögin þannig að einstaklingar sem missa húsnæði sitt við nauðungarsölu dragi ekki með sér  húsnæðisskuldir eftir þá sölu. Fundurinn leggur ríka áherslu á að aðstoða þurfi sérstaklega atvinnulaust fólk í vanda, þannig að það geti búið í húsnæði sem hæfir  fjölskyldustærð viðkomandi einstaklinga. Fundurinn telur að endurreisa verði félagslega íbúðakerfið.

Ályktun um heilbrigðisþjónustu

Formannafundur aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands haldinn á Egilstöðum 14. október 2010 hafnar niðurskurði í velferðarkerfinu sem bitnar á öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Tryggja verður öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð m.a ungbarnaeftirlit, öldrunarþjónustu og hjúkrunarstarfemi. Aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna og sjúkarhúsum verður að vera miðsvæðis í hverjum landsfjórðungi.

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm og þess vegna verður umræðan um sparnað í kerfinu að taka mið af ofangreindum sjónarmiðum til lengri tíma litið. Hvers konar fljótræði eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins er ekki til þess fallið að skila árangri. Formannafundurinn krefst víðtæks samstarfs og samráðs við heimamenn og starfsfólk um endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins.


Síða 1 Af 4123...Síðast