(1)

Ekki landað í útlöndum í verkfalli bræðslumanna. Miðstjórn ASÍ ályktar um deiluna.

Starfsgreinasamband Íslands hefur óskað eftir því við systursamtök sín í Færeyjum, Noregi og Danmörku að þau beiti sér fyrir því að ekki verði landað loðnu úr íslenskum loðnuskipum í verksmiðjur í þessum löndum meðan á verkfalli bræðslumanna stendur.  Hefð er fyrir því innan hinnar norrænu og evrópsku verkalýðshreyfingar að sýna samstöðu milli landa þegar kjara- og verkfallsbarátta er annars vegar. Alþýðusambandið mun einnig beita tengslum sínum við systursamtök sín í Færeyjum, Skotlandi og Noregi til þess að koma í veg fyrir löndun þar. Litlar líkur eru þess vegna á því að landað verði loðnu í útlöndum meðan verkfall stendur hér á landi í fiskimjölsverksmiðjunum þar sem bæði starfsgreinasamtök og heildarsamtök verkafólks í nágrannalöndunum munu sjá til þess að verkfallið verði ekki brotið á bak aftur með löndunum þar. Miðstjórn ASÍ ályktaði um vinnudeilu bræðslumanna í dag þar segir:  

Ályktun miðstjórnar ASÍ um kjaradeilu

starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum

  „Starfsmenn í fiskimjölsbræðslum hafa samþykkt að boða til verkfalls eftir að upp úr viðræðum slitnaði við atvinnurekendur um síðustu helgi. Aðdragandi málsins er margra ára deila starfsmanna við Samtök atvinnulífsins um sjálfstætt gildi sérkjarasamnings þeirra sem endaði fyrir Félagsdómi í síðustu viku. Þrátt fyrir að boðun fyrra verkfalls hafi verið dæmt ólögmæt, staðfesti Félagsdómur þann rétt starfsmanna að krefjast sérkjarasamnings um sín störf. Í viðræðum stéttarfélaganna um síðustu helgi voru í ljósi þessarar niðurstöðu lagðar fram breyttar hugmyndir um lausn sem er í samræmi við þær megináherslur sem lagðar hafa verið fram um breytingar á aðalkjarasamningi. Þrátt fyrir það voru atvinnurekendur ekki reiðubúnir til þess að setjast að samningaborði. + Miðstjórn ASÍ hefur því fullan skilning á fyrirhuguðum aðgerðum til þess að þvinga atvinnurekendur til að koma að raunverulegum viðræðum um lausn kjaramála. Jafnframt hvetur miðstjórn ASÍ önnur félög og félagsmenn þeirra til þess að standa vörð um rétt þessara félaga okkar til þess að beita verkfallsvopninu og ganga ekki í störf þeirra. Alþýðusambandið mun einnig beita tengslum sínum við systursamtök okkar í Færeyjum, Skotlandi og Noregi til þess að koma í veg fyrir löndun þar.“
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag