Af Evrópuvettvangi: Þing EFFAT í Vín 20.-21. nóvember 2014

Þingi EFFAT (Evrópsk samtök starfsfólks í matvælaiðnaði, landbúnaði og ferðaþjónustu) í Vínarborg er nýlokið en þingið er haldið á fjögurra ára fresti. Fulltrúi Starfsgreinasambandsins á þinginu var Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS. MATVÍS átti einnig fulltrúa á þinginu, Þorstein Gunnarsson og til gamans má geta að fyrrum framkvæmdastjóri SGS, Kristján Bragason, var fulltrúi á þinginu í gegnum samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum en Kristján er þar framkvæmdastjóri. Enn fremur er gaman að segja frá því að Kristján var kjörinn annar varaforseta ferðaþjónustudeildarinnar innan EFFAT, en samtökin skiptast í 14 deildir eftir bæði starfsgreinum, og svæðum innan Evrópu auk þess sem starfsrækt er kvennanefnd og ungliðanefnd. EFFAT samtökin eru ekki gömul en þau voru stofnuð í desember árið 2000 með samruna nokkurra evrópusamtaka. Samtökin beita sér mjög innan Evrópusambandsins og veita þar aðhald og ráðgjöf varðandi kjaramál starfsfólks í víðum skilningi. Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á þinginu auk þess sem kosið var í helstu trúnaðarstöður, farið yfir ársreikninga og fjárhagsáætlun og starfsáætlun næstu ára samþykkt. Starfsáætlun Starfsáætluninni var skipt upp í nokkra þætti sem eru og verða í brennidepli næstu ár og lýsa vel áskorununum sem stéttarfélög í Evrópu og heildarsamtök þeirra standa frammi fyrir:
 1. Afla nýrra félagsmanna
 2. Viðhalda og búa til viðunandi störf og ráðningar
 3. Styðja við starfsþjálfun
 4. Bæta heilbrigði og öryggi á vinnustöðum
 5. Auka samráð og samvinnu við kjarasamningagerð
 6. Styðja við jafnrétti kynjanna
 7. Styðja við störf ungliða innan verkalýðshreyfingarinnar
 8. Styrkja aðildarfélög í samningum við fjölþjóðafyrirtæki
 9. Styðja við Mið-, Austur- og Suðaustur-Evrópu og Tyrkland
 10. Styðja við starfshætti og skipulag EFFAT
Auk yfirgripsmikillar starfsáætlunar voru ákveðin markmið og stefna fyrir hvert starfssvið fyrir sig en þau eru: Landbúnaður, matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta. Ályktanir Drög að ályktunum sem bárust frá stjórn EFFAT og einstaka félögum voru einnig afgreiddar en þær fjölluðu um sanngjarnan og viðunandi  vinnumarkað innan Evrópusambandsins, hvernig koma mætti á sjálfbærum matvælaiðnaði innan Evrópu, baráttuna gegn óviðunandi ráðningaformum og fyrir atvinnuöryggi í Evrópu, hvernig mætti styrkja samtal aðila vinnumarkaðarins, hvernig mætti auka réttindi launafólks með starfsgreinasamningum og að lokum var samþykkt ályktun gegn fríverslunarsamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, svokölluðum TTIP samningi (Transatlantic Trade and Investment Partnership). Að mati allra sem töluðu á þinginu verður samningurinn til þess að veikja stöðu launafólks í Evrópu og miðar að því að styðja við atvinnurekendur frekar en launafólk. Mikil leynd hefur hvílt yfir samningunum og hefur það verið harðlega gagnrýnt að verkalýðshreyfingin hefur enga aðkomu að samningunum. Þó er vitað að draga eigi úr eftirliti með fyrirtækjum og ekki hefur orðið við kröfum Evrópsku verkalýðshreyfingarinnar um gegnsæi, að opinber þjónusta verði undanskilin samningnum og sömuleiðis landbúnaður og matvælaframleiðsla. Þó að samningurinn sé á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna er ljóst að áhrif hans muni gæta verulega hér á landi enda felst í samningaviðræðunum að breyta Evrópureglugerðum og samræma reglur beggja vegna Atlantshafsins. Það er því ljóst að hagsmunir íslensks launafólks fara saman við hagsmuni launafólks á meginlandinu í þessu efni. Kosningar Kosið var í lykilstöður innan EFFAT eins og siður er á þingum og heyrði til tíðinda að nýr forseti samtakanna er kona í fyrsta sinn. Nýr forseti heitir Therese Gouvelin og er formaður sænska þjónustusambandsins. Hún er Starfsgreinasambandinu að góðu kunn enda eigum við í góðu sambandi við fulltrúa úr þjónustugreinum á Norðurlöndunum í gegnum NU-HRCT samtökin. Varaforseti var kjörinn Ermanno Bonaldi frá landbúnaðar og matvælasamtökunum á Ítalíu (FAI – CISL). Framkvæmdastjóri var endurkjörinn Harald Wiedenhofer. Auk forseta og varaforseta og ritara fyrir hvert svið og landsvæði voru auk þess kjörnir fulltrúar hvers lands í fulltrúaráð. Þar var Drífa Snædal kjörinn aðalfulltrúi Íslands og Þorsteinn Gunnarsson varafulltrúi.   [caption id="attachment_8620" align="aligncenter" width="223" class=" "]Therese Guovelin og Drífa Snædal Therese Guovelin og Drífa Snædal[/caption]
 1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
 2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
 3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
 4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit