Átak verkalýðshreyfingarinnar í verðlagsmálum, undir yfirskriftinni "Vertu á verði" hefur farið vel af stað. Átakið hófst 26. febrúar síðast liðinn og nú þegar hafa borist vel á annað hundrað ábendingar um óeðlilegar verðhækkanir inn á vefsíðu átaksins -www.vertuaverdi.is.
Starfsgreinasamband Íslands vill hvetja almenning til að standa saman og sporna gegn þeim óeðlilegu verðhækkunum sem dynja á landsmönnum um þessar mundir. Því er almenningur hvattur til að halda áfram að láta vita af óeðlilegum verðhækkunum með því að senda inn farsímamyndir eða skilaboð á vefsíðu átaksins. Sömuleiðis er hægt að láta vita af því sem vel er gert og vekja athygli á verðlækkunum.
Markmiðið með átakinu er tvíþætt: Annars vegar að veita verslunar- og þjónustuaðilum aðhald, hvetja þá til að sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir. Hins vegar að að brýna fyrir almenningi að vera á verði og fylgjast vel með þróun verðlags.