Efling segir sig úr SGS

Skrifstofu Starfsgreinasambands Íslands hefur borist tilkynning um úrsögn Eflingar úr sambandinu. Í henni kemur fram að úrsögnin taki strax gildi og að Efling er ekki lengur aðildarfélag SGS. Framkvæmdastjórn sambandsins fundaði í morgun um úrsögnina og var niðurstaða fundarins sú að úrsögnin hafi takmörkuð áhrif á starfsemi sambandsins og þau verkefni sem sambandið sinnir fyrir hönd sinna félaga. Að SGS standa nú 18 aðildarfélög hringinn í kringum landið og mynda áfram stærsta landssambandið innan ASÍ með samtals um 44.000 félagsmenn.

Almennir félagsmenn SGS tala fyrir samstöðu og meðal aðildarfélaganna verður hún rík sem fyrr. Þau 18 félög sem nú mynda SGS hafa staðið saman í kjaraviðræðum undanfarið með góðum árangri, eins og félagsmenn hafa ítrekað staðfest í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga, og í þeim viðræðum og verkefnum sem fram undan eru verður lítil breyting á. Félagslega og fjárhagslega stendur SGS afar vel, áfram verður horft fram á veginn og unnið í sameiningu að því að bæta kjör og verja réttindi félagsmanna. Starfsgreinasamband Íslands óskar félagsfólki Eflingar alls velfarnaðar.

  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag