Er raunfærnimat fyrir þig?

Starfsgreinasambandið og aðildarfélög þeirra hvetja félagsmenn mjög áfram til að auka færni sína og menntun og er raunfærnimat einn mest spennandi kostur fyrir fólk sem vill láta meta reynslu í stað formlegrar menntunar. Við báðum IÐUNA fræðslusetur um að kynna starfsemi sína er varðar raunfærnimatið: IÐAN fræðslusetur býður upp á raunfærnimat fyrir þá sem ekki hafa lokið formlegri iðn- eða starfsmenntun en hafa aftur á móti mikla starfsreynslu og langar til þess að halda áfram í námi. Raunfærnimatið gengur út á að meta þá þekkingu og færni sem einstaklingar hafa aflað sér í starfi á  móti viðmiðum námsskrár fagsins og getur raunfærnimatið mögulega stytt námið. Mikilvægt er að hafa í huga að raunfærnimat er ekki tilslökun frá þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt aðalnámsskrá. Með raunfærnimatinu er verið að skoða styrkleika viðkomandi og meta þekkinguna ámóti faggreinum námsins ásamt verkþáttum vinnustaðanáms. Í öllum tilvikum stendur eitthvað nám eftir að loknu raunfærnimati og leiðbeinir náms- og starfsráðgjafi hverjum og einum hvernig hægt er að ljúka náminu. Raunfærnimat er í boði í eftirfarandi greinum hjá IÐUNNI fræðslusetri: Bílgreinar: bifreiðasmíði, bifvélavirkjun, bílamálun Byggingagreinar: húsasmíði, málaraiðn, múraraiðn, pípulagnir og skrúðgarðyrkja. Matvælagreinar: bakaraiðn, framreiðsla, kjötiðn, kjötskurður, matartækni, matsveinn, matreiðsla, slátrun Málm- og véltæknigreinar: blikksmíði, málmsuða, rennismíði, stálsmíði, vélstjórn, vélvirkjun, skipstjórn Snyrtigreinar: hársnyrtiiðn Upplýsinga- og tæknigreinar: ljósmyndun og prentun. Einnig er boðið upp á fleiri greinar hjá símenntunarmiðstöðvum landsins svo sem í: Félagsliðabraut, félagsmála- og tómstundabraut, hljóðmenn, leikskólaliða, rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun, rafvirkjun, símsmíði, skólaliðar, skrifstofubraut, stuðningsfulltrúar í grunnskólum, tölvuþjónustubraut, verslunarfagnám, starfsmenn í vöruhúsum, þjónustufulltrúar og gjaldkerar í bönkum Raunfærnimatsferlið er í fimm liðum:
  1. Kynningarfundur þar sem raunfærnimatið er kynnt fyrir áhugasömum.
  2. Finna gögn og koma í viðtal til náms- og starfsráðgjafa.
  3. Færnimappa gerð í samstarfi við náms- og starfsráðgjafa.
  4. Mat og viðurkenning.
  5. Farið yfir niðurstöður. Hvað stendur eftir í námi? Skólaganga skipulögð
Inntökuskilyrði í raunfærnimat:
  • Löggiltar iðngreinar: 25 ára aldur og 5 ára starfsreynsla (36 mánuðir í skrúðgarðyrkju).
  • Starfsmenntun: 25 ára aldur og 3ja ára starfsreynsla.
  • Staðfesta þarf vinnutíma með opinberum gögnum s.s. lífeyrissjóðsyfirliti.
Raunfærnimat er mikil hvatning til náms fyrir einstaklinga á vinnumarkaði og gefur þeim tækifæri að ljúka námi. Áhugasömum er bent á að hafa samband við IÐUNA fræðslusetur, Vatnagörðum 20 s: 590-6400 eða með tölvupósti, radgjof@idan.is Á vefsíðu Iðunnar má nálgast frekari upplýsingar um raunfærnimat.
  1. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  2. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  3. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag
  4. 3/11/2024 3:03:03 PM Upplýsingasíða um nýjan kjarasamning SGS og SA (1)