Feigðarflan

Um helgina sem leið lá við að illa færi á Langjökli. Við fyrstu sýn virðist hin skipulagða ferð með erlenda ferðamenn á jökulinn ekki hafa verið farin með fyrirhyggju og af ábyrgð. Hún var feigðarflan. Vissulega fögnum við þeirri giftusamlegu björgun mannslífa sem varð, en það vakna margar spurningar um ferðir á Íslandi og ferðatilhögun á jöklum. Ekki bara þar. Vélarvana bátar án öryggisbúnaðar í brimröst við strendur landsins, hestaleigur fyrir óvana með unglingskrakka til leiðsagnar, ferðir um fjöll á vanbúnum bifreiðum um ótroðna slóð, ferðir um ár, vötn og höf koma í hugann. Spurt er um skýrar starfsreglur og starfsleyfi fyrir fyritæki sem vilja hasla sér völl í ferðaþjónustu. Fátt er um svör.
Hvort sem við ætlum að auka veg og vanda ferðaþjónustunnar eða ekki er löngu tímabært að fara yfir og svara grundvallarspurningum sem varða skipulag ferðaþjónustunnar í heild. Enda þótt ferðamennska á jöklum landsins sé ofarlega í huga núna þarf að gera tillögur um hvernig standa skuli að málum framvegis. Það þarf skýrar reglur um öryggisþætti og leyfisveitingar til þeirra aðila sem reka þjónustu sem tengist jöklaferðum, reglur um leiðsögn, tryggingar og eftirlit og það þarf að auka menntun og færni í greininni almennt sem hér skal gert að umtalsefni enn eina ferðina. Í október 2005 kom út viðamikil skýrsla, Þarfagreining fyrir fræðslu og menntun í ferðaþjónustu, sem unnin var að frumkvæði SAF í samstafi við Starfsgreinaráð um náttúrunýtingu og starfsmenntasjóði Starfsgreinasambandsins og VR. Fram kom í skýrslunni að menntun í ferðaþjónustu væri afar takmörkuð á Íslandi og að brýn þörf væri á sérhæfðu námi, starfsnámi, alþjóðlegum tengslum og sérhæfðri símenntun. Mikilvægt væri að fyrirtækin ynnu að því að styrkja ímynd ferðaþjónustunnar út á við með því markmiði að laða metnaðarfullt og hæft fólk til náms og starfa í greininni. Fyrirtækin þurfi að tileinka sér  fagleg vinnubrögð á sviði starfsmannastjórnunar þ.m.t.við ráðningar og þjálfun. Fyrirtækin mættu fjárfesta meira í þjálfun starfsfólks við ráðningu og einnig þurfa þau að leggja áherslu á að skapa skýr starfsþróunarferli fyrir starfsfólk sem ráðið er til starfa. Síðan þá hafa Starfsgreinasambandið og SAF í samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins unnið ötuglega að því að efla grunnmenntun í ferðaþjónustu og beitt sér fyrir því að sérstakar ferðaþjónustubrautir verði teknar upp á framhaldskólastigi, en hægt miðar í þeirri þróun. Mörg fyrtæki innan SAF standa sig afar vel í starfsmenntun og þjálfun, önnur miður eins og gengur. Ennþá er gap milli atvinnulífs og skóla að þessu leyti og engin skýr farvegur fyrir starfsnám innan skólakerfisins í samvinnu við fyrirtækin eða með milligöngu stjórnvalda. Því þarf að breyta. Umræðan um að ferðaþjónustan skipti máli fyrir þjóðarbúið sem þriðja stærsta útflutningsatvinnugreinin, að nýsköpun sé í ferðaþjónustu, vöxtur, vöruþróun, áhugaverð störf og að framtíðin sé full af tækifærum verður hjóm eitt ef ekki er tekið á menntamálunum og fagleg nálgun viðhöfð á öllum sviðum. Afleiðingarnar geta komið okkur öllum skelfilega í koll til lengri tíma. Það er þess vegna ekki einkamál fyrirtækjanna hvernig að þjónustunni er staðið, það eru líka framtíðarhagsmunir ferðaþjónustunnar í húfi. Illa grunduð ferðaþjónusta og svartir sauðir í greininni sem ekki sýna fagmennsku og ábyrgð eru skemmd epli sem eitra út frá sér og skemma fyrir hinum sem vel gera. Þannig koma þau óorði á land og þjóð þegar eftir þeim er tekið. Þegar endurreisn atvinnu- og efnahagslífsins er í húfi og vöxtur ferðaþjónustunnar og fjölgun starfa skiptir verulegu máli þarf að ræða stefnumörkun í greininni  í heild sinni m.a. við þá sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í bráð. Þá gildir ekkert hálfkák. Þá verða þjóðarhagsmunir og íslensk náttúra sem sjálfbær auðlind, fyrst og fremst, að ráða för að lokum. Annað er feigðarflan.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag