Heildarvinnutími, hvíldartími og skipulag vinnutíma

Mikill vöxtur er í ferðaþjónustu um þessar mundir og hefur mannaflaþörf aukist því samfara. Af því tilefni vill Vinnueftirlitið vekja athygli veitinga- og gististaða á þeim ákvæðum sem gilda um vinnutíma en stofnunin hefur eftirlit með því að þeim sé fylgt. Til að kanna stöðuna mun Vinnueftirlitið á næstunni kalla eftir vinnutímaupplýsingum frá völdum fyrirtækjum í greininni. Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er í IX. kafla fjallað um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Helstu ákvæðin eru:
 • Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld.
 • Starfsmaður á rétt á hléi ef daglegur vinnutími hans er lengri en sex klukkustundir.
 • Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma skv. 53. gr.
 • Hámarksvinnutími starfsmanna á viku að yfirvinnu meðtalinni skal ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.
 • Vinnutími næturvinnustarfsmanna skal að jafnaði ekki vera lengri en átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
  Áhættumat á vinnustað og forvarnir Vinnueftirlitið vill jafnframt ítreka eftirfarandi:
 • Atvinnurekanda ber að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Það felur m.a. í sér ábyrgð á að gert sé áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Sjá nánar í reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Í áhættumatinu skal m.a. meta vinnutíma starfsmanna með hliðsjón af gildandi vinnutímaákvæðum, sbr. hér að framan.
 • Bent er á að gera skal sérstakt áhættumat með tilliti til starfa ungmenna yngri en 18 ára. Um þennan aldurshóp, sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, gildir sérstök reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga og er þar m.a. fjallað ítarlega um vinnutíma og hvíldartíma þessa hóps og hvaða verk þau mega vinna og hvaða verk þau mega ekki vinna.
  Vinnueftirlitið hvetur fyrirtæki í ferðaþjónustu til að fara yfir vinnutímamál hjá sér til að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi og vinnuskipulag öllum til hagsbóta. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, má nálgast lög og reglur er varða vinnuvernd ásamt leiðbeiningum og fræðsluefni.
 1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
 2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
 3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
 4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit