Íslenskt fyrirtæki lækkar yfirvinnuálag fiskverkafólks í Grimsby

Frá apríl 2016 ber atvinnurekendum á Bretlandseyjum að greiða samkvæmt lögum um lágmarkslaun og eru þau ákveðin 7,2 pund á tímann (1.300 krónur) fyrir starfsfólk 25 ára og eldri en til samanburðar er lágmarks tímakaup í fiskvinnslu 1.440 krónur hér á landi, án bónusgreiðslna. Alþjóðasamtök launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði (IUF) sem SGS á aðild að hefur leitað ásjár hjá SGS í viðskiptum sínum við fyrirtækið Icelandic group sem er með starfsstöðvar um allan heim. Ein fiskvinnsla þeirra er í Grimsby (Icelandic Seachill) og ber þeim að hækka grunnlaun um 400 starfsmanna samkvæmt lögum um lágmarkslaun og er ætlunin að greiða 7,35 pund á tímann (1.327 krónur). Í verksmiðjunni er gerð krafa um mikla yfirvinnu og vinnur starfsólk 10-20 yfirvinnutíma á viku og getur þannig hækkað laun sín umtalsvert. Fyrir yfirvinnuna hefur verið greitt 50% hærra tímakaup samkvæmt ráðningarsamningum en því miður er enginn kjarasamningur í gildi fyrir verksmiðjuna. Samhliða hækkun grunnlaunanna ætlar Icelandic group að endursemja við hvern starfsmann fyrir sig og lækka yfirvinnukaupið þannig að starfsfólk fær aðeins fjórðungs álag á launin fyrir yfirvinnuna. Fyrirtækið gefur því með annarri hendi en tekur með hinni. Verkalýðsfélagið á staðnum hefur miklar áhyggjur af því að fleiri fyrirtæki ætli sér að fara þessa leið og hækkun lágmarkslauna verði þannig nýtt til að endursemja kjör fiskverkafólks á svæðinu. SGS hefur þegar brugðist við með því að koma athugasemdum á framfæri við Icelandic group en fyrirtækið er í eigu Framtakssjóð Íslands. Starfsgreinasamband Íslands er í nánum tengslum við verkalýðsfélagið í Bretlandi, Unite the Union og alþjóðasamtökin IUF og fylgist grannt með gangi mála. Nú er svo komið að þeir starfsmenn sem voru ekki tilbúnir til að endursemja með skertu yfirvinnuálagi hafa fengið hótunarbréf þar sem þeim gefst kostur á að endursemja um yfirvinnuálag ella verði þeim sagt upp. Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að yfirvinnuálagið verði látið halda sér enda er tilgangur laga um lágmarkslaun að hækka lægstu launin en ekki skerða það aukaálag sem fólk fær fyrir yfirvinnustundir. Þá tekur Starfsgreinasambandið undir kröfur stéttarfélagsins á staðnum að gengið verði frá kjarasamningi fyrir starfsfólk fiskvinnslunnar. Það er með öllu ólíðandi að íslenskt fyrirtæki hagi sér svona gagnvart verkafólki, hvort sem það er gert hér á landi eða annars staðar. Framganga Icelandic Seachill hefur vakið athygli alþjóðasamtaka verkafólks eins og sjá má á heimasíðum samtakanna: The Union, verkalýðsfélagið í Bretlandi: http://www.unitetheunion.org/news/grimsby-fish-firms-national-living-wage-row-goes-to-brussels--as-workers-face-the-sack/ EFFAT, evrópsk samtök launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði: http://www.effat.org/sites/default/files/news/14375/global_unions_call_on_eu_for_action_to_protect_seafood_industry_workers.pdf IUF, alþjóðleg samtök launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði: http://www.iuf.org/w/?q=node/4958 Stuðningsyfirlýsing EFFAT - evrópskra samtaka launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði.
  1. 1/12/2021 10:41:03 AM Stytting vinnutíma á almennum vinnumarkaði
  2. 1/11/2021 3:47:42 PM Félagsmannasjóður
  3. 12/30/2020 2:56:25 PM Um áramót
  4. 12/21/2020 9:48:44 AM Jólakveðja SGS 2020