Laun ríkisstarfsmanna hækka um 1,8% afturvirkt

Laun þeirra ríkisstarfsmanna sem eru í aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands fá nú í fyrsta sinn svokallaða launaskriðstryggingu sem gefur að meðaltali 1,8% hækkun á laun afturvirkt frá 1. janúar 2017. Leiðréttingin kemur til útborgunar á flestum stöðum þann 1. mars. Þetta er gert á grundvelli rammasamkomulags í tengslum við síðustu kjarasamninga til að tryggja að launaskrið á almenna vinnumarkaðnum nýtist líka starfsfólki hjá hinu opinbera. Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins segir: „Þetta er í fyrsta skipti sem reynir á launaþróunartrygginguna og ég fagna því að leiðréttingin sé nú í hendi og tryggir að fólk í okkar félögum fái hluta launaskriðsins sem er á almenna vinnumarkaðnum. Það hefur oft í gegnum árin verið þannig að fólk innan hins opinbera nýtur ekki launaskriðs í sama mæli og á almenna markaðnum. Því er þetta fagnaðarefni“ Tryggingin er mæld út frá launaskriði árin 2013 til 2016 en annað uppgjör verður svo gerð fyrir árin 2017 og 2018 og leiðrétt ef tilefni er til. Útfærsla tryggingarinnar er misjöfn eftir landssamböndum en ákveðið var að SGS myndi feta sig í átt að nýrri launatöflu líkt og flest opinber félög innleiddu í síðustu kjarasamningum. Því eru allir starfsmenn færðir í 6. þrep launatöflunnar, sem er efsta þrepið og taflan hækkuð öll um 1%. Þetta gerir það að verkum að fólk ber aðeins misjafnt úr býtum eftir aldri og röðun í launatöflu, en launatöflur eru þá ekki háðar lífaldri lengur og því verður auðveldara að breyta töflunni til samræmis við aðra í næstu kjarasamningum. Félagsmenn sem starfa við ræstingar fá 1,8% hækkun á tímamælda og flatamælda ákvæðisvinnu. Undirritað samkomulag um útfærslu launaþróunartryggingar 16 feb 2018
  1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
  2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
  3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
  4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit