Samninganefnd SGS skorar á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullan greiðslufrest

Fyrir helgi kom samninganefnd SGS saman til fundar í húsakynnum sambandsins, en samninganefndina skipa formenn allra 18 aðildarfélaga SGS. Á fundinum var gengið frá kröfugerð sambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins og farið yfir stöðu kjaramála.

Eins og gefur að skilja voru málefni Grindvíkinga fundarmönnum ofarlega í huga. Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, gerði grein fyrir þeim áherslum sem félagið heldur á lofti gagnvart stjórnvöldum og lánastofnunum um þessar mundir og þakkaði félögum SGS fyrir veittan stuðning og hlýjar kveðjur.

Ljóst er að fyrstu viðbrögð lánastofnana, að veita Grindvíkingum greiðslufrest án niðurfellingar á vöxtum og verðbótum, eru alls ekki til þess fallin að leysa úr þeirri fjárhagslegu óvissu sem Grindvíkingar standa frammi fyrir. SGS skorar á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullan greiðslufrest á þessum óvissutímum og falla tímabundið frá innheimtu vaxta og verðbóta.

Nú hafa stjórnvöld samþykkt frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um tímabundinn stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavík. Mikilvægt er að tryggja að ráðningarsamband launafólks haldist þrátt fyrir yfirstandandi hremmingar og því skorar SGS á þau fyrirtæki sem að hluta geta fært sína starfsemi til eða hafa til þess fjárhagslega burði, að halda starfsfólki sínu í Grindavík áfram á launaskrá sé þess nokkur kostur.

  1. 7/1/2025 3:01:33 PM SGS óskar eftir framkvæmdastjóra
  2. 6/4/2025 1:11:55 PM Burt með mismunun - ný vefsíða
  3. 5/5/2025 3:54:17 PM VLFS vinnur mál í Félagsdómi vegna alvarlegra brota gegn fél…
  4. 5/2/2025 2:10:50 PM Orlofsuppbót 2025 - reiknivélar fyrir félagsmenn