Stærstu stéttarfélög og landssambönd á almennum vinnumarkaði taka höndum saman um nýja þjóðarsátt

Íslensk heimili hafa of lengi verið föst í spennitreyju ofurvaxta og óðaverðbólgu, en hætta er á að kjarabætur sem náðst hafa fram í kjarasamningum síðustu ára brenni upp og verði að engu. Það hvernig tekst til við endurnýjun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eftir áramótin mun skera úr um þetta.

Fulltrúar stærstu landssambanda og stéttarfélaga landsins skynja ákall samfélagsins um farsæla kjarasamningagerð og átta sig á fordæmisgefandi hlutverki kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Formenn Eflingar, Landsambands íslenzkra verzlunarmanna, Samiðnar - sambands iðnfélaga, Starfsgreinasambands Íslands og VR eru sammála um grundvallarnálgun í komandi kjarasamningagerð, en samanlagt fara þessi félög með samningsumboð fyrir rúmlega 115 þúsund manns eða um 93% launafólks innan vébanda ASÍ.

Í sameiginlegri grundvallarnálgun þessara félaga er horft til þess að hófsamar launahækkanir á formi krónutöluhækkana verði bundnar ströngum forsendum um lækkun verðbólgu og vaxta, með það að markmiði að verja og auka kaupmátt launa meirihluta alls launafólks. Nálgunin felur í sér að allir aðilar sem hafa áhrif á afkomu heimilanna axli ábyrgð – fyrirtæki, stjórnvöld og sveitarfélög.

Stjórnvöld verða að leiðrétta stórfellda rýrnun barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta síðustu áratugi, en þessar skattfrjálsu bætur eru líflína margra heimila í landinu. Einnig verður að gera löngu tímabærar ráðstafanir til að tryggja öryggi leigjenda og koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn í heild sinni.

Félögin munu skipa sameiginlega samninganefnd, sem verður falið að leiða viðræður við stjórnvöld og SA um heildstæðan langtímasamning byggðan á þessari grundvallarnálgun.

 

Á myndinni með fréttinni eru formenn félaganna sem sátu óformlegan fund með Samtökum atvinnulífsins í húsnæði Ríkissáttasemjara í dag. Á myndina vantar Eið Stefánsson frá Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna.

  1. 7/15/2024 10:47:20 AM Kjarasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga 2024-2028…
  2. 7/8/2024 11:05:45 AM Kjarasamningur við ríkið 2024-2028 samþykktur
  3. 7/5/2024 11:51:04 AM Kosið um nýjan kjarasamning við sveitarfélögin
  4. 7/4/2024 12:49:29 PM Kjarasamningur við sveitarfélögin í höfn