Stöndum vörð um lífeyrissjóðakerfið.

Mikilvæg umræða og upphaf að nýrri stefnumótun aðildarfélaga og sambanda ASÍ um málefni lífeyrissjóðanna hóst með formlegum hætti í vikunni sem leið á sérstökum stefnumótunarfundi ASÍ. Ásmundur Stefánsson fyrrverandi forseti ASÍ fjallaði þar m.a. um lífeyriskerfið og þær breytingar sem orðið hafa frá árinu 1969, aðdragandann að stofnun sjóðanna og þá hugmyndafræði sem lá að baki og fór einnig orðum um framtíðarvanda sjóðanna. Stefán Ólafsson prófessor ræddi samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða. Bjarni Þórðarson tryggingarstærðfræðingur fór yfir réttindi og tryggingarfærðilega stöðu sjóðanna  og Sigurbjörn Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri söfnunarsjóðs Lífeyrisréttinda ræddi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og ávöxtunarkröfu. Að loknum fróðlegum yfirlitserindum fór fram hópavinna nærri áttatíu þátttakenda frá aðildarfélögum ASÍ þar sem hugmyndafræði lífeyriskerfisins var krufin til mergjar í umræðuhópum. Aðrir málaflokkar sem ræddir voru í hópavinnunni voru  lífeyrisréttindin ásamt skörun við almannatryggingakerfið, stjórnkerfi lífeyrissjóðanna og meðferð eigna þeirra. Niðurstöður af þessum stefnumótunarfundi ASÍ verða sendar, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ, aðildarsamböndunum og félögum ASÍ til umfjöllunar. Starfsgreinasambandið fagnar þessari viðamiklu og nauðsynlegu umræðu um málefni lífeyrissjóðanna sem nú er hafin á skipulegan hátt innan ASÍ. Hún er tímabær, ekki síst í því ljósi að lífeyrissjóðirnir hafa sannað gildi sitt sem öflug samfélagsleg samtrygging og raunhæf sparnaðarleið alls almennings og traustur fjárhagslegur bakhjarl  í þeim ólgusjó sem bankahrunið olli á hinum einkavædda fjármálamarkaði. Verkalýðshreyfingin verður og mun standa vörð um lífeyrissjóðakerfið, en umræðan um hlutverk þess í nútíð og framtíð er engu að síður mikilvæg til að tryggja enn ferkar hagsmuni launafólks en verið hefur.  
  1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
  2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
  3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
  4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit