Þing Sjómannasambands Íslands: Ræða framkvæmdastjóra SGS

29. þing Sjómannasambands Íslands fer fram dagana 4. og 5. desember 2014 á Grand Hótel Reykjavík. Meðal gesta á þinginu er Drífa Snædal, en hún flutti erindi á þinginu í dag. Erindið í heild seinni má lesa hér að neðan. Ágætu þingfulltrúar, Það er mér mikill heiður og ánægja að fá að ávarpa ykkur á þessum vettvangi enda er það hátíð þegar launafólk kemur saman til að ræða stöðu sína og hvernig megi sækja fram um bætt kjör og betri starfsaðstæður. Til hamingju með þingið. Eins og mér varð tíðrætt um þegar ég fékk að heimsækja ykkur síðast þá fara hagsmunir félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og félaga í Sjómannasambandinu saman. Fiskveiðar og fiskvinnsla er grundvallaratvinnuvegur og það skiptir öllu máli að við hlúum að aðbúnaði og kjörum þeirra sem þar starfa. Einungis þannig getum við verið stolt af því að vera fiskveiðiþjóð. Það er því á ábyrgð okkar sem störfum í samtökum launafólks í fiskiðnaðinum að vernda, verja og sækja fram fyrir okkar félaga og það má velta því upp hvort sameina eigi krafta Sjómannasambandsins og Starfsgreinasambandsins til framtíðar og mynda eina sameiginlega og sterka rödd fyrir sjómenn og landverkafólk. Ég sé á dagskrá ykkar í dag og á morgun að umræður um heilsu og öryggi eru í fyrirrúmi ásamt auðvitað kjaramálunum. Sjómenn hafa farið fram með góðu fordæmi í fræðslu- og öryggismálum og það er ekkert launungarmál að horft er til þess góða árangurs sem þar hefur náðst í mótun endurmenntunar annarra stétta. Ég vil því nota tækifærið og brýna ykkur áfram á þeirri vegferð, öðrum til fyrirmyndar. En það eru kjaramálin sem brenna sennilega á ykkur eins og flestu öðru launafólki um þessar mundir. Skeytin sem þið fáið frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi auka ekki bjartsýni á að samningar náist og gerir kröfuna um þjóðarsátt af hendi SA frekar hjáróma. Það er reyndar einkenni á þeim bænum að fara frjálslega með hugtök, hvort sem við tölum um þjóðarsátt eða stöðugleika. Í mínum huga grundvallast þjóðarsátt á samkomulagi um velferð, öryggi og afkomu þar sem ekkert er undanskilið. Þjóðarsátt getur aldrei orðið að veruleika  nema almenn sátt ríki um hana, það liggur í orðanna hljóðan. Til að skapa almenna sátt í samfélaginu um laun og kjör þurfa ýmis skilyrði að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi þurfa laun í landinu að vera þannig að fólk geti lifað af þeim. Í öðru lagi þarf að tryggja að sumir geti ekki skammtað sér laun eins og þeim hentar heldur er samkomulag um hvað telst sanngjörn launadreifing. Í þriðja lagi þarf að vera sátt um skattlagningu launafólks og nauðsynjavara og slíkt þarf að ræða við samtök launafólks í aðdraganda breytinga. Í fjórða lagi þarf að tryggja það að þau kerfi sem við höfum byggt upp samfélagslega þjóni sínum tilgangi, hvort sem litið er til heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins eða félagsþjónustu. Engar þessar forsendur eru til staðar í dag og því tómt mál að tala um einhverja þjóðarsátt – það er einfaldlega ekki grundvöllur fyrir slíku. Sá fagurgali sem boðaður er í dag og nefnist þjóðarsátt er þannig þrýstingur á að halda launum niðri á meðan það er frítt spil annars staðar. Er til dæmis hægt að tala um þjóðarsátt þegar sjómenn hafa verið samningslausir árum saman? Varla. Ég er hrædd um að við séum að sigla inn í alvarlegt ástand þar sem dulbúna á þenslu sem góðæri. Ástand sem við þekkjum allt of vel. Í slíku ástandi reynir  verulega á verkalýðshreyfinguna, að við látum ekki blekkjast heldur þrýstum á um betri samninga. Það er stóra verkefnið framundan. Það eru þó ýmsar ógnir sem steðja að samtökum launafólks. Samráð sem lofað hefur verið með undirritun skjala og samninga er að engu haft af sitjandi ríkisstjórn og eins og þið vitið mætavel eru viðsemjendur harðir í horn að taka þessa dagana. Starfsgreinasambandið rekur nú mál fyrir félagsdómi vegna Vísis á Húsavík sem ber við hráefnisskorti þegar í raun er verið að leggja framleiðsluna niður og færa hana landshorna á milli. Samtök atvinnurekenda bera því við að sama fyrirtækið geti rekið deildir út um allt land og því er ráðningin ekki bundin við ákveðinn stað og aðgang að hráefni á þeim stað. Ef félagsdómur fellst á þessi rök erum við að tala um afturhvarf um marga áratugi þar sem fólk var flutt hreppaflutningum á milli staða; þá vegna félagsaðstoðar, nú vegna vinnu. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að vinnandi fólk þrýstir á um launahækkanir og bætt kjör eins og sést hefur í stétt eftir stétt undanfarna mánuði. Í svona ástandi skiptir samstaða lykilmáli, ekki bara innan stéttar heldur á milli stétta. Hagsmunir félaga í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins og Sjómannasambandsins fara saman á mörgum sviðum og það er okkur í hag að styðja hvert annað. Ég óska ykkur góðs þings og farsællar niðurstöðu og sérstaklega þakka ég Sævari Gunnarssyni fráfarandi formanni Sjómannasambandsins fyrir gott samstarf og óska honum alls hins besta í framtíðinni.
  1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
  2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
  3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
  4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit