Um áramót

Árið sem er að líða hefur í öllum skilningi verið afar óvenjulegt. Covid-19 og aðgerðir til að hefta útbreiðslu hennar hafa haft gríðarlega mikil áhrif á launafólk og aðstæður á vinnumarkaði. Algert hrun hefur verið í ferðaþjónustu með tilheyrandi  fjöldauppsögnum og gjaldþrotum. Það hefur reynt mikið á samtök launafólks í þessu ástandi að verja kjör okkar fólks og reyna að tryggja að aðgerðir stjórnvalda nýtist almenningi í landinu en ekki sérvöldum hópum.

Það er nauðsynlegt að rifja upp nú í árslok að ein af meginhugmyndum atvinnurekenda um ,,lausnir“ í þessu ástandi var að taka kjarasamninga úr sambandi og svipta þannig fólk umsömdum launahækkunum. Það var og er stundum ótrúlegt að fylgjast með hversu kreddubundnar og gamaldags hugmyndir atvinnurekenda eru á tímum sem þessum, og hversu lítill skilningur er á kjörum og afkomu fólks.

Stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins hafa lagt sig fram um að efla þjónustu sína og bregðast við þessum nýju aðstæðum með margvíslegum hætti. Í því hefur fólk nýtt sér fjarfundatækni í ríkari mæli og stafrænar lausnir -  en ekkert kemur samt í staðinn fyrir beint samband við félagsfólk og er mikil eftirvænting eftir því að geta hafið það á nýjan leik.

Nú um áramót eiga allir félagsmenn innan SGS að fá launahækkun í samræmi við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hjá sveitarfélögum og ríki. Hægt er að skoða betur nýja kauptaxta og einstakar hækkanir á heimasíðu SGS. Launafólk er hvatt til að fylgjast með að hækkunin skili sér og hafa samband við sitt stéttarfélag ef á því er misbrestur.

Næsta ár bíður okkar með fullt af verkefnum og áskorunum til að bæta kjör fólks og byggja hér betra samfélag. Við hlökkum til þeirra verkefna og samvinnu við félagsmenn vítt og breytt um landið.

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS

  1. 9/1/2021 12:15:24 PM Þingi SGS frestað
  2. 6/10/2021 2:06:09 PM Skil­orðs­bundin lífs­hætta
  3. 5/21/2021 12:10:15 PM Sveitarfélögin fá falleinkun – vegna styttingar vinnuvikunna…
  4. 5/19/2021 10:16:15 AM Formenn funda í Mývatnssveit