Umsvif hins opinbera í útboðum í ræstingum kortlögð

Í gær sendi ASÍ fyrir hönd SGS og Eflingar bréf til allra sveitarfélaga landsins þar sem óskað er eftir upplýsingum um þau ræstingarverkefni sem sveitarfélögin hafa útvistað til einkafyrirtækja á síðustu árum. Tilgangur upplýsingabeiðninnar er að greina betur umfang hins opinbera í útboðum á ræstingum og þrifum, svo og að kanna hvernig framkvæmd útboða og eftirliti er háttað.

Samkvæmt greiningu þegar hefur verið unnin á umfangi útvistunar ræstinga hjá ríkissjóði, hafa útgjöld ríkisins til kaupa á ræstingu á tímabilinu 2019-2024 aukist um 80% og námu um 3 milljörðum á árinu 2024. Umsvif ríkisins í rekstri ræstingarfyrirtækja eru á bilinu 20-30%. Þegar gögn berast frá sveitarfélögum verður hægt að kortleggja betur hversu stórum hluta af almannafé er í raun ráðstafað í þessar útvistanir.

Hálfur mánuður er nú síðan Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Sólveig Anna Jónsdóttur, formaður Eflingar, funduðu með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, og Ingu Sæland, félags- og vinnumarkaðsráðherra, vegna málefna ræstingarfólks. Á þeim fundi lögðu Vilhjálmur og Sólveig Anna fram tillögur sem SGS, Efling og ASÍ hafa unnið að til að tryggja og bæta réttarstöðu ræstingarfólks.

Tillögurnar snúa annars vegar að hinu opinbera sem verkkaupa í ræstingum og lagt til að ríki og sveit endurskoði útvistun ræstinga, hún verði afnumin eða stórlega dregið úr henni þannig að hún heyri til undantekninga. Einnig að framkvæmd útboða verði bætt, félagslegra sjónarmiða sé gætt og að girt sé fyrir samþykkt óeðlilega lágra tilboða. Hins vegar snúa tillögurnar að endurskoðun laga og reglugerða og sett verði reglugerð um ræstingarstörf.

Fundurinn var góður og uppbyggilegur en formlegra viðbragða er enn beðið. Væntingar eru um að skipaður verði starfshópur með hagsmunaaðilum til að vinna tillögurnar áfram fljótt og vel.

  1. 3/7/2025 2:31:55 PM Umsvif hins opinbera í útboðum í ræstingum kortlögð
  2. 2/19/2025 8:36:18 PM SGS, ASÍ og Efling fordæma siðlausa framgöngu gagnvart ræsti…
  3. 2/14/2025 3:30:19 PM Ólíðandi launalækkun ræstingarfólks
  4. 2/14/2025 11:50:03 AM Kjarasamningar SGS komnir í endurbættan búning