Þann 30. apríl sl. kvað Félagsdómur upp dóm í máli sem Verkalýðsfélag Suðurlands rak fyrir hönd félagsmanns síns gegn hóteli á Suðurlandi og féllst á allar dómkröfur félagsins í málinu. Félagsmaðurinn sem um ræðir er fyrrum starfsmaður hótelsins. Þegar hann óskaði eftir því tilheyra sínu stéttarfélagi, nánar tiltekið Verkalýðsfélagi Suðurlands, hótaði eigandi og stjórnarmaður hótelsins honum uppsögn. Viku síðar var félagsmanninum sagt upp störfum.
Félagsdómur taldi þetta athæfi vera skýrt brot gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, en skv. 4. gr. þeirra laga er atvinnurekanda m.a. óheimilt að hóta starfsmanni uppsögn eða segja honum upp vegna afskipta hans af stéttarfélögum. Ákvæðinu er ætlað að tryggja stjórnarskrárbundið félagafrelsi launafólks og rétt þess til að vera í stéttarfélögum og beita sér á vettvangi þeirra.
Viðurkenndi dómurinn að um væri að ræða alvarleg brot gegn ákvæðinu og dæmdi hótelið til greiðslu sektar í ríkissjóð að fjárhæð 1.300.000 kr., auk þess sem hótelið var dæmt til að greiða stefnanda málskostnað.
Hægt er að nálgast dóminn hér: Dómur/úrskurður