Kröfur verkafólks ógna ekki stöðugleikanum

Magnús Már Jakobsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, ritaði grein í Víkurfréttir í síðustu viku undir yfirskriftinni "Kröfur verkafólks ógna ekki stöðugleikanum". Í greininni skorar Magnús m.a. á atvinnurekendur í Grindavík að láta í sér heyra - hann efist um að þeir séu sömu skoðunar og forysta Samtaka atvinnulífsins hvað varðar kröfugerð SGS. ... Það þurfti ekki að bíða lengi eftir hörðum viðbrögðum talsmanna Samtaka atvinnulífsins við kröfugerð sextán aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands í síðasta mánuði vegna komandi kjaraviðræðna. Sama dag og kröfugerðin var birt höfnuðu vinnuveitendur viðræðum og skelltu í lás, enda færi allt á hvolf í þjóðfélaginu yrði gengið að kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Miðað við afstöðu vinnuveitenda er ljóst að verkafólk þarf að standa fast á kröfunum og þjappa sér saman um að ná fram réttlátum leiðréttingum.  
Kröfugerðin og afstaða vinnuveitenda í Grindavík 

Lítum aðeins á kröfurnar, sem mótuðust á fundum í verkalýðsfélögunum og á vinnustöðum um land allt með hliðsjón af viðhorfskönnunum. Á félagssvæði Verkalýðsfélags Grindavíkur var efnt til opinna funda, þar sem félagsmönnum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif. Sömu sögu er að segja um önnur verkalýðsfélög sem standa að kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Miðað er við krónutöluhækkanir á laun og að lægstu taxtar verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og að sérstaklega verði horft til gjaldseyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir. Launatöflur verði endurskoðaðar, desember- og orlofsuppbætur hækki, lágmarksbónus í fiskvinnslu verði tryggður og að ný starfsheiti verði skilgreind í launatöflu. 

Þessar kröfur setja sem sagt þjóðfélagið lóðrétt á hausinn að mati talsmanna Samtaka atvinnulífsins. Reyndar hefur lítið heyrst frá vinnuveitendum á félagssvæði Verkalýðsfélags Grindvíkur. Ég skora þess vegna á þá að láta í sér heyra. Því verður vart trúað að vinnuveitendur í Grindavík séu sömu skoðunar og forysta Samtaka atvinnulífsins.
 
Afleiðingar langs vinnudags 

Lægstu laun í dag eru um 201 þúsund krónur á mánuði. Grundvallaratriði hlýtur að vera að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að þurfa að stóla á yfirvinnu, aukavinnu og akkorð til að framfleyta sér og sínum. Auk þess hefur margoft verið bent á að langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað, til dæmis í heilbrigðiskerfinu. Meira að segja vinnuveitendur eru sammála þessu. Engu að síður er afar takmarkað svigrúm til að hækka lægstu launin að mati Samtaka atvinnulífsins, sem kallar eftir þjóðarsátt. 
 
Launin nærri þriðjungi lægri á Íslandi 

Íslendingar miða sig gjarnan við hin Norðurlöndin. ASÍ birti nýlega könnun á launum reglulegra dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum og þar sést svart á hvítu hversu mikið hallar á almennt verkafólk á Íslandi. Í ljós kemur að dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi eru í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. 
 Já, segi og skrifa 5% hærri.
 
Dagvinnulaun verkafólks eru hins vegar allt að 30% lægri hér á landi en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. 
 
Já, segi og skrifa 30% lægri. 

 

Aðgerðir á ábyrgð vinnuveitenda 

Kröfur verkafólks eru sanngjarnar og eðlilegar. Vonandi þarf ekki að grípa til aðgerða. Komi  hins vegar til einhverra aðgerða í kjarabaráttunni er ábyrgðin alfarið Samtaka atvinnulífsins. 

 Verkafólk krefst sanngjarnra kjara og ég er sannfærður um að þorri landsmanna er sammála.

 Það er nefnilega ekki verkafólk þessa lands sem ógnar stöðugleikanum.

 Magnús Már Jakobsson Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA