9. þing SGS sett - ræða formanns

Níunda þing Starfsgreinasambands Íslands var sett á Hótel Natura í Reykjavík í dag en á þingið í ár eru mættir 135 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum sambandsins til að leggja línurnar í kjaramálum og starfsemi sambandsins til næstu tveggja. Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, flutti ræðu við upphaf þingsetningar, en ræðu Vilhjálms má lesa í heild sinni hér að neðan.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra, forseti ASÍ, kæru þingfulltrúar og aðrir gestir. Velkomin á 9. þing Starfsgreinasambands Íslands.

Ég vil byrja þetta ávarp á því að nefna að breytingar hafa orðið á Starfsgreinasambandi Íslands frá því síðasta þing var haldið og er ég hér að vitna í þá ákvörðun Eflingar að segja sig úr SGS.

Vissulega er það dapurlegt þegar aðildarfélag telur hagsmunum sínum betur borgið eitt og sér heldur en innan heildarsamtaka eins og Starfsgreinasambandsins. En það ber ætíð að virða sjálfstæðan ákvörðunarrétt stéttarfélaganna og það gerum við að sjálfsögðu og óska ég félagsfólki Eflingar velfarnaðar í sinni baráttu.

En hefur þessi ákvörðun Eflingar slæm áhrif á framtíð SGS? Mitt svar við því er hvellskýrt: Nei, enda höfum við endurskipulagt okkur og SGS er fjárhagslega sem félagslega afar sterkt nú sem hingað til. 

Við skulum einnig muna að Efling hefur yfirleitt tekið ákvörðun um að vera með samningsumboð sitt hjá sér og því hefur þessi úrsögn Eflingar ekki áhrif hvað kjarasamningsgerð varðar.

Í dag eru 18 aðildarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands en þessi aðildarfélög eru staðsett hringinn í kringum landið og innan SGS eru í dag um 45 þúsund félagsmenn. Það er mikilvægt að halda því hátt á lofti að þrátt fyrir úrsögn Eflingar úr SGS þá er Starfsgreinasambandið ennþá stærsta einstaka landssambandið innan Alþýðusambands Íslands.

Ég vona innilega að við öll sem hér erum séum sammála um mikilvægi þess að efla og styrkja Starfsgreinasambandið enda mikilvægt að aðildarfélög SGS standi vörð um hina ýmsu hagsmuni er lúta að aðildarfélögum sambandsins.

Ábyrgð okkar í Starfsgreinasambandinu er að tryggja að hagsmunir landsbyggðarinnar gleymist ekki og verði ekki undir í allri umræðu á borði ASÍ. En því miður finnst mörgum að áhersla heildarsamtaka okkar einskorðist alltof mikið við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

SGS þarf að halda áherslum landsbyggðarinnar hátt á lofti og er af nægu að taka þar. Byrjum á heilbrigðisþjónustunni enda blasir við að aðgengi fjölmargra sem ekki búa í Reykjavík að heilbrigðisþjónustu er verulega ábótavant. Við vitum að á landsbyggðinni hefur verið dregið markvisst úr sérfræðiþjónustu og skurðstofum sem og fæðingardeildum hefur verið lokað. Einnig þekkja allir þeir sem þurfa langan veg að fara til að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur þann gríðarlega kostnað sem af því hlýst. Þennan aðstöðumun verða stjórnvöld að lagfæra.

Allir vita einnig hversu mikilvægar samgöngur eru fyrir hinar dreifðu byggðir en til að hægt sé að tryggja byggð hér á landi verða samgöngur að vera í lagi. Taka verður á flutningskostnaði þeirra sem búa á landsbyggðinni og munum að þúsundir þeirra sem búa úti á landi þurfa jafnvel að keyra tugi ef ekki hundruð kílómetra til að komast í lágvöruverslun.

Það blasir við að þegar verið er að bera saman framfærslukostnað þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar þá er ekki hægt að taka eina breytu út fyrir sviga heldur verður að skoða alla þætti. Þar má nefna kostnað vegna heilbrigðismála, samgangna, flutningskostnað, húshitunarkostnað og svona má lengi telja. Því til viðbótar bítur hátt vaxtastig og hátt leiguverð ekki einungis á þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Við skulum heldur ekki gleyma því að landsbyggðin skapar stóran hluta þeirra gjaldeyristekna sem til verða hér á landi og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna, stóriðjurnar, sjávarútveginn og laxeldi.

Að þessu sögðu sést hversu mikilvægt það er fyrir Starfsgreinasambandið að standa þétt saman í að verja stöðu aðildarfélaga sinna vítt og breytt um landið og tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar.

 

Kæru félagar

Ég held að við í verkalýðshreyfingunni megum vera duglegri við að upplýsa okkar félagsmenn um þá sigra sem við vinnum, á það jafnt við um þá stóru sem og þá smáu. Munum að öll þau réttindi sem íslenskt verkafólk telur í dag vera algerlega sjálfsögð, áunnust vegna þrotlausrar baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Réttindi eins og veikindaréttur, orlofsréttur, fæðingarorlof, uppsagnarfrestur, lágmarkshvíld, orlofs- og desemberuppbætur, Bjarg leigufélag og svona mætti lengi telja. Allt eru þetta réttindi sem hafa áunnist á liðnum árum og áratugum fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar.

Stéttarfélögin gegna líka mjög veigamiklu hlutverki við að verja réttindi sinna félagsmanna, enda er leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup, kjör og önnur réttindi.

Trúið mér, það eru aðilar í íslensku samfélagi sem vilja þrengja að og veikja verkalýðshreyfinguna og nægir að nefna nýlegt frumvarp nokkurra úr Sjálfstæðisflokknum hvað það varðar. Munum að verkalýðshreyfingin er ógn við hin ógnarsterku sérhagsmunaöfl sem víla ekki fyrir sér að ráðast á verkalýðshreyfinguna daginn út og inn og finna henni allt til foráttu.

Við skulum bara vera heiðarleg og viðurkenna að okkur innan SGS hefur tekist með samstöðu okkar að stíga þétt skref í að lagfæra kjör okkar félagsmanna á liðnum árum, þótt alltaf megi gera enn betur.  Nægir t.d.  að nefna að allar rannsóknir kjaratölfræðinefndar staðfesta t.d. að aðferðafræðin sem lagt var upp með í lífskjarasamningnum frá árinu 2019 skilaði verkafólki mestu kaupmáttaraukningu á íslenskum vinnumarkaði. Samningur sem byggðist á krónutöluhækkunum ásamt umtalsverði aðkomu stjórnvalda til að styðja við samninginn.

Við héldum áfram á þessari braut í fyrra þegar við í SGS leiddum kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði og undirrituðum nýjan samning 3. desember. Kjarasamning sem skilaði verkafólki á kauptöxtum launahækkun sem nam 11,28% í skammtímasamningi og krónutöluhækkun sem nam frá 35 þúsundum upp í allt að 70 þúsund á mánuði. Hækkanir sem við forystufólk höfum afar sjaldan kynnt fyrir verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði áður, en meðaltalshækkun á kauptöxtum verkafólks nam 43 þúsundum í þessum samningi. Þessu til viðbótar tókst okkur að lagfæra launatöfluna að hluta til og í komandi kjarasamningum þurfum við að halda áfram hvað það varðar.

Við innan SGS vorum og erum stolt af þeim kjarasamningi sem við undirrituðum 3. desember enda byggðist hann á krónutöluhækkunum og á því að koma launahækkunum strax til okkar félagsmanna þ.e.a.s. að nýr kjarasamningur tæki strax við af þeim eldri. Það tókst en það gerist ekki oft enda hefur launafólk oft tapað afturvirkni sem nemur stundum nokkrum mánuðum.

 

Kæru félagar

Nú eru einungis 3 mánuðir þar til kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði rennur út og ljóst að okkar bíður ærið verkefni við að ganga frá kjarasamningi.

Eitt er víst að það er nánast útilokað að ganga frá langtímakjarasamningi án verulegrar aðkomu stjórnvalda og sveitarfélaga eins og gert var í Lífskjarasamningnum árið 2019.

Það er mitt mat að við þurfum að halda áfram að leggja ofuráherslu á að samið verði í komandi kjarasamningum með krónutöluhækkunum eins og gert var í síðasta samningi. Enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Við vitum öll að prósentuhækkanir eru blekking og nægir í því samhengi að nefna að forstjóri sem er með 3 milljónir á mánuði fær 180 þúsund króna hækkun á launum sínum miðað við 6% launahækkun á meðan verkamaður með á lágmarkstaxta fær 24 þúsund. Bæði verkamaðurinn og forstjórinn áttu að hafa fengið sömu launahækkun þrátt fyrir að forstjórinn fengi 156 þúsund fleiri krónur en verkamaðurinn. 

Á þessu sést sú blekking sem á sér stað þegar samið er með prósentum og munum að ekkert okkar fer með prósentur út í búð. Við greiðum allt með krónum ekki prósentum!

Það er ljóst að við verðum að fá stjórnvöld myndarlega að borðinu í komandi kjarasamningum en í kjarasamningunum 2019 var aðgerðapakki stjórnvalda metinn á 80 milljarða. Í komandi kjarasamningum verðum við að vera með skýlausa kröfu á stjórnvöld um að létta enn frekar á skattbyrði lágtekjufólks og koma þarf mun betur til móts við tekjulágar fjölskyldur í formi hærri barnabóta, húsaleigubóta og vaxtabóta. Það þarf einnig að tryggja að persónuafslátturinn fylgi ætíð hækkun launavísitölunnar.

Það er jafnframt morgunljóst að það þarf þjóðarátak í húsnæðismálum enda eru fasteignamarkaðurinn og leigumarkaðurinn eins og vígvöllur um þessar mundir.

Munum að oftar en ekki er það lágtekjufólk sem er fast á leigumarkaði og þarf að greiða þetta 250 til 350 þúsund á mánuði í leigu. Það sér hvert mannsbarn að þessi staða getur alls ekki gengið upp.

 

Kæru félagar

Það er ömurlegt að sjá hvernig fjármálakerfið mergsýgur neytendur, heimili og sérstaklega þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Nú standa heimilin enn og aftur frammi fyrir því að vextir hafa rokið upp með skelfilegum afleiðingum fyrir þau þar sem vaxtabyrði hefur stökkbreyst hjá þeim sem eru t.d. með óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum. Munum líka að tugþúsundir heimila eru með svokallaða fasta vexti sem munu koma til endurskoðunar á næstu 12 til 24 mánuðum og þá mun vaxtabyrði þeirra heimila hækka um tugi ef ekki hundruð þúsunda á mánuði. 

Það er ekki bara að heimilin búi við okur húsnæðisvexti sem ekki eru í nokkru samræmi við þau kjör sem neytendum á Norðurlöndunum bjóðast. Heldur er ráðist með skefjalausum hætti á lágtekjufólk sem ekki nær endum saman frá mánuði til mánaðar. Lágtekjufólk sem er jafnvel nauðbeygt til að framfleyta sér á yfirdráttarlánum og smálánum og takið eftir kæru félagar 35% félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands eru með yfirdráttarlán og 10% með smálán skv. Vörðu sem er rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins.

Það þarf að ráðast í kerfisbreytingar á fjármálakerfinu enda fjármagnskostnaður heimilanna og launafólks einn af stærstu útgjaldaliðum hverrar fjölskyldu. Við verðum að tryggja að vaxtastig hér á landi verði stöðugt og að íslenskum neytendum standi til boða húsnæðiskjör eins og þekkjast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Hugsið ykkur að heimilum í Færeyjum stendur til boða óverðtryggð húsnæðislán á 4,8% föstum vöxtum til 30 ára í dag en hér á landi eru vextir í kringum 11%.

Við þurfum líka að fá það fram af hverju neytendur og heimili hér á landi búa við okurvexti og verðtryggingu sem ekki þekkist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.  Er orsökin íslenska krónan eins margir halda fram? Þetta er spurning sem ég held að þurfi að varpa fram og því er mikilvægt að fá erlenda, virta og óháða aðila til að skoða kosti og galla íslensku krónunnar og kanna möguleika okkar á að taka upp annan gjaldmiðil og að þar verði allt undir. Þeir sem eru best til þess fallnir að kalla eftir slíkri úttekt eru Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin, í því væri fólginn slagkraftur og trúverðugleiki. 

Það þarf líka að endurskoða útreikning á neysluvísitölunni sem lýtur að svokallaðri reiknaðri húsaleigu en það er sá þáttur í vísitölunni sem hefur keyrt verðbólguna hér á landi hvað mest upp. Uppundir 40% af verðbólgunni síðustu 15 ár orsakast af húsnæðisliðnum. Þau lönd sem við berum okkur saman við eru ekki að reikna húsnæðisliðinn eins og við gerum og því nauðsynlegt endurskoða reiknuðu húsaleiguna í vísitölunni.  

Að þessu sögðu sést svo ekki verður um villst að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum mun ráða úrslitum um hvort hér verði hægt að ganga frá kjarasamningum án átaka eða ekki. Það skiptir litlu máli fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni að semja hér um 20, 30, 40, 50 eða 60 þúsund króna launahækkun á mánuði ef allt annað hækkar um miklu meira en það sem við erum að semja um. Því þarf að ráðast í róttækar kerfisbreytingar, kerfisbreytingar sem lúta að því að stjórnvöld hætti þessu dekri við fjármálaöflin og þá sem eiga fjármagnið hér á landi og standi vörð um alþýðu þessa lands.

Já, dekri við viðskiptabankana þrjá sem hafa ár eftir ár skilað uppundir 100 milljörðum í hagnað, hagnað sem byggist á okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum. Já, tölum um þjónustugjöld bankanna en Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri Indó, benti á fundi í september á svokölluð bullgjöld bankanna. Bullgjöld sem lögð eru á neytendur og nema 10 milljörðum á ári og það kom fram í máli hans að Indó leggur ekki þessi gjöld á sína viðskiptavini.  Ástæðan er jú sú að það er enginn kostnaður sem kemur á bankakerfið vegna þessara gjalda. Því kallar hann þetta eðlilega bullgjöld.

Hvernig má það vera að stjórnvöld og Alþingi Íslendinga horfi aðgerðarlaus á það ofbeldi sem skuldsett heimili og lágtekjufólk þurfa að þola af hálfu fjármálakerfisins og ég ítreka að 35% okkar félagsmanna SGS skv. áðurnefndri könnun eru með 17% yfirdráttarvexti.

Já, ég sagði áðan að dekri við viðskiptabankana þrjá verði að linna og það gerum við til dæmis með því að gera skýlausa kröfu á stjórnvöld um að Landsbanki Íslands verði gerður að samfélagsbanka og arðsemismarkið bankans verði lækkað.

 

Ágætu félagar

Það er eins og áður sagði mitt mat að við þurfum að halda áfram að stíga þétt skref í að lagfæra kjör verkafólks og þau skref þurfa svo sannarlega að verða fleiri og kröftugri á næstu misserum. En eitt er víst, að launahækkanir einar og sér munu svo sannarlega ekki duga til og því er aðkoma stjórnvalda ekki bara nauðsynleg heldur bráðnauðsynleg eins og ítrekað hefur komið fram í þessu ávarpi. Munum að það er svo sannarlega hægt að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með fleiri þáttum en bara launahækkunum enda sýndi og sannaði Lífskjarasamningurinn árið 2019 það. Sá samningur stuðlaði að lægri verðbólgu og lækkandi vöxtum og það eru þessir þættir sem leika lágtekjufólk ætíð hvað verst. Því er það skylda okkar að stuðla að kjarasamningi þar sem við aukum ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með fleiri þáttum en bara beinum launahækkunum.

Það er  lýðheilsumál að laun verkafólks dugi frá mánuði til mánaðar og að lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn á launum sínum. Munum kæru félagar að það eru tíu þúsund börn á Íslandi sem búa við fátækt og það eru hvorki til stefna né áætlun á Íslandi um að uppræta fátækt en þetta kemur fram í skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla. Að hugsa sér að í einu ríkasta landi í heiminum skuli 13,1% barna búa við fátækt. Hér er verk að vinna kæru félagar.

 

Að lokum þetta:

Starfsgreinasamband Íslands er traust og ábyrgðarfullt landssamband sem hefur á liðnum árum verið leiðandi afl og þátttakandi í kjarasamningsgerð á íslenskum vinnumarkaði. Við munum verða það áfram enda skiptir samstaða okkar núna enn meira máli en nokkurn tímann áður. Við verðum að vera föst fyrir í hagsmunabaráttunni fyrir okkar félagsfólk og vera tilbúin að sýna afl okkar ef viðsemjendurnir eru ekki tilbúnir að hlusta á réttlátar kröfur okkar. Kröfur sem byggjast á því að verkafólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.  

Við erum eins og áður hefur komið fram stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands og ég veit að horft er á SGS sem leiðandi afl í komandi kjarasamningum. En munum líka að baráttunni fyrir bættum kjörum launafólks lýkur ekki í komandi kjarasamningum, né kjarasamningum framtíðarinnar enda er kjarabarátta verkafólks eilífðarverkefni.

Að þessu sögðu segi ég 9. þing Starfsgreinasambands Íslands sett.

Setningarræða Vilhjálms Birgissonar á 9. þingi SGS (PDF)

  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA