Að hlusta á sérfræðinga

Á Viðskiptaþingi fyrir nokkrum dögum hélt formaður Viðskiptaráðs, Katrín Olga Jóhannesdóttir, ræðu þar sem hún vék nokkrum orðum að verkalýðshreyfingunni og málflutningi hennar.Hún tók hreyfinguna sem sérstakt dæmi um gamaldags fyrirbæri ,,og varnaðarorð sérfræðinga eru hunsuð“ svo vitnað sé beint í ræðu hennar. Að engu er getið hvaða sérfræðingar þetta eru, hvort það séu þeir sömu og hafa undanfarna 2 áratugi eða svo ráðlagt okkur í samfélaginu ýmislegt með vægast sagt misjöfnum árangri. Ekki örlar á þeirri hugsun að meðlimir Viðskiptaráðs hefðu gott af því að heyra beint frá vinnandi fólki hvernig það er að reyna að ná endum saman. Að hópurinn sem samankomin var á Hótel Hilton Nordica hefði gott af því að fræðast af öðrum en ,,sínum sérfræðingum“ og hlusta frekar á einhvern annan en bara hvert annað. Kannski telur Katrín Olga þær upplýsingar og greiningar á þróun skattbyrðinnar, húsnæðisokri og brotum á vinnumarkaði, sem verkalýðshreyfingin hefur lagt fram, vera ,,jaðardæmi sem eru notuð til að lýsa hinni almennu þróun og staðreyndir látnar víkja fyrir tilfinningum“. Samtal um kjaramál eru mikilvæg og þurfa að fara fram á vönduðum grunni. Það fellst ekki í því að senda verkafólki og samtökum þeirra tóninn úr fundarsal á hóteli,  og segja að það sé að láta tilfinningar hlaupa með sig, sé að tala um jaðardæmi og að þau séu föst í gömlum tíðaranda. Enda hafi fólk það að meðaltali gott, það er nefnilega það sem sérfræðingarnir segja.
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA