"Afstaða vinnuveitenda er dapurleg og ábyrgðin er alfarið þeirra"

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Húnahorninu í gær. Í umfjölluninni segir Ásgerður Pálsdóttir, formaður Samstöðu, m.a. að afstaða vinnuveitenda sé dapurleg og ábyrgðin er alfarið þeirra. Þá leggur Ásgerður mikla áherslu á að félagsfólk standi þétt saman og taki þátt í atkvæðagreiðslunni sem framundan er.
...
Starfsgreinasambandið sem fer með samningsumboð fyrir sextán aðildarfélög, meðal annars Stéttarfélagið Samstöðu ætlar að hefja undirbúning verkfallsaðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar eftir árangurslausan fund með Samtölum atvinnulífsins í gær.
„Við komum að lokuðum dyrum á samningafundi í gær, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins sögðu að ekki væri vilji til að ræða frekar okkar kröfur og því var ákveðið að slíta viðræðum,“ segir Ásgerður Pálsdóttir formaður Stéttarfélagsins Samstöðu í Húnavatnssýslum í tilkynningu. „Vinnuveitendur segja að þjóðfélagið fari á hliðina, verði orðið við okkar kröfum. Það sjá allir að að krafan um að hækka lægstu launin upp í 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára er sanngjörn, vinnuveitendur virðast hins vegar ekki vera til viðræðu um annað en að hækka launin um örfá prósent. Þegar samið var við aðra hópa á síðasta ári um verulegar hækkanir heyrðist ekkert í vinnuveitendum, en þegar almennt verkafólk á í hlut gegnir hins vegar öðru máli. Hópurinn innan Starfsgreinasambandsins er álíka stór og kennarar og læknar, þannig að allt tal um óðaverðbólgu hljómar einkennilega í mínum eyrum. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum.“ Atkvæðagreiðsla fyrir páska Starfsgreinasambandið fer með samningsumboð fyrir sextán aðaildarfélög, meðal annars Stéttarfélagið Samstöðu. Ásgerður segir sambandið nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar. „Atkvæðagreiðslan fer fram fyrir páska, en á þessari stundu er ekki hægt að greina nákvæmlega frá fyrirhuguðum aðgerðum. Það er auðvitað algjört lykilatriði að félagsfólk standi þétt saman og taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Hérna fyrir norðan var kröfugerðin vel undirbúin, margir félagsfundir voru haldnir, auk vinnustaðafunda. Afstaða vinnuveitenda er dapurleg og ábyrgðin er alfarið þeirra. Okkar krafa er skýr og sanngjörn, þess vegna er mikilvægt að fólk sýni samstöðu á komandi vikum. Hræðsluáróður vinnuveitenda kemur ekkert á óvart. Samstaðan er okkar beittasta vopn,“ segir Ásgerður Pálsdóttir. Heimild: Húnahornið
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA