Anna tekur við formennsku af Birni í Einingu-Iðju

Aðalfundur Einingar-Iðju fór fram 24. apríl síðastliðinn en á fundinum tók ný forysta við stjórnartaumunum í félaginu. Björn Snæbjörnsson lét af formennsku eftir að hafa gegnt formennsku í félaginu 31 ár, en í heildina hefur Björn starfað í yfir 40 ár fyrir félagið. Anna Júlíusdóttir var kjörinn nýr formaður félagsins, en hún hefur verið varaformaður Einingar-Iðju frá árinu 2012.

Anna var sjálfkjörin í embættið þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Jafnframt var sjálfkjörið stjórn og trúnaðarráð félagsins. Þá var tilkynnt að Tryggvi Jóhannsson, formaður Matvæla- og þjónustudeildar, verði starfandi varaformaður út starfsárið en hann mun hefja störf á skrifstofu félagsins þann 15. maí næstkomandi.

Við þessi merku tímamót í félaginu ávarpaði fráfarandi formaður fundinn þar sem hann fór yfir tíma sinn hjá félaginu og verkalýðshreyfingunni og stappaði stálinu í nýja forystu. Ræðu Björns í heild sinni má lesa hér.

Í lok fundar tók nýkjörinn formaður við orðinu. 

„Kæru félagar, nú er komið að lokum þessa fundar og langar mig að segja nokkur orð. Að taka við sem formaður í stærsta stéttarfélagi á landsbygginni er stórt verkefni og mikil áskorun. Því vil þakka ykkur traustið.

Þið félagsmenn eruð félagið, ekki formaðurinn og því er mikilvægt að þið séuð í samskiptum við félagið, takið þátt og mætið á fundi. Mín helsta von er að verkalýðshreyfingin sameinist um að standa saman, en með því náum við bestum árangri.

Ég vil þakka frábærri stjórn, starfsfólki og trúnaðarmönnum fyrir mikilvæg störf, síðast en ekki síst vil ég þakka mentornum mínum honum Birni Snæbjörnsyni fyrir farsælt samstarf sem mun halda áfram fram á haust, en ég er afar heppin með það. Einnig vil ég bjóða Tryggva Jóhannsson velkominn til starfa sem varaformaður félagsins."

Starfsgreinasambandið býður Önnu velkomna í formannahóp sambandsins og hlakkar til samstarfsins og þakkar um leið Birni fyrir farsælt samstarf og ánægjuleg samskipti í gegnum árin.

Nýr formaður og varaformaður á fundinum á mánudaginn.

  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag