Dagvinnulaun verkafólks á Íslandi nærri þriðjungi lægri

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, ritar grein í nýjasta tölublað Vikudags, en greinina má lesa hér að neðan. ... Á hátíðarstundum tölum við gjarnan um velferðarríkið Ísland. Lífsgæðin sem við búum við í dag eru langt í frá sjálfsagður hlutur, þess vegna þurfum við reglulega að staldra við og taka stöðuna. Nú þegar kjaraviðræður eru framundan er einmitt heppilegur tími til að huga að þessum málum. Í velferðarríki hlýtur fólk að vera sammála um mikilvægi þess að almennt launafólk geti lifað sómasamlegu lífi af launum sínum, án óhóflegar yfirvinnu, til að framfleyta sér og sínum. Við skulum skoða laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin, löndin sem við svo oft berum okkur saman við. Í nýrri skýrslu kemur fram að dagvinnulaun  stjórnenda á Íslandi eru 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Dagvinnulaun sérfræðinga eru 3-5% lægri hér á landi en í hinum löndunum. Munurinn er hins vegar sláandi þegar verkafólk og þjónustu,- sölu,- og afgreiðslufólk er skoðað.  Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Er þetta velferðarríkið Ísland? Svari hver fyrir sig. Lýst eftir norðlenskum atvinnurekendum Starfsgreinasamband Íslands hefur nú kynnt atvinnurekendum kröfur verkafólks. Sambandið fer fram á að miða krónutöluhækkanir við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára . Einnig að launatöflur verði endurskoðaðar þannig að starfsreynsla og menntun verði metin til launa, vaktaálag verði endurskoðað, desember- og orlofsuppbætur hækki, lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu og ný starfsheiti skilgreind í launatöflu. Skemmst er frá því að segja að Samtök atvinnulífsins sjá engan grundvöll til viðræðna, telja kröfurnar óraunhæfar og „setji þjóðfélagið á hliðina enn eina ferðina.“ Starfsgreinasambandið hefur því vísað sanngjörnum kröfum sínum til ríkissáttasemjara. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur farið mikinn í fjölmiðlum, en lítið ber hins vegar á framkvæmdastjórum og forstjórum fyrirtækja. Ég skora á stjórnendur norðlenskra fyrirtækja að stíga fram og tjá sig um réttmætar kröfur Starfsgreinasambandsins. Verkfallsstjórn skipuð Eining-Iðja stóð vel að sinni kröfugerð, sem send var Starfsgreinasambandinu. Eining-Iðja efndi í byrjun ársins til sex funda á félagssvæði sínu, þar sem kastljósinu var sérstaklega beint að kjaramálum. Í kjölfarið var svo haldinn fjölmennur fundur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þar voru saman komnir félagsmenn sem sitja í samninganefnd félagsins og trúnaðarráði, auk þeirra trúnaðarmanna sem ekki sitja í þessum nefndum. Áður hafði Capacent gert viðamikla könnun meðal félagsmanna um kjaramál og fleira. Þannig gafst öllum félagsmönnum kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif. Miðað við harkaleg viðbrögð vinnuveitenda er hugsanlegt að grípa þurfi til aðgerða, gangi hvorki né reki í kjaraviðræðunum. Því hefur Eining-Iðja skipað verkfallsstjórn sem ætlað er það hlutverk að koma með tillögur um aðgerðir. Meirihluti félagsfólks í Einingu-Iðju styður hugsanlegar verkfallsaðgerðir, samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir félagið. Samstaða mikilvæg Kröfur Starfsgreinasambandsins eru sanngjarnar og setja þjóðfélagið ekki á hausinn. Þurfi að grípa til aðgerða er ábyrgðin vinnuveitenda. Grundvallaratriði er að fólk í velferðarríkinu Íslandi geti lifað af dagvinnulaunum.   Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA