Danir ganga að samningaborðinu

Danir undirbúa sig nú undir samningalotu sem mun standa yfir í febrúar. Kjarasamningar renna út 1. mars og stefnt er að því að klára nýja samninga fyrir þann tíma. Grasrótin leggur fram kröfugerð en líkt og í Noregi og Svíþjóð þá semja iðnaðargreinarnar fyrst og síðan semja aðrar starfsgreinar á grundvelli þeirra samninga. Alls eru um 600 kjarasamningar lausir í vor. Ekki er heimilt að semja umfram þann ramma sem iðnaðurinn setur. Þetta er meðal þess sem kom fram í heimsókn SGS til Danmerkur í janúar þar sem haldinn var fundur með systursamtökum SGS 3F. Líkt og í Noregi þá er samið um ákveðna grunnhækkun í miðlægum kjarasamningum og eitthvert svigrúm er skilið eftir fyrir vinnustaðasamninga. Það fer svo eftir styrk og trúnaðarmannkerfi á hverjum vinnustað hvernig gengur að nýta svigrúmið en innan hótel- og veitingageirans er trúnaðarmannakerfið veikt og því eru þau illa í stakk búin til að gera vinnustaðasamninga. Sterkari starfsstéttir eru betur settar til að ná í allar þær hækkanir sem svigrúmið gefur. Þegar samningar liggja fyrir fara þeir í allsherjaratkvæðagreiðslu innan allra félaga LO (Danska ASÍ). Ef einhverjar stéttir ná ekki samningum þá semja heildarsamtökin fyrir þær stéttir. Ef samningunum er hafnað þá brestur á allsherjarverkfall. Það gerðist síðast árið 1998 og verkfallið stóð í 14 daga en þá greip löggjafinn inní og setti lög gegn verkfallinu og deilan fór í gerðardóm. Ákveðin skilyrði eru fyrir þátttöku í atkvæðagreiðslu eftir kjarasamninga og einhverjar stéttir eru ekki með í stóru samningunum. Dæmi um slíka stétt er starfsfólk á ferjum en ef slíkar stéttir lenda í átökum eru víðtækar heimildir fyrir samúðarverkföllum. Hin mikla miðstýring kjarasamninga hefur bæði kosti og galla. Sterkari greinar geta ekki samið umfram viðmiðið og veikari greinar geta ekki náð öllu svigrúminu í vinnustaðasamningum. Aftur á móti eru veikari greinarnar (eins og ferðaþjónustan) ekki með afl til að standa í kjarasamningagerð og átökum einar og sér. Samkvæmt John Fredriksen, samningarmanni hjá 3F í Danmörku eru áskoranir dönsku verkalýðshreyfingarinnar þær sömu og víðast hvar á Norðurlöndunum, þ.e. dræm þátttaka í stéttarfélögum og félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Auk þess eru svokölluð Gul félög algeng í Danmörku en það eru stéttarfélög sem bjóða lægri félagsgjöld en einnig minni þjónustu. Þau einblína á einstaklingsþjónustu en ekki þá samtryggingu og samábyrgð sem hin hefðbundnu stéttarfélög snúast um. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum Þær kjaraviðræður sem nú standa yfir í Danmörku eru mjög miðstýrðar og leynd hvílir yfir þeim þangað til viðmiðið hefur verið sett og aðrir koma í kjölfarið. Nokkrar kröfur hafa þó verið settar á oddinn sameiginlega og eru margar Íslendingum að góðu kunnar:
  1. Öryggi alla starfsævina. Að starfsfólk sé menntað til að takast á við tæknibyltinguna en missi ekki störf vegna hennar.
  2. Frá hlutastarfi til fulls starfs. Rétturinn til að vinna fullt starf og geta þar með séð fyrir sér er mikilvægur en hlutastörf hafa aukist mjög, ekki síst í ferðaþjónustunni. Í Danmörku er hægt að vera atvinnulaus að hluta og þetta hafa atvinnurekendur nýtt sér.
  3. Að styrkja meðal annars stöðu öryggistrúnaðarmanna á vinnustöðum.
  4. Barátta gegn félagslegum undirboðum. Þar sem ekki eru nein lágmarkslaun í Danmörku og kjarasamningar eru ekki algildir að þá er töluvert um félagsleg undirboð gagnvart erlendu starfsfólki. Þetta á ekki síst við í þjónustugreinunum. Vandinn er ekki sá að mikið er um erlent vinnuafl heldur er vandinn sá að erlendir starfsmenn þurfa að sætta sig við lægri laun en Danskir.
  5. Keðjuábyrgð. Umræðan og baráttan fyrir keðjuábyrgð hefur lengi verið á dagskrá. Byggingargeirinn og flutningagreinarnar munu leggja sérstaka áherslu á þetta atriði.
  6. Tryggja að starfsfólk sem hefur starfað lengst hafi forgang í störfum. Þá er umræða um að fólk sem vinnur erfiðisvinnu fái að fara fyrr á eftirlaun en eftirlaunaaldur mun hækka í Danmörku á næstunni eins og víðast hvar annars staðar.
  7. Aðrar kröfur: Hærri laun, jafnara fæðingarorlof á milli kvenna og karla, hærri lífeyrir, betri endurmenntun, raunhæf verkfæri gegn félagslegum undirboðum og bætt vinnuumhverfi.
Hækkun lífeyrisaldurs er mikið í umræðunni í Danmörku eins og víðast hvar annars staðar og veita stéttarfélögin viðspyrnu í þeim málum. Þá er tekist á um það innan hreyfingarinnar hvernig eigi að nálgast ákvæði um keðjuábyrgð, hvort eigi að skrifa slíkt inn í lög eða semja um það í kjarasamningum. Rétt er að benda á að samningsramminn á Danmörku er mun stífari og agaðri en í Noregi. Til dæmis grípa samtök atvinnurekenda strax inn í ef einhver ætlar út fyrir rammann og stoppa slíka samninga strax af. Líkt og á Íslandi er stöðug umræða um hvernig eigi að semja þ.e. hvort eigi að miða við krónutöluhækkanir eða prósentur. Afstaða 3F er skýr; þeir vilji semja í krónum. Það verður áhugavert að fylgjast með framvindunni.
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA