Fullkominn þvergirðingsháttur í atvinnurekendum

Eftirfarandi umfjöllun birtist vefsíðunni bb.is í gær, en í henni segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, m.a. að nauðsynlegt sé að spyrja félagsmenn hvort þeir sætti sig við svör atvinnurekenda eða hvort þeir vilji berjast fyrir bættum kjörum með verkfallsaðgerðum.
Samningaviðræður Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins runnu út í sandinn í gær. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir það undir félagsmönnum stéttarfélaganna komið hver næstu skref verða. „Við höfum setið við samningaborðið frá því í október, fyrst með sérmálin og í janúar komum við fram með launakröfur okkar félagsmanna og mættum strax harðri andstöðu. Launakrafan er frá okkar félagsmönnum komin, þær voru mótaðar og kynntar inni í félögunum og það eru félagsmennirnir sem senda samninganefndina með kröfuna í samningaviðræðurnar,“ segir Finnbogi. „Frá því í janúar höfum við staðið frammi fyrir því sem ég kalla fullkominn þvergirðingahátt í atvinnurekendum og þá er ekkert annað að gera en að slíta viðræðum og spyrja okkar félagsmenn hvort þeir sætti sig við svör atvinnurekenda eða hvort þeir vilji berjast fyrir bættum kjörum með verkfallsaðgerðum“ segir Finnbogi. Trúnaðarráð VerkVest kemur saman á mánudag og Finnbogi býst við að gögn um atkvæðagreiðslu vegna verkfallsaðgerða verði send út undir lok næstu viku. 7-800 félagsmenn VerkVest fara í verkfall verði það niðurstaðan. Verkföll gætu hafist fljótlega eftir páska. „Það hafa engar lausnir komið frá viðsemjandanum og það er alveg ótrúlegt að horfa upp á þetta á sama tíma og til dæmis sjávarútvegsfyrirtækin eru að skila góðum hagnaði, að það sé ekki hægt að hífa upp laun fiskverkafólks,“ segir Finnbogi.   Heimild: bb.is
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA