Gleðilegt ár!

Starfsgreinasamband Íslands óskar öllum landsmönnum gleðilegs árs og þakkar fyrir stuðninginn og samstarfið á síðasta ári. Árið 2015 var ár átaka á vinnumarkaði og Starfsgreinasambandið fór fyrir skýrri kröfu um að hækka lágmarkslaun þannig að þau næðu 300 þúsund krónum innan þriggja ára. Mörgum fannst krafan hógvær en engu að síður þurfti umfangsmestu átök síðari tíma til að ná þessu markmiði. Með samvinnu, samstöðu og stuðningi þjóðarinnar tókst það í samningum sem voru undirritaðir á vordögum. Þá var einnig samið sérstaklega um hækkanir til handa fólks í fiskvinnslu sem var sett á oddinn í kröfum Starfsgreinasambandsins ásamt hækkun lægstu launa. Verkafólk á Íslandi semur þó ekki í tómarúmi og ákvarðanir sem eru teknar utan okkar samningssviðs hafa áhrif á okkar samninga. Þannig sló gerðardómur nýjan tón í kauphækkunum síðastliðið sumar sem hafði áhrif á samningsforsendur á hinum almenna vinnumarkaði. Í upphafi þessa árs kemur í ljós hvernig áhrifin munu birtast þegar nær dregur endurskoðun samninga á almenna markaðnum. Árið 2015 var ekki bara einkennandi fyrir átök og kjarasamninga heldur ekki síst fyrir gríðarlega þátttöku félagsmanna í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Félagsmenn tóku þannig þátt í að undirbúa kröfugerðir, tóku þátt í atkvæðagreiðslum um verkföll og að lokum atkvæðagreiðslum um kjarasamningana sjálfa. Á öllum þessum stigum var umboðið mjög afgerandi og þess gætt að félagsmenn hefðu sitt að segja. Þessi framvinda styrkti verkalýðshreyfinguna sem tæki launafólks til að ná fram markmiðum sínum og að því munum við búa næstu árin, hvort sem horft er til fræðslumála, kjaramála eða annarra þeirra verkefna sem eru á sviði verkalýðshreyfingarinnar. Megi nýtt ár færa okkur áfram samstöðu og kraft!
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag