Góðir gestir frá Norrænum samtökum starfsfólks í byggingariðnaði

Síðustu daga hafa formaður og framkvæmdastjóri Norrænu samtaka starfsfólks í byggingariðnaði (NBTF) heimsótt Ísland en SGS er aðili að þeim samtökum ásamt Samiðn og Rafiðnaðarsambandinu. Þeir Johan Lindholm og Per Skau hafa kynnt sér verkalýðsmál hér á landi, skipst á upplýsingum um kjarasamningsviðræður við aðildarfélögin, rætt lagasetningu og sameiginleg norræn hagsmunamál launafólks. Svíar eru nýbúnir að gera kjarasamninga og var samið til þriggja ára um að meðaltali 6,8% launahækkun auk þess sem lægstu laun hækkuðu umfram það og fæðingarorlofsgreiðslur sömuleiðis. Flestar stéttir eru búnar að semja en starfsfólk flutningafyrirtækja eru eftir og hafa boðað verkföll. Það sem byggingargeirinn í Svíþjóð lagði sérstaka áherslu á var að innleiða keðjuábyrgð verktakafyrirtækja, þannig að það væri tryggt að starfsfólk innan byggingafyrirtækja fengju laun samkvæmt kjarasamningum og stærri fyrirtæki gætu ekki skýlt sér á bak við undirverktakafyrirtæki við kjarasamningsbrot. Norræn samtök hafa lagt áherslu á að ganga lengra en tilskipun frá Evrópusambandinu gerir ráð fyrir í þessum efnum en niðurstaðan að þessu sinni var að setja upp eins konar dómstól til að skera úr um málið og á hann að skila af sér í febrúar. Þessi niðurstaða fékkst eftir að starfsfólk í byggingariðnaðinum hótaði verkföllum. Keðjuábyrgð hefur einnig verið til umfjöllunar í Noregi en þeir leystu málið með lagasetningu þar sem sameiginleg ábyrgð allra verktakafyrirtækja í einstaka verkefni  er tryggð þannig að launamaðurinn getur gengið að hvaða fyrirtæki sem er í keðjunni til að fá úrlausn sinna mála ef um kjarasamningsbrot er að ræða. Þetta hefur orðið til þess að fækka samningum við undirverktakafyrirtæki og þess í stað ráða yfirverktakar starfsfólkið beint og þar með er starfsfólk betur tryggt. Norrænu verkalýðsfélögin eiga ýmislegt sameiginlegt og geta nýtt reynslu og þekkingu sín á milli, ekki síst hvað varðar viðbrögð við tilskipunum frá Evrópusambandinu og að mynda þrýstihóp til að hafa áhrif á ákvarðanir á þeim vettvangi.  Starfsgreinasambandið þakkar þeim Johan og Per fyrir komuna og væntir áframhaldandi góðs samstarfs. Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Sigurð Bessason formann Eflingar, Drífu Snædal framkvæmdastjóra SGS, Johan Lindholm formann NBTF og Per Skau framkvæmdastjóra NBTF
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA