Hvatningarorð streyma inn!

Eftir að Starfsgreinasambandið var knúið til að slíta viðræðum við SA síðastliðinn þriðjudag hafa baráttu- og hvatningarorð streymt um netheima og símalínur. Ljóst er að fólki misbýður framganga viðsemjenda gagnvart almennu launafólki og það er ekki bara forysta SGS sem er tilbúin til að láta sverfa til stáls – almennt verkafólk er tilbúið í slaginn! Í þessari viku verður kynnt skipulag aðgerða og kosning um verkfall. Starfsgreinasambandið og aðildarfélög um allt land hefja kynningu meðal sinna félagsmanna með hvatningu um þátttöku í kosningunum. Núna er valdið hjá hinum almenna félagsmanni. Kröfurnar okkar voru mótaðar af launafólki um allt land og nú ríður á að félagar séu tilbúnir til að fylgja henni eftir. Það er viðbúið að Samtök atvinnulífsins láti dynja á okkur áróður um efnahagshrun ef almennt verkafólk færi sömu krónutöluhækkanir og aðrar stéttir hafa fengið undanfarið. Við skulum þá hafa í huga að það sem SA hefur boðið almennu verkafólki við samningaborðið er hækkun grunnlauna uppá 6.000 – 9.500 þúsund krónur. Þetta er boðið sem stendur á meðan aðrar stéttir í landinu hafa samið um launahækkanir uppá tugi þúsunda, og jafnvel hundruði þúsunda króna á mánuði. Þegar svo kemur að almennu verkafólki, sem vel að merkja er á lægstu töxtunum, þá fer allt í einu allt til fjandans ef hækkanirnar slefa rétt umfram verðbólgu. Við hlustum ekki á svona málflutning og ef við þurfum að fara í verkfall til að á okkar kröfur sé hlusta þá gerum við það!
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag