Kjaramálaráðstefna AFLs Starfsgreinafélags ályktar

AFL Starfsgreinafélag stóð fyrir kjaramálaráðstefnu laugardaginn 4. október sl. þar sem eftirfarandi ályktanir voru samþykktar: Ályktun um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar; Linnulaus flutningur fjármagns úr samneyslu til þeirra tekjuhærri Kjaramálaráðstefna AFLs Starfsgreinafélags lýsir áhyggjum af þeim breytingum á skattkerfi sem fram koma í fjárlagafrumvarpi.  Félagar AFLs telja boðaða mótvægisaðgerð léttvæga með tilliti til hækkuna á matarverði.  Félagið bendir á að skattabreytingar síðustu tveggja ára og það fjárlagafrumvarp sem nú hefur verið lagt fram – varða leið til enn frekari misskiptingar í samfélaginu. AFL Starfsgreinafélag hefur þungar áhyggjur af því hvernig stjórnvöld flytja linnulaust fjármuni úr samneyslunni til tekjuhæstu heimila landsins. Félagið fordæmir harðlega svik ríkisvaldsins varðandi samning um Virk Endurhæfingarsjóð og lýsir yfir vonbrigðum með lækkun framlaga til vinnumarkaðsaðgerða, styttingu atvinnuleysisbóta og fleiri velferðarliða. AFL hvetur stjórnvöld til að líta á stöðu þeirra verst settu á vinnumarkaði heilstætt og styrkja stöðu þeirra með vinnumarkaðsaðgerðum, aðgengi að námi og möguleika á endurhæfingu. Eins og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar lítur út núna – er hópur þegna landsins settur til hliðar og ekkert sinnt um hagsmuni þeirra. Sama sjónarmiðs gætir í aukinni kostnaðarþátttöku sjúklinga bæði í komugjöldum og lyfjakostnaði. Félagið vekur athygli á að nú þegar sækir allt að 6% tekjulægsta fólksins sér ekki læknisaðstoðar vegna kostnaðar og stefnir í að það hlutfall aukist enn. Félagið fordæmir harðlega að verkafólk landsins eigi að axla örorkubyrði landsmanna allra með því að framlagi til jöfnunar lífeyrisréttinda er skorið niður en með því er örorkubyrðin að mestu leyti lögð á fáa lífeyrissjóði verkafólks á meðan t.d. lífeyrir opinberra starfsmanna er ríkistryggður og skerðist ekki. AFL Starfsgreinafélag fordæmir aukinn niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu sem bitnar harkalega á landsbyggðinni og gerir búsetuskilyrði æ erfiðari. Það samræmist illa yfirlýstum markmiðum stjórnarflokkanna um byggðaþróun að sækja svo hart fram gegn velferðarþjónustunni. Sama gildir um hækkun virðisaukaskatts á rafmagn og hita – sem bítur harðast á landsbyggðinni þar sem húshitun er með rafmagni. Ályktun um Kjaramál AFL Starfsgreinafélag leggur áherslu á í komandi kjarasamningum að samið verði um raunverulegar kjarabætur og láglaunafólk sitji ekki eftir þegar hálaunahópar sækja sér miklu hærri launahækkanir en samið verður um almennum kjarasamningum.  AFL Starfsgreinafélag leggur og áherslu á að mestri tekjujöfnun í samfélaginu verður náð með verulegri hækkun persónuafsláttar og þá hærri tekjuskattsprósentu á móti. Félagið vill sækja verulega kauphækkun og þá með aðgerðum ef þurfa þykir.  Kjaramálaráðstefna félagsins telur svo mikla óvissu framundan í kjaramálum að ekki sé ráðlegt að gera samning til lengri tíma en eins árs. Félagið hvetur ríkisstjórnina til að endurskoða samskipti sín við aðila vinnumarkaðarins þannig þau felist ekki í einhliða tilkynningum stjórnvalda um fyrirhugaðar aðgerðir. Félagið telur fulla þörf á víðtækri samstöðu um uppbyggingu húsnæðismála og félagslegs húsnæðis. (Samþykkt á Kjaramálaráðstefnu AFLs Starfsgreinafélags 2014).
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA