Ný skýrsla um konur af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði

Starfsgreinasamband Íslands vill vekja athygli á nýútkominni skýrslu rannsóknarverkefnis um konur af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði, sem sambandið stóð fyrir. Skýrsluna í heild sinni má lesa hér. Þrjú aðildarfélög Starfsgreinasambandsins lögðu fram aðstoð við vinnslu rannsóknarinnar; Efling stéttarfélag, Eining-Iðja og Báran stéttarfélag. Kveikjan að verkefninu var #metoo-byltingin sem kom fram síðasta vetur en í rannsókninni var þó ákveðið að einblína ekki sérstaklega á erlendar konur sem höfðu orðið fyrir brotum á vinnumarkaðnum heldur að athuga hvort stéttarfélögin á Íslandi gætu stutt betur við konur af erlendum uppruna og styrkt þar með þátttöku þeirra á vinnumarkaðnum. Eigindleg rannsókn var framkvæmd þar sem voru settir saman fjórir rýnihópar sem samanstóðu af konum af erlendum uppruna. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þeir félagsmenn sem þekktu til stéttarfélaganna voru almennt ánægð með þá þjónustu sem stéttarfélögin veita. Það sem þarf að athuga frekar eru gæði íslenskunámskeiða og leggja þarf frekari áherslu á tölvunámskeið fyrir fólk af erlendum uppruna með tillit til þess að flest sem viðkemur íslensku samfélagi fer fram í gegnum Internetið. Auk þess kom mikilvægi trúnaðarmannsins sterklega í ljós. Í ljósi þess að Ísland í dag er fjölmenningarsamfélag er mikilvægt að upplýsingar stéttarfélaga komi fram á fleiri tungumálum en íslensku. Niðurstöður rannsóknarinnar gagnast erlendum einstaklingum af báðum kynjum og væri áhugavert að framkvæma sömu rannsókn fyrir karlmenn af erlendum uppruna til viðmiðunar.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag