Ráðherra tekur undir áhyggjur SGS

Eygló Harðardóttir húsnæðis- og félagsmálaráðherra ávarpaði  4. þing Starfsgreinsambands Íslands við setningu þess í dag. Ráðherra sagði góð teikn vera á lofti um að vinnumarkaðurinn væri að braggast og atvinnuleysi að minnka en hins vegar væru stór verkefni eftir: „Stóra verkefnið nú er að byggja upp öflugan, sjálfbæran vinnumarkað með fjölbreyttum og eftirsóknarverðum störfum við allra hæfi. Til þess þurfum við að móta okkur framtíðarsýn í atvinnumálum á breiðum grundvelli og til þess þurfum við víðtækt samráð og samstarf.“ Þá gerði hún grein fyrir því að hún hefði ákveðið að setja af stað vinnu við að móta heildstæða stefnu til framtíðar um vinnumarkaðsmál. „Ég vil að atvinnumál fatlaðs fólks verði hluti af þeirri stefnu, því mér finnst eðlilegt og mikilvægt að horft sé á atvinnumál allra í samhengi í stað þess að taka tiltekna hópa út fyrir sviga. Það er líka mikilvægt að vinnumarkaðsstefnan veki jákvæða framtíðarsýn hjá ungu fólki og hvetji til aukinnar menntungar og betri tengingar milli þeirrar menntunar sem fólk velur sér og þarfa atvinnulífsins. Sem lið í mótun vinnumarkaðsstefnu verðum við jafnframt að finna leiðir til þess að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval og raunar hef ég þegar falið starfandi aðgerðahópi um launajafnrétti kynjanna að skoða þessi mál. Eins eigum við að horfa til þeirrar reynslu sem við höfum innan Vinnumálastofnunar um framkvæmd lánatryggingasjóðs kvenna og styrkja til atvinnumála kvenna. Þessi verkefni hafa staðið yfir í rúmlega tuttugu ár og enn virðist vera þörf á þeim.“ Á þinginu verður meðal annar fjallað um skert framlög til vinnumarkaðsaðgerða og í drögum að ályktunum fyrir þinginu er það harðlega gagnrýnt. Ráðherra sagðist deila áhyggjunum og ætlar sér að „gera hvað ég get til að tryggja aukið fé í verkefni af þessu tagi.“ Þá fjallaði ráðherra um húsnæðismál sérstaklega og sagðist fagna því að Starfsgreinasambandið væri tilbúið í vinnu við að koma upp húsnæðismöguleikum á félagslegum grunni. Ávarp Eyglóar Harðardóttur í heild sinni.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag