Röðin komin að almennu launafólki

„Við fengum skýr skilaboð á samningafundi í gær frá Samtökum atvinnulífsins um að ekki væri vilji til að ræða frekar okkar sanngjörnu kröfur. Vinnuveitendur telja að efnahagslífið þoli ekki að lægstu launin verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára og þess vegna var ekki annað í spilunum en að slíta viðræðum. Samninganefndin var kölluð saman þegar þessi afstaða vinnuveitenda lá fyrir, sem samþykkti samhljóða að slíta viðræðum,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, en hann er jafnframt formaður Starfsgreinasambands Íslands. Sambandið fer með samningsumboð fyrir sextán aðildarfélög.  Björn segir að krafa félaganna sé skýr, fyrst og fremst um hækkun lægstu launa. „Það er engum blöðum um það að fletta að röðin er komin að almennu launafólki. Ýmsar starfsstéttir hafa samið um verulegar kjarabætur og við teljum að röðin sé komin að almennu launafólki. Það er grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum. Verkalýðshreyfingin kannast vel við þennan söng vinnuveitenda, en skilningsleysi þeirra nú veldur okkur miklum vonbrigðum.“ Samstaða, beittasta vopnið Björn segir Starfsgreinasambandið nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá félögum sínum til verkfallsboðunar. „Atkvæðagreiðsla fer fram fyrir páska, það liggur fyrir að við þurfum að fara í átök til að knýja fram okkar raunhæfu kröfur. Á þessari stundu er ekki hægt að greina frá fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum, það verður væntanlega gert í næstu viku. Það hvarlar ekki annað að mér en að þátttakan í atkvæðagreiðslunni verði góð, enda voru kröfurnar mótaðar á fjölmörgum vel sóttum fundum, með hliðsjón af niðurstöðu viðhorfskannana. Öllum félagsmönnum gafst kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif, þannig að ég er sannfærður um að þátttakan í atkvæðagreiðslunni verður góð. Samstaða er okkar beittasta vopn og þess vegna er mikilvægt að félagsmenn standi þétt saman. Verkall er neyðarréttur og við vísum ábyrgðinni alfarið á hendur vinnuveitendum, komi til verkfallsaðgerða,“ segir Björn Snæbjörnsson.   Heimild: Vikudagur
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA