Sjálfstæðisbarátta þjóðar og kotríkið.

Í tilefni fullveldisdagsins. Öllum er ljóst að efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika. Afskiptaleysi í stjórnmálum er vissulega stjórnmálastefna en hér á landi viðgekkst þannig afskiptaleysisstefna að hvítflibbaglæpamenn rændu fyrirtæki og fjármálastofnanir blygðunarlaust með því að mergsjúga út úr þeim eigið fé og annarra manna  með afleiðingum sem allir þekkja. Skortur á fjármagni til fjárfestinga í atvinnulífinu, gjaldeyrishöft og óuppgerðar sakir vegna Icesave eru meginástæða þess að hér er nú eitt mesta atvinnuleysi sem um getur í Íslandssögunni. Það skýtur skökku við að forseti lýðveldisins skuli í viðtali við fjármálaritið The Banker (visir.is. 4.12.) halda því fram að Íslendingar þurfi ekki á erlendri fjárfestingu að halda því;  ,,of mikið innstreymi erlends fjármagns hafi einkennt efnahagslífið á Íslandi fyrir bankahrun og orðið til þess að hagkerfið ofhitnaði og hrundi.” Er forsetinn búinn að gleyma orsökinni, þeirri að hið frjálshyggju einkavædda bankakerfi hrundi yfir okkur hin með skelfilegum afleiðingum,  vegna þess m.a.  að hagkerfið ofhitnaði vegna útlánsþenslu sem reyndist vera froða. Til voru menn í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga sem lögðu ríka áherslu á mikilvægi erlendrar fjárfestingar í  efnahagslegri og pólitískri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þar skal fyrst nefna Skúla Magnússon landfógeta.  Iðnreksturinn í Viðey, Innréttingarnar, eru einmitt dæmi um mikilvægi erlends fjármagns við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi og fyrir þær hefur Skúli  verið kallaður faðir Reykjavíkur. Við minnumst 300 ára afmælis hans á næsta ári, 2011, en við munum þá einnig minnast sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar, en þá verða 200 ár liðin frá fæðingu hans. Sjálfstæðishetjan sú, ,,sómi Íslands, sverð þess og skjöldur” var einnig umhugað um verslunarfrelsi og erlendar fjárfestingar til þess að lyfta okkur upp úr þeirri örbirgð kotsamfélagsins sem þjóðin var í. Og ekki má gleyma þeim sem komu í kjölfarið, þá var ekkert dekur við nýlendukúgara og einangrun, heldur krafa um sjálfstæði, verslunar- og atvinnufrelsi, að verkafólk fengi laun sín í peningum og mikilvægi erlendra fjárfestinga í efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði þjóðarinnar á okkar skilmálum. Forseti lýðveldisins nú virðist á öndverðum meiði við sjálfstæðishetjurnar, hann virðist mæla fyrir einangrun, að við þurfum ekki á erlendum fjárfestingum að halda, hann virðist tala gegn lausn á Icesavemálinu en dekrar í staðinn við aukin efnahagsleg tengsl við nútímanýlenduherra í Kína og í Rússlandi Pútíns. Vissulega eru til menn sem vilja festa Ísland í sessi eylandsins, en átta sig ekki á að í leiðinni er verið að festa í sessi einangrun láglaunasamfélagsins og kotungsskap. Það var verkefni okkar á síðustu öld að breyta íslenska kotríkinu í nútíma velferðarríki og lyfta þannig merki sjálfstæðishetjanna. Það er enn hlutverk verkalýðshreyfingarinar að standa vörð um velferðarríkið og kjörin og að berjast gegn viðhorfum kotbóndans um sjálfstæði hans, hvað sem tautar og raular. Það viðhorf skilar  þjóðinni engu til framtíðar.
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag