Starfsfólk skyndibitastaða mótmælir í dag

Í dag, 15. apríl, boða starfsmenn skyndibitastaða í Bandaríkjunum til viðamikilla verkfalla og mótmæla til að krefjast þess að tímakaup á skyndibitastöðum í Bandaríkjunum verði að lágmarki 15 dollarar, eða jafnvirði rúmlega 1.700 króna. Hingað til hafa atvinnurekendur ekki viljað koma til móts við kröfur starfsfólksins og sagt kröfuna vera óraunhæfa. Þúsundir starfsmanna í meira en 200 borgum víðs vegar um Bandaríkin munu því leggja niður störf í dag og ganga út í mótmælaskyni. Þá munu sambærilegar mótmælaaðgerðir fara fram í yfir 40 löndum á sama tíma. Þetta er í þriðja sinn sem starfsmenn skyndibitastaða boða til álíka aðgerða, en áður höfðu þeir lagt niður störf og mótmælt bágum kjörum sl. vor og haust og vöktu þær aðgerðir mikla athygli víðs vegar um heim. Þá ætlar fjöldinn allur af háskólanemum að sýna stuðning í verki og mótmæla með starfsfólkinu, en alls hafa 170 háskólar víðs vegar um Bandaríkin skipulagt mótmælagöngur í dag. Ekki nóg með það heldur munu háskólaprófessorar, flugvallarstarfsmenn og starfsfólk í aðhlynningu einnig taka þátt í mótmælunum og sýna þannig starfsfólki skyndibitastaða stuðning. Það er bláköld staðreynd að starfsmenn skyndibitastaða víðsvegar um heiminn hafa lengi búið við bág launakjör og erfiðar vinnuaðstæður og víða er raunin sú að starfsfólk skyndibitastaða getur ekki lifað af laununum til að framfæra fjölskyldum sínum nema með annarri vinnu eða mikilli yfirvinnu. Þar fyrir utan einkennist þessi starfsstétt af fáum risavöxnum keðjum sem skila gríðarlegum hagnaði – hagnaði sem skilar sér ekki til starfsmanna keðjanna. Nú hafa starfsmenn skyndibitastaða víðsvegar um heim fengið nóg og tekið höndum saman í baráttunni fyrir bættum kjörum. Krafan er einföld – 15 dollara lágmarks tímakaup! Hér á landi hafa starfsmenn á skyndibitastöðum og veitingahúsum lengi átt undir högg að sækja varðandi sín kaup og kjör. Um þessar mundir standa yfir harðar deilur á vinnumarkaði þar sem m.a. starfsfólk skyndibitastaða og veitingahúsa krefst hærri launa. Hingað til hafa viðbrögð atvinnurekenda við kröfunum verið fáleg, eins og frægt er orðið, og því stefnir í harðar verkfallsaðgerðir á næstu vikum og mánuðum. Starfsgreinasambandið sendir starfssystkinum sínum í Bandaríkjunum baráttukveðjur. Hér má nálgast frekari upplýsingar um mótmælin og hér er hægt að fylgjast með mótmælum dagsins á facebook. GettyImages-454601152.0
  1. 4/30/2024 2:50:44 PM Fjölbreytt dagskrá um land allt á baráttudegi verkalýðsins
  2. 4/29/2024 3:05:43 PM Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2024
  3. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  4. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA