Stokkar forsetinn upp á nýtt?

Miðstjórn Samiðnar lýsir fullri ábyrgð á hendur Alþingi sem hefur ekki valdið hlutverki sínu, hvorki stjórn né stjórnarandstaða. ,,Þolinmæðin er á þrotum og tíminn að renna frá okkur og ef engin raunhæf úrræði koma fram á næstu vikum stefnum við hraðbyri að næsta hruni,” segir í samþykkt Samiðnar frá í gær þar sem lýst er yfir miklum vonbrigðum með þróun efnahagsmála og þá stöðnun sem við blasir í íslensku samfélagi. Undir það er tekið.   Sú dapurlega staðreynd blasir við að Alþingi nýtur nú einungis trausts 13% þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun Gallup. Vantraustið er óbreytt frá því í mars í fyrra og ríkisstjórnin á í vök að verjast. Hún hafði augljóslega ekki styrk til að klára Icesave málið og Ögmundur Jónasson hefur lýst því yfir að aldrei hafi verið vilji innan alls þingsflokks VG til að samþykkja Icesave samninginn sem fjármálaráðherra undirritaði og þjóðaratkvæði var greitt um. Enn er Icesave málið óklárað, en lausn þess er m.a. forsenda þess að önnur mikilvæg mál við endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga. Alþingi ber þar höfuðábyrgð, ríkisstjórnin hafði aldrei meirihluta í málinu.   Þáttur forseta Íslands:   Þáttur forseta Íslands, að grípa inn í atburðarásina með svo afgerandi hætti, dregur í efa að unnt verði, á hinu pólitíska sviði að ná fram þeirri samstöðu sem dugar til að klára Icesave eins og mál hafa þróast. Það ræðst þó á næstu dögum. Það vekur athygli hvernig forsetinn kveður sér  hljóðs í hinni pólitísku umræðu. Umlukinn flóðljósum fréttamanna vílar hann m.a. ekki fyrir sér að senda bræðraþjóðunum á Norðurlöndum tóninn þótt það sé í raun hlutverk utanríkisráðherra og ríkisstjórnar að ræða pólitísk málefni Íslands á erlendri grundu.   Forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin verði að þétta raðirnar, sem þýðir á mannamáli að Vinsti hreyfingin grænt framboð verði að gera upp við sig hvort hún ætlar að styðja ríkisstjórnina sem eitt afl eða ekki. Það gildir líka um nýjan Icesave samning sem liggur á borðinu. Komi sú yfirlýsing ekki og náist ekki samkomulag um nýjan Icesave samning í næstu viku er vandséð að ríkisstjórnin haldi völdum. Þá á forsetinn næsta leik, hvort heldur hann velur að skipa sér starfsstjórn utan þings eða rjúfa þingið og efna til nýrra kosninga. Um þetta er hann einráður ef vill samkvæmt stjórnarskrá.   Í ljósi ofanritaðs er afar mikilvægt að taka undir kröfu Samiðnar á alþingismenn, að þeir ,,láti hagsmuni fólksins í landinu ganga fyrir og lýsa vantrausti á þá alþingismenn sem spila á efnahagserfiðleika þjóðarinnar sér til framdráttar,” eins og segir í ályktuninni.   Ef ekki næst samstaða á Alþingi á næstu dögum um markvissar aðgerðir til að bregðast við vaxandi erfiðleikum fjölskyldna og fyrirtækja þá verður að stokka upp á nýtt.  

Samþykkt Miðstjórnar Samiðnar frá í gær fer hér á eftir:

"Miðstjórn Samiðnar lýsir miklum vonbrigðum með þróun efnahagsmála,aðgerðarleysi stjórnvalda og þá stöðnun sem við blasir hvarvetna í íslensku samfélagi. Miðstjórnin lýsir fullri ábyrgð á hendur Alþingi sem hefur ekki valdið sínu hlutverki hvorki stjórn né stjórnarandstaða. Miðstjórnin skorar á alþingismenn að láta hagsmuni fólksins í landinu ganga fyrir og lýsi rvantrausti á þá alþingismenn sem spila á efnahagserfiðleika þjóðarinnar sér til framdráttar. Ef ekki næst samstaða á Alþingi á næstu dögum um markvissar aðgerðir til að bregðast við vaxandi erfiðleikum fjölskyldna og fyrirtækja þá verður að stokka upp á nýtt. Með stöðugleikasáttmálanum lýstu stéttarfélögin og samtök atvinnurekenda því yfir að þau væri reiðubúin að vinna með stjórnvöldum að nýrri sókn í atvinnumálum. Aðgerðaleysi og sundrung á Alþingi  staðfestir  að sáttmálinn er ekki tekinn alvarlega. Miðstjórnin beinir því til stéttarfélagana í landinu að þau fari að huga að því hvernig hægt sé að knýja fram raunhæfar aðgerðir sem leitt geti þjóðina út úr þeim vanda sem hún er í. Þolinmæðin er á þrotum, tíminn er að renna frá okkur og ef engin raunhæf úrræði koma fram á næstu vikum stefnum við hraðbyri að næsta hruni. Íslendingar  eiga möguleika á  að koma í veg fyrir nýtt hrun og því kallar miðstjórn Samiðnar eftir samstöðu með öllum þeim sem vilja byggja upp  Ísland,  þar sem allir eiga tækifæri, þar sem sameiginlegir hagsmunir eru settir fram fyrir sérhagsmuni, þar sem allir eru látnir axla ábyrgð á gerðum sínum."  
  1. 4/16/2024 2:46:16 PM Nýjar reiknivélar
  2. 3/22/2024 2:49:34 PM Nýir kauptaxtar SGS og SA
  3. 3/20/2024 11:48:06 AM Kjarasamningur SGS og SA samþykktur með miklum meirihluta
  4. 3/13/2024 11:10:50 AM Atkvæðagreiðsla um kjarasamning SGS og SA hefst í dag